„Þegar börnin voru orðin tvö fann ég sterka löngun til að vera meira heima og til staðar. Ég vildi geta farið með börnin að morgni í leikskóla og skóla, og borðað kvöldmat með fjölskyldunni, en vinnutíminn í fluginu býður ekki upp á slíkt,“ segir Emilía Björt sem sýtir það ekki að hafa snúið baki við flugmannsdraumnum.

„Nei, því ég eignaðist óvænt nýjan draum í pípulögnunum. Ég á samt örugglega eftir að klára einkaflugmanninn og fljúga mér til gamans seinna meir.“

Emilía hafði líka reynt fyrir sér í viðskiptafræði í háskólanum en fann sig ekki í náminu.

„Ég hef hins vegar alltaf haft gaman af öllu verklegu, og fyrir hvatningu og með hjálp góðrar vinkonu sem er rafvirki fór ég að skoða hvaða verknám mér hugnaðist að læra. Þar hafði líka áhrif að við hjónin keyptum okkur íbúð sem við gerðum upp sjálf og því var mér hugleikið hvað fólk getur gert sjálft þegar kemur að iðnaðarverkum heima. Mér fannst líka ótvíræður kostur að mennta mig í starfi sem væri traustur starfsvettvangur til framtíðar, því fólk mun án efa alltaf þurfa hjálp við þetta tvennt; rafmagn og vatn, og úr varð að ég ákvað að fara í píparann.“

Strax tekið fagnandi í karlaheimi

Emilía Björt er nú á átján mánaða verknámssamningi hjá Veitum og hyggst ljúka náminu á fimm önnum.

„Við erum þrjár kvensur í skólanum núna og hjá Veitum vinn ég með tveimur stelpum sem hafa lokið náminu. Þegar ég byrjaði í pípulagninganáminu hugsaði ég með mér að ég yrði í kannski eina konan á leið í þekkt karlastarf, en ég hef aldrei fundið fyrir því að vera í minnihluta innan um strákana. Þvert á móti var mér strax tekið fagnandi og ég boðin velkomin í hópinn,“ greinir Emilía frá.

Hún kunni vart að halda á hamri þegar hún byrjaði í náminu.

„Það kom ekki að sök því þótt ég kynni ekkert til að byrja með ríkti strax skilningur á því að ég væri jú að læra og allir voru fúsir að kenna mér réttu handtökin. Ég hef því aldrei fengið á tilfinninguna að ég ætti ekki heima í pípulögnunum heldur fannst mér námið strax eiga vel við mig.“

Emilía Björt segir mörgum hrjósa hugur við því að bogra yfir skítugum klósettum en öll slík vinna sé í raun hreinleg og verkefni pípara auk þess fleiri, skemmtileg og afar fjölbreytt. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Klósettvinnan er hreinleg

Emilía Björt hvetur stelpur og konur til að læra pípulagnir, enda sé mikill skortur á pípulagningarmönnum á Íslandi, yfrið nóg sé að gera og hægt að hafa mjög gott upp úr krafsinu.

„Mörgum hrýs hugur við því að vinna við klósett og klósettlagnir en það er nú minnsta mál og kom mér á óvart hversu hreinleg sú vinna er. Sjálf hafði ég séð mig fyrir mér bograndi yfir skítugum klósettum með svokallaðan „plumber“ eða rassskoruna upp úr buxnastrengnum, en þetta er ekki sama skítavinnan og fólk heldur. Pípulagnir snúast um svo margt fleira og maður getur sérhæft sig í því sem manni þykir mest spennandi í faginu,“ segir Emilía.

Þessa dagana vinnur hún við stofnlagnir á vegum Veitna og nýtur þess í botn að leggja nýtt inntak í hús og standa í alls kyns viðgerðum á kalda vatninu utanhúss.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt starf og kostir þess svo margir. Það er alls ekkert bara fyrir karla að vera píparar, heldur hentar það konum einmitt mjög vel. Við þurfum ekki að vera sturlað sterkar til að vinna við pípulagnir því með réttum verkfærum lærum við að nota þau við öll okkar verk. Þar að auki vinna oft tveir og tveir saman,“ upplýsir Emilía.

Hún undrast að fleiri konur leggi ekki pípulagnir fyrir sig.

„Þetta er nefnilega líka skapandi fínvinna þar sem við teiknum og leggjum lagnakerfi sem er eins og að dúlla sér við að púsla legókubbum saman. Þá er skemmtileg pæling að setja upp lagnagrindur og oft lítið pláss til að koma lögnum fyrir í húsum og þá kemur sér vel að vera nettur og komast alls staðar fyrir,“ segir Emilía.

Að námi loknu, og þegar hún hefur safnað sér meiri starfsreynslu í faginu, á Emilía Björt sér draum um að stofna sitt eigið pípulagningafyrirtæki.

„Það hentar konum með börn að vera í slíkum rekstri því þá geta þær stjórnað tíma sínum betur en í öðrum störfum en samt verið með góð laun. Skemmtilegast finnst mér þegar allt gengur upp og ég sé afrakstur verksins. Til dæmis þegar ég er búin að setja saman fallega grind og hleypa vatninu aftur á, og það lekur ekki lengur og allt virkar betur en áður. Verkefni pípara eru svo margvísleg og mér finnst líka gaman að grafa holur til að finna lagnir, eða snitta rör og sjóða saman í rólegheitum og yfir góðri tónlist á verkstæðinu. Það er sannarlega í mörg horn að líta hjá píparanum og þetta er fjölbreyttasta starf sem ég hef unnið.“ ■