Í upphafi þessa verkefnis settum við okkur háleit markmið sem í fyrsta lagi skyldu tryggja að vörurnar væru afburða hreinar, og í öðru lagi svo virkar að árangurinn væri sjáanlegur með berum augum. Þannig vildum við vinna gegn öllum þeim stóru orðum sem snyrtivöruiðnaðurinn hefur sent frá sér í gegnum tíðina og leggja það í hendur neytenda að meta árangurinn án þess að þurfa að trúa blint á það sem sagt er,“ segir dr. Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiskavistfræði við Háskóla Íslands og frumkvöðull að baki íslensku Taramar-húðvörunum.

Guðrún stóð á fimmtugu þegar hún fór að sjá breytingar á andliti sínu.

„Sem líffræðingur, og oft vinnandi á sjó, var ég nú engin tískuskvísa og lítið að pæla í útlitinu en þarna voru farnar að birtast hrukkur sem ég var ekkert hrifin af. Ég þoldi engar húðvörur á markaðnum og var því farin að lesa innihaldslýsingar aftan á umbúðum þeirra, mér til mikillar armæðu. Með minn bakgrunn í raunvísindum uppgötvaði ég að í húðvörur eru notuð virkilega ógeðsleg innihaldsefni, þar á meðal eiturefni sem ég nota til að fixera fiska og set á mig grímu, gleraugu og hanska til að meðhöndla. Slík efni, sem og mörg mjög ódýr efni, reyndust algeng í kremum sem fólk átti að bera á húð sína og á tímabili var ég full reiði út í snyrtivöruiðnaðinn og upptekin af því hversu aftengdur hann var orðinn neytendum á þeirri einu forsendu að græða á þeim.“

Hjónin og prófessorarnir Guðrún Marteinsdóttir og Kristberg Kristbergsson með starfsfólki í höfuðstöðvum TARAMAR í Sandgerði. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Tímamótauppfinning

Guðrún hefur um margra ára skeið unnið með lífverur úr hafinu og haft löngun til að rannsaka sérstaka eiginleika þeirra. Rannsókn hennar á innihaldsefnum húðvara varð kveikjan að margra ára rannsóknar- og þróunarvinnu við Háskóla Íslands á nýrri tegund húðvara, sem eru hinar hreinu og lífvirku Taramar-húðvörur sem draga úr sjáanlegum áhrifum öldrunar.

„Ég var vön að setja þang í baðið hjá mér sem hafði góð áhrif á húðina. Ég hugsaði með mér hvernig hægt væri að setja þang í húðvöru án þess að breyta því eða blanda því saman við öll þessi skaðlegu og ógeðslegu innihaldsefni sem einkenndu flestar húðvörur sem ég hafði aðgang að. Það var mikil áskorun, því búa þurfti til aðferð við framleiðslu húðvara sem væri töluvert frábrugðin því sem tíðkaðist á markaðnum. Þetta var árið 2005, en það var ekki fyrr en fimm árum seinna að ég áttaði mig á að ég hafði í raun uppgötvað og hannað nýja aðferð við gerð húðvara, sem var ekki þekkt né notuð af öðrum húðvöruframleiðendum. Ég var þá stödd á sýningu á Ítalíu í leit að ákveðinni vél til verksins. Þegar ég spurði söluaðila: „Getur vélin þetta og hitt?“ þá litu þeir á mig í forundran: „Af hverju viltu það?!“ Þá skildi ég endanlega að ég var að nota tækni sem var ekki þekkt,“ segir Guðrún, sem í samstarfi við eiginmann sinn, dr. Kristberg Kristbergsson, prófessor í matvæla-og efnafræði, uppgötvaði nýja aðferð til að framleiða húðvörur.

„Við veltum lengi fyrir okkur hvernig við gætum búið til húðvörur sem væru eins og hrein matvæli og hægt væri að bera á húð og þess vegna borða. Erfiðasta áskorunin var rotvarnarefnin, enda vandasamt að stöðva vöxt sveppa og baktería í kremum sem innihalda vatn. Við vildum alls ekki að óæskileg rotvarnarefni færu inn í líkamann og á endanum fundum við leið til að rotverja vörur án þess að nota þessi skaðlegu efni og erum nú að fá einkaleyfi fyrir uppfinningunni, sem skilur okkur frá öllum öðrum. Aðferðin er afar einföld en þó hafði enginn hugsað út í hana fyrr,“ upplýsir Guðrún.

