Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fer fram um þessar mundir, en þá fara slökkviliðsmenn og heimsækja börn í 3. bekk í öllum grunnskólum landsins og fræða þau um eldvarnir. Börnin fá einnig eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og söguna af Brennu-Vargi og Loga og Glóð. Í fyrsta sinn fá þau líka að sjá nýja teiknimynd um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg. Börnunum býðst svo að taka þátt í Eldvarnagetrauninni, en þau sem verða dregin úr pottinum fá afhent vegleg verðlaun á 112-deginum, 11. febrúar næstkomandi.

Mikill árangur á 30 árum

„Eldvarnaátakið er verkefni LSS í samstarfi við slökkviliðin og grunnskólana og markmið þess er fyrst og fremst að fræða fólk um eldvarnir heimilisins,“ segir Magnús Smári Smárason, formaður LSS. „Það hefur gefið mjög góða raun að beina þessari fræðslu til barna og það hefur verið gert í hátt í 30 ár. Frá upphafi hafa vel á annað hundrað þúsund Íslendingar fengið þessa fræðslu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í setningu Eldvarnaátaksins í Kópavogsskóla 21. nóvember síðastliðinn. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Þetta hefur skilað miklum árangri. Þetta er mikil vitundarvakning fyrir börnin og þau eru alltaf mjög áhugasöm. Þau skila þessu svo heim og fá foreldrana til að fara yfir eldvarnir heimilisins í jólaundirbúningnum,“ segir Magnús. „Þetta er góð þróun og það verður sífellt algengara að heimili hafi reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi, en þessir hlutir eiga að vera fyrir hendi á hverju heimili.

Börnin læra um þennan eldvarnabúnað og að hverju þarf að huga. Við kynnum líka fyrir þeim nauðsyn flóttaleiða og þau eru hvött til að búa til flóttaáætlun fyrir heimilið og æfa hana,“ segir Magnús. „Aðaláherslan er á börn í 3. bekk núna, en í öðru verkefni er farið í efstu deildir leikskóla til að fræða og þeim hefur líka verið boðið í heimsókn á slökkvistöðina.“

Fræða, en hræða ekki

„Við leggjum mikla áherslu á að börnin þekki neyðarnúmerið, einn-einn-tveir, og kennum þeim að þau geti hringt í 112 eftir aðstoð ef þörf krefur,“ segir Magnús. „Það er settur upp lítill leikþáttur til að hjálpa þeim að muna þetta og reynt að hafa þetta lifandi. Þetta snýst bara um að fræða, en ekki hræða og markmiðið er að þau þurfi ekki að hringja í 112, en geti það ef þörf krefur.

Magnús segir að nýja teiknimyndin geti látið börnin læra án þess að þau viti að það sé verið að kenna þeim.

Allir krakkar sem taka þátt í Eldvarnagetrauninni fara svo í pott sem dregið verður úr 11. febrúar, á 112-deginum,“ segir Magnús. „Þeir sem verða dregnir úr pottinum fá nokkuð vegleg verðlaun afhent við glæsilega og hátíðlega athöfn.“

Teiknimynd nær til barna

„Nú er í fyrsta sinn verið að sýna nýja teiknimynd um persónurnar Loga, Glóð og Brennu-Varg, sem hafa verið hluti af fræðsluefni sem LSS hefur notað í Eldvarnaátakinu undanfarin ár. Markmiðið með henni er að straumlínulaga fræðsluefnið til barnanna og að ná betur til þeirra, en þau taka mjög vel við svona teiknimyndaefni og hafa mikinn áhuga á því,“ segir Magnús. „Það er mjög gott að geta látið börnin læra án þess að þau fatti að það sé verið að kenna þeim.

Það var fyrirtækið Thank You sem framleiddi teiknimyndina fyrir LSS með stuðningi ýmissa aðila,“ segir Magnús. „LSS vill þakka eftirtöldum fyrir stuðninginn við gerð hennar: Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, VÍS hf., Mannvirkjastofnun, Neyðarlínunni, Slökkviliði Akureyrar, Brunavörnum Suðurnesja, Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði Fjarðabyggðar.“

Hafa vit fyrir foreldrunum

„Nú líta margir á yfirferð á eldvörnum sem hluta af undirbúningi jólanna og tímasetning átaksins rímar vel við að koma þessu inn í undirbúning hátíðarinnar,“ segir Magnús. „Krakkarnir sem fá fræðsluna hjá okkur fara líka oft heim og hafa vit fyrir foreldrum sínum. Sumir foreldrar hafa sagt okkur að það hafi fyrir löngu verið kominn tími til að sinna þessu en það hafi ekki gerst fyrr en barnið ýtti á það.

Fræðslan sem börnin fá skilar sér oft vel inn á heimilin og stundum hafa börnin vit fyrir foreldrum sínum í eldvarnarmálum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTONBRINK

Við köllum þessi börn stundum eldvarnafulltrúana okkar,“ segir Magnús. „Við höfum heyrt af stelpu sem fékk fræðsluna og passaði að mamma sín skildi ekki eftir kveikt á kertum þegar hún fór í þvottahúsið. Við heyrðum líka sögu af strák sem var heima með mömmu sinni sem ætlaði að fara að steikja eitthvað í potti svo hún setti olíu í pott og kveikti undir en gleymdi sér svo, þannig að það kviknaði í feitinni. Hún ætlaði að setja vatn á eldinn en þá vissi sá litli að maður á að kæfa svona eld en ekki setja vatn á hann, því vatn á logandi feiti framkallar eldsprengingu!

Við erum mjög ánægð með áhuga barnanna og fjölskyldna þeirra,“ segir Magnús. „Við tökum eftir því að þetta hefur jákvæð áhrif og að fólk tekur mjög vel í þetta verkefni.“