Berglind R. Guðmundsdóttir, María Elísabet Ástudóttir og Jónína Birgisdóttir starfa allar í stjórnunarstöðum hjá ELKO og sitja jafnframt í framkvæmdastjórn. Berglind er forstöðumaður innkaupa- og vörustýringasviðs og stýrir öflugri deild vörustjóra, vöruupplýsingafulltrúa, tollafulltrúa og bókhaldsfulltrúa. María Elísabet Ástudóttir er forstöðumaður sölu- og verslanasviðs og undir hana heyrir allt verslunarsvið og fyrirtækjaþjónusta ELKO, þar af leiðandi sinnir hún verkefnum af ýmsum stærðargráðum. Jónína Birgisdóttir er forstöðumaður þjónustusviðs og ber ábyrgð á þjónustu og þjónustustefnu ELKO, það er, þjónustuupplifun, þjónustusölu, eftirkaupaþjónustu og vörudreifingu. Undir hana heyrir þjónustuver, vefverslun ELKO, þjónustusala og öll eftirkaupaþjónusta.

Berglind bendir á að innan ELKO starfi fjölbreyttur hópur einstaklinga þar sem öll fái jöfn tækifæri til starfsþróunar og til að vaxa í starfi. Mikið sé lagt upp úr því að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín.

María tekur undir og segir að fyrirtækið stuðli einnig að öflun menntunar og bættri velferð starfsfólks sem styrki þar með stöðu einstaklingsins og geri viðkomandi kleift að nýta hæfileika sína í starfi og auka þar með vellíðan og bæta starfsanda. Hún segir ELKO bjóða starfsfólki sínu upp á velferðarpakka með það að markmiði að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu. Einnig bjóði fyrirtækið upp á fjölda námskeiða hjá Stjórnvísi, Dokkunni og Akademias.

Jónína segist sammála og tekur fram að ELKO sé eftirsóknarverður vinnustaður, enda séu mörg tækifæri fyrir starfsfólk til að vaxa, bæði í starfi en líka sem einstaklingar því hægt sé að fá svo mörg tól til að vinna með og nýta í formi námskeiða eða undir hatti velferðarpakkans.

Vilja fleiri kyn til starfa

„Kynjahlutfall starfsfólks mætti vera betra og við viljum fá fleiri kyn til starfa. Raftæki eru nefnilega ekki bara fyrir eitt kyn. Þau sem hefja störf hjá ELKO fá góða fræðslu og fá leiðbeinanda í verslun til að leita til. Við viljum gjarnan stuðla að fjölbreytileika starfsfólks og auka hlut allra kynja,“ segir Berglind. „ELKO er vinnustaður fyrir öll kyn, þar sem öll fá jöfn tækifæri og tryggt er að starfsfólki sé ekki mismunað vegna kyns, aldurs, uppruna, trúar eða annarra þátta. Við reynum að hanna atvinnuauglýsingarnar þannig að þær höfði til allra og hvetjum öll kyn til þess að sækja um auglýst störf hjá okkur. Einnig höfum við breytt vaktafyrirkomulagi í verslunum til þess að reyna að ná til breiðari hóps og bjóðum þar með upp á sveigjanlegri vinnutíma en áður,“ bætir María við.

Umhverfismál í forgrunni

Að sögn Berglindar hefur ELKO lagt aukna áherslu á umhverfismál í rekstrinum og tekið fjölmörg skref til þess að minnka kolefnissporið. ELKO hefur komið upp snyrtilegum endurvinnsluskápum í öllum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, þar sem tekið er við smærri raftækjum, rafhlöðum, blekhylkjum, gló- og flúorperum. „Viðskiptavinir geta því losað sig við alla þessa hluti sem eiga það til að safnast upp á heimilinu og komið þeim í ábyrga endurvinnslu án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð á stærri endurvinnslustöðvar. Við kaupum einnig eldri raftæki af viðskiptavinum þar sem hægt er að koma með gömul raftæki til okkar og ELKO sér svo um að koma eldri tækjum í ábyrgt endurvinnslukerfi.“

ELKO er auk þess alltaf að leita leiða til þess að gera enn betur í umhverfismálum, að sögn Jónínu. „Við tókum stórt skref þegar við hættum að prenta út allar pantanir og reikninga í vöruhúsinu okkar. Þess í stað bjóðum við viðskiptavinum okkar að sækja allar kaupnótur rafrænt í gegnum „mínar síður“ á vefsíðunni okkar.“

