Það er ævintýri að spila golf á Kirkjubólsvelli. Hann liggur alveg niður að sjó og við blasir ægifagurt útsýni, opið Atlantshafið og Snæfellsjökull í allri sinni dýrð upp úr hafinu,“ segir Guðmundur Einarsson, formaður Golfklúbbs Sandgerðis, sem var stofnaður á sumardaginn fyrsta 1986.

„Kirkjubólsvöllur var í fyrstu sex holur en var fljótt stækkaður í níu holur og fyrir tíu árum varð hann fullgildur átján holu völlur. Hann stendur á sögufrægum stað því sjöunda holan stendur ofan á kirkjugarði frá því í Tyrkjaráninu. Beinagrindur hafa komið fram í fjörukambinum og ekki langt síðan við komum þar niður á mannabein. Sjálfur lenti ég í því seint um kvöld að við vorum að grafa niður staur og komum niður á lærlegg. Ég var ekkert alltof ánægður með það en við fórum bara með bænirnar okkar og mokuðum yfir hann aftur,“ segir Guðmundur og kímir. „Í gröfunum hafa látnir hvílt öldum saman og það er enginn draugagangur við sjöundu holuna; bara friðsælt og notalegt.“

Flatirnar á Kirkjubólsvelli eru oft iðjagrænar árið um kring enda er hitastigið hærra við ströndina í Sandgerði en til dæmis í Keflavík. MYND/SETH@GOLF.IS

Völlurinn léttur á fótinn

Kirkjubólsvöllur er vinsæll fyrir jafnt vana kylfinga og þá sem eru að taka fyrstu skrefin í sportinu.

„Hér er opið nánast allt árið ef veðrið er gott. Golfvöllurinn liggur meðfram ströndinni sem þýðir að hér er snjóléttara og munar nokkrum gráðum í hita í Sandgerði og Keflavík. Hér hafa iðulega verið iðjagrænar flatir í febrúar og aðsóknin eftir því,“ upplýsir Guðmundur.

Hann segir aðaltímann hjá golfklúbbnum vera frá mars og út maí, þegar enn er lokað á höfuðborgarsvæðinu.

„Hjá okkur er alltaf opið og menn spila grimmt ef viðrar vel. Margir heldri menn mæta eldsnemma á völlinn og fara út að spila á hverjum morgni. Hingað eru allir velkomnir, jafnt atvinnumenn sem og fjölskyldufólk sem vill prófa að spila saman golf við einstakar aðstæður og allt þar á milli. Við höfum haldið golfmót í janúar og febrúar og þá hafa færri komist að en vildu. Við höfum líka haldið sveitakeppnir fyrir öldunga við miklar vinsældir enda er Kirkjubólsvöllur léttur á fótinn og auðvelt að labba allar átján holurnar, engar brattar brekkur en þó er mikið og fagurt landslag í vellinum,“ segir Guðmundur.

Um helgar í sumar verður hægt að njóta dýrindis kaffihlaðborðs í golfskálanum í Sandgerði. Þar er tilvalið að gæða sér á brauðtertum og hnallþórum á skemmtilegum rúnti um Suðurnesin. MYND/SETH@GOLF.IS

Kaffihlaðborð í sumar

Í sumar, frá og með 7. júní, verður boðið upp á dýrindis kaffihlaðborð í golfskálanum um helgar.

„Það verður opið fyrir gesti og gangandi frá klukkan 10 á morgnana og fram til klukkan 17 á daginn og auðvitað ómótstæðilegt að tylla sér niður yfir gómsætum brauðtertum, pönnukökum og hnallþórum með fagurt útsýni til allra átta. Það er tilvalinn sunnudagsrúntur að fara um Suðurnesin, margt fallegt og forvitnilegt að sjá og einkar ánægjulegt fyrir allan aldur að fara í Hafnir, taka þaðan rúnt út í Hvalneskirkju og Hvalneskirkjugarð og koma við í Sandgerði til að gleðja munn og maga á leiðinni út í Garð,“ segir Guðmundur í glæsilegum golfskálanum sem er opinn alla daga fram til klukkan sjö eða átta, en það fer eftir traffík og veðri.

„Í skálanum er alltaf hægt að njóta veitinga, fá sér kaffisopa, gos eða ölkrús, pulsur, samlokur, sælgæti og kökur. Við erum hér til sjö, átta á kvöldin, en eftir það afgreiða menn sig bara sjálfir. Við lærðum heilmikið á veirustríðinu því þá máttu menn ekki koma inn í skálann og millifærðu gjaldið á netinu. Við reynum að halda verðinu í lágmarki og erum með eitt lægsta vallargjald á landinu. Þannig kostar átján holu hringur aðeins 4.000 krónur og níu holu hringur 2.000 krónur, auk þess sem við erum með alls konar tilboð,“ upplýsir Guðmundur á Kirkjubólsvelli.

Guðmundur Einarsson, formaður Golfklúbbs Sandgerðis, mætir oftar en ekki klukkan fimm á sumarmorgnum til að vinna í morgunstillunni við fagran fuglasöng og tilkomumikla sólarupprás.

Golf við töfrandi aðstæður

Það er þægilegt að spila á Kirkjubólsvelli.

„Þótt orðatiltækið segi að ekki skuli byggja neitt á sandi er engu að síður staðreynd að golfvöllurinn í Sandgerði er ræktaður upp á sandi og það mjúka undirlag hentar mjög vel undir golfflatir. Menn eru mjög ánægðir sem koma hingað, grínin eru frábær og halda sér allan veturinn,“ segir Guðmundur, sem tekur sumardagana jafnan snemma á Kirkjubólsvelli.

„Ég mæti iðulega klukkan fjögur eða fimm á morgnana til að byrja að vinna. Þá er blankalogn, sólin að koma upp og fuglarnir syngja sitt fagra lag. Það er nefnilega grýla að það sé alltaf rok á Suðurnesjunum. Hér er oft svakaleg stilla, ekki síst þegar kvöldar og alveg sérstakt að vera hér á sumarkvöldum þegar sólarlagið gyllir sæinn og jökullinn kemur enn nær. Á Kirkjubólsvelli eru töfrandi aðstæður og ef maður vill ná sér í góða slökun kemur maður hingað til að sameinast kyrrðinni og náttúrunni í skemmtilegu og heilnæmu sporti.“

Golfklúbbur Sandgerðis er í Vallarhúsum í Sandgerði. Sími 423 7802. Nánari upplýsingar á Facebook undir Golfklúbbur Sandgerðis.