Arna Rún Óskarsdóttir, forstöðulæknir á endurhæfingu og öldrunardeild Sjúkrahússins á Akureyri, segir að berklar hafi verið alvarlega ógn á fyrri hluta síðustu aldar. „Sem dæmi voru 75% þeirra 50 sjúklinga sem dvöldu á Sjúkrahúsi Akureyrar árið 1925 berklaveikir. Hornsteinninn að Kristneshæli var lagður í maí 1926 og það var vígt 1. nóvember 1927. Í árslok það ár voru sjúklingar á Hælinu 47,“ segir Arna Rún. „Árið 1976 útskrifaðist síðasti berklasjúklingurinn og það ár tók heilbrigðisráðherra ákvörðun um að Kristneshæli yrði rekið sem hjúkrunar- og endurhæfingarspítali. Rekstur endurhæfingardeildar hófst þó ekki fyrr en 1985 en síðan þá hefur markvisst verið byggð upp endurhæfingarstarfsemi og árið 1994 var komið á öldrunarlækningadeild,“ bætir hún við.

„Í dag eru eru tvær legudeildir á Kristnesspítala, alls 33 rúm. Önnur er opin sjö daga vikunnar en hin er fimm daga deild. Á báðum deildum er veitt þjónusta innan endurhæfingar- og öldrunarlækninga á vegum Sjúkrahússins á Akureyri. Einnig eru starfrækt fimm dagdeildarrými.

Á Kristnesspítala er útibú frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands,“ upplýsir Arna og bendir á að grunnur starfsins sé þverfagleg teymisvinna meðferðaraðila í samvinnu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra. „Læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafi, sjúkraliðar og aðstoðarfólk starfa í teymum. Einnig koma inn í teymin talmeinafræðingur og sálfræðingur þegar við á. Samvinna við þjónustuaðila utan stofnunarinnar er mikilvægur þáttur í starfinu. Má þar nefna heilsugæslu og þá sérstaklega heimahjúkrun, ýmis úrræði á vegum Akureyrarbæjar auk Virk starfsendurhæfingarsjóðs.“

Arna segir að sjúklingar komi víða að. „Innlögnum af bráðadeildum sjúkrahússins á Akureyri er forgangsraðað, til dæmis af lyflækningadeild og skurðlækningadeild í kjölfar veikinda og slysa en einnig koma tilvísanir úr heilsugæslu bæði frá Akureyri og nærsveitum og í raun upptökusvæði Sjúkrahússins á Akureyri. Sjúklingar fá einstaklingsbundna þjónustu en einnig er áhersla á hópastarf. Starfræktir eru lífsstíls- og lungnahópar auk virknihópa þar sem unnið er með langvinna verki. Fræðsla er mikilvægur þáttur í hópavinnunni. Einstaklingar sem taka þátt í hópastarfi koma í skipulagða dvöl en lengd endurhæfingar hjá þeim sem koma beint af sjúkrahúsinu er mislöng. Fjöldi beiðna árið 2019 var 241 fyrir endurhæfingarsvið og 147 fyrir öldrunarlækningasvið. Einstaklingar sem fengu þjónustu innan öldrunarlækninga á árinu 2019 var 126 og á endurhæfingarsviði 184. Komur á dagdeild endurhæfingarlækninga voru 289.“

Arna segir að starfsfólkið sjái mjög oft góðan árangur. „Vissulega birtist hann mishratt en batinn er það sem gleður okkur og nærir alla daga. Stöðugt viðhald á spítalanum er sömuleiðis endalaust verkefni sem lýkur sennilega aldrei enda er þetta gömul og merkileg bygging.“