Öll húðvörulína Taramar er búin til með þessari nýju aðferð.

„Það þýðir að við horfum á barnabörnin okkar borða kremin en það gerir okkur ekkert óróleg því við vitum að þau fá þá bara meira af andoxandi efnum.“

Þarf ekki lengur andlitsfarða

Guðrún og Kristberg hafa nú fengið staðfestingu frá óháðri franskri rannsóknastofu sem prófaði vörurnar á tilraunahópum og mat á tölfræðilegan hátt hver virknin væri.

„Í ljós kom að þær gera miklu meira en við héldum. Þær hafa áhrif á línur og hrukkur, hversu húðin er stinn og þétt, þær jafna hana og mýkja, og gera hana heilbrigðari í útliti. Mældir voru litatónar í húðinni og niðurstöður sýndu að eftir tveggja mánaða notkun á húðolíu Taramar verður litarhaftið hraustlegra og húðin ljómar. Það passar við reynslu viðskiptavina okkar, eins og Maríu Ellingsen leikkonu, sem segir: „Ég hef eingöngu notað Taramar kremin í heilt ár – og húðin orðin svo fín að ég þarf ekki lengur að nota andlistfarða dags daglega. Það er líka góð tilfinning að vita að í þessum kremum eru fá en sérvalin efni, öll holl og örugg fyrir líkamann. Svo skiptir það mig máli að með því að nota Taramar er ég að styðja íslenskt kvenvit þar sem heildræn hugsun og ábyrgð gagnvart umhverfinu er lögð til grundvallar”.”

Í tilefni konudagsins á sunnudag fæst TARAMAR-serúm gefins með hverju dagkremi.

Efni sem eru sköpuð fyrir húðina

Segja má að upphaf Taramar-húðvaranna hafi verið í rannsóknum á matvælum. Kristberg og nemendur hans höfðu unnið lengi með lífvirk efni úr matvælum og þróað tækni til að ferja þessi efni inn á rétta staði í líkamanum. Því lá beint við að nota sömu tækni við þróunina á húðvörunum og því innihalda þær flestar náttúrulegar ferjur sem aðstoða við að koma lífvirku efnunum inn í húðina. Þannig var upptaka á efnunum rannsökuð með lifandi frumulíkönum sem og hefðbundnum mælingum á oxun og lífvirkni.

„Niðurstöður sýndu fram á ótrúlegustu hluti og margt sem við vissum ekki áður. Þetta er algjörlega vannýtt auðlind af mjög öflugum efnum sem eru eins og sköpuð fyrir húðina. Til dæmis kom í ljós að ein tegund þangs inniheldur efni sem stoppar niðurbrot á byggingarefnum húðarinnar. Þessi nýstárlega aðferð gerir okkur kleift að velja eingöngu efni sem hafa góð áhrif á húðfrumurnar, með því að fanga sindurefni, draga úr oxun og bólgum, styrkja kollagenþræði, viðhalda réttu raka- og sýrustigi og efla heilbrigð efnaskipti og bruna,“ upplýsir Guðrún.

Húðin verður betri og betri

Taramar-húðvörurnar eru ein af fáum íslenskum húðvörutegundum sem eru búnar til hér á landi og innihalda íslenskt vatn. Þær eru fullkomlega hreinar og öruggar, byggðar á lífvirkum efnum úr sjávarfangi og lækningajurtum.

„Við notum ferjur sem búnar eru til úr fosfórlipíðum, sem er byggingarefni húðfruma í líkamanum. Þær virka þannig að lífvirku efni er pakkað inn í annað lífvirkt efni sem tengist húðfrumunum og opnar leið fyrir efnin inn í húðina. Það breytir öllu,“ segir Guðrún og tekur dæmi um Taramar-dagkrem með Q10.

