„Í síðustu viku var árlega eldvarnaátakið okkar sett í Grunnskólanum í Borgarnesi, en á þessum tíma ár hvert beinir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sjónum sínum til grunnskólabarna í 3. bekk og kynnir fyrir þeim grundvallaratriðin varðandi eldvarnir heimilisins,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð. „Það hefur nefnilega komið í ljós að börn eru oft besti aðilinn til að minna foreldra á að fylgja leikreglunum varðandi eldvarnir og von okkar er sú að þau hjálpi foreldrum sínum að tryggja öryggi heimilisins.“

Áratugalangt forvarnastarf

„Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur staðið fyrir þessu átaki í 30 ár og það má ætla að á annað hundrað þúsund Íslendinga hafi fengið þessa fræðslu á þeim árum. Námsefnið er sett upp sérstaklega fyrir börn, en þau fá að sjá teiknimynd um Loga og Glóð og Brennu-Varg, þau fá handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og það er kynnt fyrir þeim hvernig neyðarnúmerið 112 virkar,“ segir Jóhann. „Það er gott fyrir okkur sem erum í minni slökkviliðum á landsbyggðinni að hafa aðgang að forvarnaefni sem þessu í eldvarnaátaki okkar. Eldvarnaátakið nýtur stuðnings fjölmargra en helstu styrktaraðilar eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.

Svo stöndum við fyrir Eldvarnagetraun þar sem börnin geta sent inn svör og fengið verðlaun. Verðlaunaafhendingin fer fram 11. febrúar ár hvert, á 112-deginum,“ segir Jóhann. „Í sumar hittum við leikskólabörn og fengum til okkar svokallaða aðstoðarmenn slökkviliðsins. Við hittum leikskólakrakka reglulega, en það er margt sem þarf að kynna fyrir þeim til að draga úr ótta þeirra ef þau lenda í slæmum aðstæðum, til dæmis hvernig við lítum út í göllunum okkar, jafnvel með reykköfunargrímur og allar græjur.“

Ungt fólk sinnir eldvörnum illa

„Fræðslan um eldvarnir heimilisins hefur aldrei verið mikilvægari, við sjáum það á banaslysum sem hafa orðið í eldsvoðum á undanförnum árum á Íslandi og auk þess eiga fjölmargir um sárt að binda vegna eldsvoða þar sem ekki varð banaslys. Það getur verið mikið áfall að lenda í bæði heilsu- og eignatjóni vegna eldsvoða,“ segir Jóhann. „Það er því mjög mikils virði fyrir bæði fyrir sveitarfélög, slökkviliðið og samfélagið í heild að koma í veg fyrir eldsvoða og að fólk kunni að bregðast við ef hann verður.

Almennt eru heimili að efla eldvarnir, en öll heimili eiga að hafa reykskynjara, eldvarnarteppi og slökkvitæki. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið sýndi að almennt eru heimili að efla eldvarnir, sem sýnir og sannfærir okkur um gildi þess að halda uppi reglulegri fræðslu til mismunandi hópa. Það eru sífellt fleiri heimili sem hafa allan nauðsynlegan búnað,“ segir Jóhann. „Fólk á aldrinum 25-34 ára er samt ekki að standa sig nægilega vel í eldvörnum á sínum heimilum og það er hópur sem við höfum áhyggjur af. Við sáum líka að eldvarnir eru almennt lakari í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum og mun lakari en á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins.

Við reynum að ná til allra með fræðslunni okkar og vonumst líka til að vekja fólk til umhugsunar í gegnum eldvarnaeftirlit í fyrirtækjum. Þá fer oft umræða af stað sem smitar út frá sér og hvetur fólk til að taka sig á í eldvörnum,“ segir Jóhann. „Atvinnurekendur þurfa líka að huga vandlega að eldvörnum, tryggja að allur nauðsynlegur öryggisbúnaður sé til staðar og að brunavarnakerfið sé í lagi og tengt við stjórnstöð, svo það fái einhver meldingu ef kerfið fer í gang á næturnar.“

