Kristján Páll Rafnsson stofnaði Fish Partner upphaflega sem smá hliðarverkefni samhliða annarri vinnu en félagið greip fljótt hug hans allan og er nú hans aðalstarfs.

„Upphaflega var fókusinn á silungsveiði af því það var enginn að kynna hana á almennum markaði á þeim tíma. Ekki eins og við höfum gert,“ segir Kristján Páll.

„Félagið hefur gengið mjög vel og hefur vaxið og dafnað. Við erum búnir að taka í notkun fullt af óþekktum veiðisvæðum og höfum þannig skapað tekjur úr engu, sem er mjög jákvætt bæði fyrir okkur, landeigendur og veiðimenn.“

Kristján Páll segir að þrátt fyrir að þeirra áhersla sé á silungsveiði sé ekkert launungarmál að þeir hjá Fish Partner hafi verið að reyna að ná laxveiðiá.

„Við höfum tekið þátt í útboðum en ekki náð stórum bita. En við höfum farið nýjar leiðir og fetað í önnur fótspor en aðrir. Við höfum til dæmis stofnaði veiðimannasamfélagið Veiðifélagar. Það er bæði veiðiklúbbur, afsláttarklúbbur og félagsstarfsemi,“ segir hann.

„Meðlimir í Veiðifélögum fá frítt veiðileyfi í fjölda vatna og fá afslátt hér og þar, bæði af vörum frá Fish Partner og hjá samstarfsaðilum um allt land. Stefna Veiðifélaga er að verða stærstu veiðfélagasamtök á Íslandi. Ég tel okkur vera á góðri leið með að ná því.“

Vötnin sem Veiðifélagar veiða frítt í á þessu ári eru eftirfarandi:

  • Laxárvatn í Húnavatnssýslu
  • Þórisstaðavatn
  • Geitabergsvatn og Eyrarvatn í Svínadal
  • Vesturhópsvatn
  • Langavatn á Héraði
  • Blautulón
  • Reykjavatn og Reyká
  • Dómadalsvatn
  • Herbjarnarfellsvatn
  • Fellsendavatn og Blönduvatn.

Kristján Páll segir hægt að veiða á flestum þessum svæðum út september og hvetur Veiðifélaga til að nýta sér það.

„Það er líka um að gera að láta ferðagjöfina ekki renna út og nota hana til að kaupa gjafabréf hjá félaginu,“ segir hann.

Viðskiptamódel Fish Partner er allt öðru vísi en hjá sambærilegum félögum að sögn Kristjáns Páls.

„Við erum með venjulega veiðileyfasölu, en við erum líka með Íslensku fluguveiðiakademíuna. Það er veiðiskóli þar sem við höfum boðið upp á innanhúss flugukastkennslu yfir vetrarmánuðina. Við höfum líka boðið upp á fluguhnýtinganámskeið fyrir byrjendur og lengra komna, námskeið í stangarsmíði, veiðiljósmyndum og alls konar fyrirlestra,“ segir hann.

„Við stefnum á að halda þessu áfram og styrkja og efla starfið. Námskeiðin hafa verið mjög vinsæl og það hefur verið uppselt í þau nánast öll.“

Góð silungsveiði í sumar

Kristján Páll segir að sumarið hafi gengið prýðilega og orðið algjör viðsnúningur frá síðasta sumri þar sem veltan fór niður um alveg 50 prósent.

„Það var Covid-sumar og 50 prósent af okkar kúnnum eru erlendir veiðimenn, svo þetta sumar var ekkert auðvelt. En sumarið í ár hefur gengið vel,“ segir hann.

Þrátt fyrir að laxveiðisumarið hafi verið lélegt í heild sinni segir Kristján að það hafi ekki komið mikið niður á þeim þó að Fish Partner selji fullt af laxveiðileyfum í endursölu.

„Okkar kúnnar voru heilt á litið mjög ánægðir með sumarið af því það var alveg gríðarlega góð silungsveiði, alveg frá því tímabilið byrjaði og veiðin er enn góð. Núna er sjóbirtingsveiðin á fullu skriði og gengur vel svo heilt yfir litið var sumarið algjör negla fyrir okkur,“ segir hann.

Kristján segir að stefna félagsins í framtíðinni sé að byggja það áfram upp, stækka veiðiklúbbinn og fjölga veiðisvæðum, hérlendis og jafnvel erlendis.

„Það hefur alltaf verið stefna okkar að þjónusta alla. Við seljum ódýr veiðileyfi og dýr veiðileyfi og allt þar á milli. Við fáum fólk sem tjaldar uppi á heiði og veiðir í stöðuvötnum og svo fáum við menn sem koma á einkaþotum og ferðast um landið í þyrlum. Okkar hugmyndafræði er að elska alla og þjóna öllum. Við viljum að allir geti farið að veiða.“