Helga Rósa hefur tekið á móti alvarlega slösuðu fólki á bráðadeildinni sem ekið hefur verið á. Stundum þarf að klippa fötin utan af fólki og þá hefur hún tekið eftir hversu dökkklætt fólk er og án endurskins. „Einnig hef ég tekið eftir því og kannski sérstaklega eftir að ég eignaðist börn að alls ekki allar útivistarflíkur eru með endurskinsmerkingum. Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga sendi áskorun til íslenskra framleiðenda útivistarfatnaðar fyrir rúmu ári til að vekja athygli á þessu. Hér á landi er myrkur mikinn hluta ársins og fólk stundar útivist allt árið svo það er afar mikilvægt að fatnaðurinn sé með endurskinsmerkingum. Við fengum engin viðbrögð en vonumst til að skilaboðin hafi komist til skila því endurskin er mikið öryggisatriði,“ segir Helga Rósa og bendir á að Íslendingar séu upp til hópa dökkklæddir og þess vegna erfitt fyrir ökumenn að sjá þá.

„Fólk sést fimm sinnum fyrr ef það er með endurskin á sér. Það getur komið í veg fyrir slys sem oft eru mjög alvarleg þegar ekið er á gangandi vegfarendur. Það þyrfti að koma af stað herferð til að vekja athygli á þessu. Snemma á morgnana þegar börn eru að fara í skóla og fólk til vinnu og það er dimmt og rigning skapast mikil hætta. Glitið í dropunum á bílrúðunum og myrkrið er sérstaklega slæm blanda. Sjálf hugsa ég stundum þegar ég keyri í þess konar veðri að þetta séu ákjósanlegar aðstæður til þess að ekið verði á einhvern gangandi. Í starfinu hef ég kynnst hræðilegum afleiðingum slíkra slysa og það er brýnt að koma í veg fyrir þau,“ segir Helga enn fremur.

„Það ætlar sér enginn að valda slysi eða verða fyrir bíl en það eru margir á spani á morgnana og slysin gera ekki boð á undan sér,“ segir Helga sem er móðir þriggja drengja, Más, 6 ára, Ara, 4 ára, og Bjarts Rögnvaldssona. Sá yngsti er tveggja ára. Hún leggur mikið upp úr því að þeir beri endurskinsmerki. „Endurskinsmerki mættu vera ódýrari, þau eru óþarflega dýr. Það þarf að verða vitundarvakning til að fólk setji á sig og börnin endurskin en því miður vantar mikið upp á það. Ég keypti til dæmis regnfatnað og úlpu frá tveimur íslenskum framleiðendum nýlega og það voru engin endurskinsmerki á þeim. Ég hef reyndar séð aðeins bragarbót undanfarið á þessu og ég kaupi frekar flík ef hún er með góðu endurskini. Ef vantar upp á þá kaupi ég endurskinsmerki á ýmsum stöðum, í bókabúðum, hjá Krabbameinsfélaginu og panta þau á netinu.

Það er góður listi yfir sölustaði á heimasíðu Samgöngustofu. Ég gríp tækifærið hvenær sem ég sé sniðug endurskinsmerki og á þau til í ýmsum útgáfum í skúffu í forstofunni. Þau eru af ýmsum gerðum, sem hægt er að líma á fatnað, hengja á fatnað og vesti sem hægt er að klæða sig í. Þannig að ef vantar endurskin eða ef það dettur af flík þá get ég farið í skúffuna og sett strax á, því ef maður græjar þetta ekki strax þá vill þetta gleymast.“