Reykskynjarar og réttur undirbúningur

„Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að eldvörnum. Núorðið leggjum við áherslu á að það þurfi að vera reykskynjarar í hverju rými því tæknin hefur breyst svo mikið á undanförnum árum að það er ekki lengur bara í eldhúsinu sem eldhætta getur skapast,“ segir Jóhann. „Núna eru sjónvörp í svefnherbergjum, hlaupahjól í hleðslu í geymslum og símarnir geta skapað hættu ef þeir eru ekki hlaðnir rétt, til dæmis ef þeir lenda undir kodda á meðan þeir eru í hleðslu. Þetta er eitt af því sem við förum yfir með börnunum, því þau eru farin að nota þessi tæki mikið.

Það er mikilvægt að fara vel yfir rafhlöður í reykskynjurum og prófa þá reglulega. Það er líka gott ráð að setja alltaf rafhlöður ofan í kassann þegar fólk pakkar jólaskrauti,“ segir Jóhann. „Þá man maður frekar eftir því að skipta um rafhlöður í reykskynjurunum árið eftir, en það þarf að skipta einu sinni á ári. Svo eiga að vera slökkvitæki við alla útganga og eldvarnateppi eiga að vera sýnileg í eldhúsum.

Það þarf að ræða og jafnvel æfa inni á heimilum hvernig á að bregðast við ef vaknað er við reykskynjara. Það er mikilvægt að fjölskyldan fari yfir þetta til að takmarka hættuna eins mikið og hægt er, ekki síst þar sem hún eykst í desember,“ segir Jóhann. „Það er líka gott að ræða það innan fjölskyldunnar hvernig á að nota neyðarnúmerið, 112.“

Tryggjum öryggi jólaskreytinga

„Það er margt sem getur skapað eldhættu um jólin. Þegar jólaskrautið er tekið fram er mikilvægt að yfirfara perurnar og skoða kertaskreytingar og ganga úr skugga um að þær geti ekki skapað hættu. Það þarf að tryggja að ekkert fari nálægt loganum og það þarf líka að passa að hann fari ekki nálægt gardínum,“ segir Jóhann. „Það sama á við um útiseríuna, það þarf að tryggja að það verði ekki skammhlaup þó að hún sé tengd við rafmagn utandyra í öllum veðrum. Atvinnurekendur þurfa líka að huga að þessum þáttum á vinnustöðum þar sem skraut er sett upp.

Jólatréð er líka ofboðslegur eldsmatur og því þurrara sem það er, því hættulegra. Það er ágætis myndband á Youtube-síðu Brunavarna Árnessýslu þar sem við settum upp íbúð í gámi, kveiktum eld og svo mældum við hitastigið og tókum tímann á því hversu lengi eldurinn var að berast í jólatréð þannig að það fuðraði upp. Það voru bara örfáar mínútur,“ segir Jóhann. „Það þarf að vökva jólatré til að þau haldi raka, því annars verða þau fljótt alelda ef það kemst eldur í þau. Það þarf líka að passa mjög vel upp á að það komist enginn eldur nálægt gervijólatrjám, því þau fuðra jafn hratt upp.“

Verum örugg um jólin

„Umfram allt viljum við bara hvetja fólk til að fara varlega yfir jólahátíðina. Fara varlega með kerti og opinn eld og hlaða öll tæki, hvort sem það eru snjalltæki eða rafhlaupahjól, í öruggu umhverfi,“ segir Jóhann. „Eldamennska er líka algeng orsök eldsvoða sem valda oft mjög miklu tjóni og því er mikilvægt að hafa öll öryggisatriði á hreinu og tala við fjölskylduna um hvernig á að bregðast við ef eldur kemur upp.

Öryggi fólks er alltaf númer eitt, tvö og þrjú og við vonumst alltaf til þess að það verði ekkert að gera hjá okkur á þessum tíma,“ segir Jóhann. „Til að auka líkurnar á því er mikilvægt að nýta tímann núna fram að jólum til að kynna eldvarnir og minna fólk á að tryggja eldvarnir á sínu heimili.“ ■