Á Reykjalundi starfa tæplega 200 starfsmenn með mikla reynslu og 120-130 manns njóta þjónustunnar á degi hverjum. Nú eru um 1.500 á biðlista inn á Reykjalund en 1.000-1.200 manns fara í gegnum meðferð á ári. Flestir eru 4-6 vikur í senn. Á Reykjalundi eru 60 gistirými í boði fyrir fólk af landsbyggðinni eða fólk sem af öðrum ástæðum kemst alls ekki heim til sín í lok dags.

Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS. Nýbyggingar og viðhald á húsnæði Reykjalundar er að meginhluta fjármagnað með hagnaði frá Happdrætti SÍBS. Almenn starfsemi er fjármögnuð með þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Starfsemin hófst árið 1945 og þá var markmiðið að endurhæfa sjúklinga eftir berklaveiki. Um 1960 fór berklaveikin að láta undan síga með tilkomu nýrra og öflugra lyfja og ljóst varð að ekki væri lengur þörf á endurhæfingu fyrir þennan sjúklingahóp í sama mæli og áður. Á næstu árum breyttist því starfsgrundvöllur Reykjalundar og áhersla í endurhæfingu varð fjölbreyttari. Reykjalundur þróaðist smám saman í alhliða endurhæfingarmiðstöð og er enn að þróast í takt við nýja þekkingu í heilbrigðisvísindum. Nýjasti sjúklingahópur Reykjalundar er nú þeir sem veikst hafa af Covid og glíma við langvinn eftirköst af þeim sökum.

Stærsta endurhæfingarstofnun landsins

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Endurhæfingin á Reykjalundi er teymisvinna sem er einstaklingsmiðuð og sérsniðin fyrir hvern sjúkling. Tekið er mið af getu hans og færni, sem og persónulegum þáttum eins og menntun, fjölskyldu, búsetu, kyni og vinnu, allt eftir því hvaða markmið er með vinnunni. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þátttöku sjúklings.

Meginmarkmið endurhæfingar er að aðstoða fólk við að ná sem bestri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og færni. Þar meðtalið að bæta líðan og lífsgæði. Eftir alvarleg veikindi, slys, áföll eða aðgerð getur endurhæfing hjálpað til við að ná aftur fótfestu í daglegu lífi og koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn.

Átta þverfagleg teymi

Á Reykjalundi starfa átta þverfagleg meðferðarteymi heilbrigðisstarfsfólks með mismunandi áherslur og sérhæfingu. Þau eru: Hjartateymi, lungnateymi, taugateymi, geðheilsuteymi, offitu- og efnaskiptateymi, gigtarteymi, verkjateymi og starfsendurhæfingarteymi. Níunda teymið er svo sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarður, en það er legudeild sem sinnir þeim skjólstæðingum sem þurfa sólarhringsþjónustu. Hlein er heimili á lóð Reykjalundar sem er starfrækt samhliða starfsemi Reykjalundar en þar búa einstaklingar með fötlun af völdum sjúkdóma eða slysa. Auk þessa eru starfræktar ýmsar einingar innan Reykjalundar eins og Hjarta- og lungnarannsókn, innskriftarmiðstöð og fleira.

Á Reykjalundi fara fram öflugar mælingar á starfsemi hjarta og lungna.FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN