Þær Linda Guðlaugsdóttir og Hrönn Björnsdóttir eru báðar að fara að taka þátt í 150 kílómetra áskorun SÍBS og Vesens og vergangs sem byrjar 1. maí og stendur fram í miðjan júní. Áskorunin felur í sér að þátttakendur gangi a.m.k. 150 km á 6 vikum.

Þann 1. maí er gengin Kattartjarnaleið sem Linda segir að sé skemmtileg leið og eftirminnileg. „Ég hef einu sinni gengið hana áður. Þá var hún reyndar tekin á methraða því það rigndi svo hrottalega að það tók því ekki einu sinni að setjast og fá sér nesti. Ég allavega kaus að standa og bogra yfir bakpokanum meðan ég nærðist svo allt færi ekki á flot. Þetta er í eina skiptið sem ég nennti ekki að fara á vaðskónum yfir á, fór bara á skónum enda bullaði vatnið um tærnar hvort sem er. Allt svona gerir ferðir eftirminnilegar, það „blotnar“ ekki af manni brosið þótt veðrið sé dyntótt.“

Fyrsta ferð Hrannar var einnig eftirminnileg. Það var ferð á vegum SÍBS og Vesens og vergangs í lok haustáskorunarinnar 2016 í hressandi slagviðri og niðamyrkri. „Eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir hún hress. „Í framhaldi skráði ég mig á göngunámskeið – Vesen og brölt í janúar 2017, aðallega til að kynnast helstu gönguleiðum í Reykjavík og nágrenni og fá leiðsögn um hvernig best væri að útbúa sig og þjálfa á veturna. Námskeiðshópurinn náði svo vel saman að við fórum fljótlega að æfa heimaverkefnin á milli námskeiðskvöldanna og styrkja okkur með því að ganga aftur sömu leiðir en þá helst í björtu.“ Hópurinn heldur áfram að ganga og kallar sig Afturgöngurnar.

Linda byrjaði fyrir tveimur árum að ganga í hóp. „Ég hafði fylgst með viðburðum á fésbókarsíðu Vesens og vergangs í marga mánuði og langað að vera með. Fannst það samt eitthvað erfitt. Paufaðist eftir gangstéttum í Kópavogi hring eftir hring, dag eftir dag og það var bara ekki alveg nóg. Svo ef ég fór að Úlfarsfelli eða að Esju eða eitthvað þvíumlíkt þá leið mér bara ekkert vel að vera ein. Ég hafði látið einhverja svona áskorun fram hjá mér fara og dauðsá eftir því, því ég fylgdist með og sá að þær byrjuðu mjög auðveldlega. Þannig að þegar kom að þessari haustáskorun þá gaf ég mér ekkert val. Bara út með þig, takk fyrir. Ég sé alls ekki eftir því. Það var þvílík blessun. Þarna kynntist maður haug af fólki og það var mjög uppörvandi að þarna voru margir þaulvanir og létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna og aðrir eins og ég nýbyrjaðir og vandræðalegir … eða með hor … eða hálfkjánalegir … í pollabuxum en ekki skel.“

Í verslun SÍBS í Síðumúla er nú sértilboð á göngu- og náttúruhlaupaskóm. Linda bendir á að skór skipti máli, fæturnir séu jú farartækin. „Það er betra að hugsa vel um þá. En hver og einn metur auðvitað fyrir sig hvað honum finnst best. Aðstæður eru misjafnar og svo ferðir. Það er samt óþarfi að láta skó stoppa sig. Í göngunum fræðist maður af öðrum um hvað er gott að hafa í huga.“

Hrönn segist hlakka til sumarsins og er búin að skrá sig í fjögurra daga Vesensgöngu í lok júlí þar sem genginn verður Snæfjallahringurinn. „Gönguhátíð Súðavíkur um verslunarmannahelgina er fastur liður enda mikið af áhugaverðum skipulögðum gönguleiðum þá í boði og mikil stemning.“

Linda bendir á að það séu ótrúlega margar skemmtilegar ferðir í boði í sumar með Veseninu og sjálfsagt orðið uppselt í margar þeirra. „Ég hef ekki enn gert upp við mig hverja ég fer í. Mig langar auðvitað að skvera landið þvert og endilangt. Samveran og útiveran eru svo innilega gefandi og styrkjandi.“