Traust viðskiptasamband til framtíðar

ELKO á í samstarfi við stóra erlenda birgja til að tryggja hagkvæmt vöruverð og fjölbreytt úrval, segir Berglind. „Fyrir rúmum tveimur árum hóf ELKO að birta verðsögu vara en með birtingu verðsögunnar vill ELKO auka gegnsæi og stuðla þannig um leið að traustu viðskiptasambandi við viðskiptavini sína til framtíðar.“ Viðskiptavinir eru ávallt á tánum varðandi réttindi sín og ósjaldan skapast þarfar umræður um verðbreytingar á einstökum vörum. „Þessi umræða er yfirleitt hvað hæst í kringum útsölur eða aðra tilboðsdaga þegar mikið er pantað inn af nýjum vörum og verðbreytingar eru örar. Því er verðsagan tæki sem viðskiptavinir geta treyst.”

Traustir ráðgjafar

Þá segir María eitt stærsta verkefni ársins í fullum undirbúningi, en stefnt er á endurbætur á verslun ELKO í Lindum síðar á árinu. „Endurbætur og framkvæmdir eru ansi stórt verkefni sem tekur tíma, en markmiðið með þeim er að lyfta upp útliti verslunarinnar líkt og við gerðum þegar við fluttum ELKO í Skeifunni í nýtt húsnæði, sem opnaði um mitt síðasta ár. Sú framkvæmd gekk mjög vel og það er frábæru starfsfólki að þakka.“

Hún segir mikla samstöðu ríkja innan fyrirtækisins og að starfsfólk hafi lagst á eitt við flutninga og breytingar. „Hjá ELKO starfar nefnilega fjölbreyttur og kraftmikill hópur sem leggur heldur betur sitt á vogarskálarnar. Við erum stolt af verslunum og starfsfólki okkar og leggjum mikið upp úr reglulegri þjálfun innanhúss, sem og fræðslu um nýjar vörur. Það skilar sér svo beint til viðskiptavina okkar í formi ráðlegginga og upplýsingagjafar.“

Til að viðhalda þekkingu og styrkja tengslin við framleiðendur er hópur starfsfólks sendur út á hverju ári á ráðstefnu sem haldin er á vegum Elkjøp. „Þar koma saman allir stærstu raftækjaframleiðendurnir til að kynna nýjustu vörurnar, tæknina og aukahlutina sem eru í sölu eða á leiðinni á markað. Þannig er hægt að miðla fræðslu og þekkingu áfram innan fyrirtækisins og ýta undir að starfsfólk ELKO séu traustir ráðgjafar í raftækjum.“

Viðskiptavinurinn í fyrsta sæti

„ELKO er á virkilega spennandi vegferð þar sem allt kapp er lagt á að veita framúrskarandi þjónustu og eru þarfir viðskiptavina okkar alltaf í fyrsta sæti. Loforð okkar er „það sem skiptir þig máli, skiptir okkur máli“ og höfum við þetta loforð að leiðarljósi í öllu sem við gerum,“ segir Jónína.

„Ólíkar kröfur viðskiptavina um aukna og bætta þjónustu er sífellt að aukast og því fylgja nýjar áskoranir og spennandi verkefni. Við höfum til að mynda lagt mikið í stafræna þróun og erum með tiltölulegan nýjan vef, mjög öfluga leitarvél og vorum fyrst á Íslandi til að bjóða upp á myndsímtöl við sölufulltrúa í verslun. Þar erum við í raun að færa persónulega verslunarupplifun beint til viðskiptavina, hvar sem þeir eru staddir.“

Jónína segir að þar fyrir utan hafi ELKO lagt mikla áherslu á áframhaldandi uppbyggingu þjónustuvers. „Til dæmis er opið til níu á kvöldin í netspjalli hjá okkur og hefur það reynst gífurlega vel. Allar þessar lausnir auðvelda viðskiptavinum okkar, óháð búsetu eða aðstæðum, að sækja þjónustu til ELKO. Þetta eru allt lausnir sem hafa verið innleiddar til þess að eiga ánægðustu viðskiptavinina á raftækjamarkaði og við munum halda áfram að betrumbæta þær og leita nýrra leiða til þess að þróa þær áfram.“