„Oft þegar fólk byrjar að nota kremið roðnar húðin lítillega þegar Q10 fer inn í húðfrumurnar og örvar þannig efnaskiptin í húðinni. Þegar við eldumst og höfum kannski notað mikið af farða og erfiðum kremum, sem liggja á húðinni, verða frumurnar latar, því svo mikið af úrgangs- og eitrandi efnum hafa safnast fyrir og hafa þannig áhrif á bruna og efnaskipti í frumunum. Dagkremið okkar er hannað til að sparka aðeins í húðfrumurnar og endurræsa þær svo þær losi sig við úrgangsefni. Eftir nokkra mánuði kemur í ljós húð sem ekki hefur sést í langan tíma og það er rosalega merkileg upplifun,“ segir Guðrún, sem hefur sjálf notað Taramar-húðvörur síðan 2012.

„Ég er nú orðin 64 ára gömul og er enn að sjá breytingar á húðinni. Það gerir mig ákaflega glaða og mér finnst húðin verða betri og betri!“

TARAMAR er einstök uppfinning á heimsvísu.

Vísindi, náttúra og sjálfbærni

Nafngiftin Taramar á sér skírskotun í alheimsmóðurina Töru sem þekkt er í öllum trúarbrögðum heims, þar á meðal sem María Mey í kaþólsku.

„Tara er gríðarlega öflug ljósvera og miðlar samkennd og kærleika. Tara er sú sem maður getur kallað á þegar gefur á bátinn og mann vantar öxl til að gráta á. Mar tengir okkur við hafið því verkefnin eru öll tengd hafinu og flestar vörurnar innihalda efni úr sjó. Það var svo löngu áður en ég hóf að vinna með lífvirk efni að ég vann sem fiskifræðingur á sjó og heyrði sögur frá sjómönnum sem notuðu efni úr sjávarfangi til að slá á verki eða ná sér í meiri orku á löngum vöktum. Þetta fléttast því allt saman og jók áhuga minn á að þróa sum af þessum efnum inn í tilbúnar vörur sem færu á markað,“ segir Guðrún.

Lógó Taramar er líka úthugsað; þrír hringir sem vefjast saman og standa fyrir vísindin, náttúruna og sjálfbærni, sem og hreinleika.

„Talan þrír er merkileg og stendur meðal annars fyrir efnisbirtingu hugmynda í efninu. Hún táknar einnig hina heilögu þrenningu og ekki síst okkur sjálf; sálina, egóið og líkama. Sagt er að hlutverk mannanna sé að tengja þessa þætti saman en líkaminn vill oft gleymast og hér erum við að hjálpa líkamanum að ná vellíðan, slökun og auknu heilbrigði og stuðla þannig að samþættingu allra þátta.“

Fellingarnar hurfu á mánuði

Ásamt húðlínunni Taramar Beauty hafa Guðrún og Kristberg gert barnalínuna Tarakids sem hlotið hefur gullverðlaun Baby and Toddlers Awards.

„Taramar-vörurnar eru engum líkar og viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar, ekki síst við aðferðinni sem við uppgötvuðum á heimsvísu,“ segir Guðrún.

Hún nýtur þess að fylgjast með umsögnum þeirra sem nota Taramar.

„Það er skemmtilegast að heyra ótrúlegar sögur um áhrif Taramar og vörurnar eru að leysa svo mörg vandamál hjá mörgum. Sjálf er ég engin tískudama en var komin með hvimleiðar fellingar yfir augnlokin. Ég vissi að sumar vinkvenna minna höfðu látið skera þær í burtu en ákvað fyrst að reyna að þróa augnkrem sem myndi draga úr þessum fellingum. Það tókst svo vel að ég er ekki enn farin í uppskurð, efnin eru úr alparós og þangi og þétta húðina svo vel að á einum mánuði má sjá millimetra breytingar á fellingunum. Öll þessi efni eru að koma úr náttúrunni, þar er svo mikið sem eftir á að uppgötva!“

Í tilefni konudagsins fæst Taramar-serúm gefins með hverju dagkremi sem verslað er á taramar.is.

Taramar fæst einnig í Fríhöfninni, Sápunni á Laugavegi, Urðarapóteki, Lyfsalanum, Íslandsapóteki og Hagkaup Kringlunni, Smáralind, Garðabæ og Akureyri. Allt um Taramar á taramar.is.