Snæfríður eins og hún er kölluð fór ung á sjó með frænda sínum og þá kviknaði áhuginn.

„Ég var 15 að verða 16 ára og hugsaði, þetta er eitthvað. Það er geggjað að vera á sjónum. Svo ég ákvað að það væri annað hvort að hrökkva eða stökkva og prufa námið. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Námið kom mér á óvart. Það var virkilega skemmtilegt og gagnlegt,“ segir hún og bætir við að það hafi ekki verið margar stelpur í náminu þegar hún byrjaði árið 1996, tvær til þrjár á önn en oft var hún eina stelpan.

Starf vélfræðinga einskorðast ekki bara við sjóinn en Snæfríður hefur unnið við fagið bæði á sjó og landi. Henni líkaði mjög vel að vinna úti á sjó en ákvað að leita að vinnu á landi eftir að hún eignaðist börn.

„Með skólanum byrjaði ég að vinna sem háseti og vélstjóri á sjó. Ég tók eitt ár í frí í miðju námi og var þá að vinna sem deildarstjóri rekstrar hjá Ratsjárstofnun uppi á Gunnólfsvíkurfjalli. Eftir skólann var ég á samningi hjá Samherja og kláraði vélvirkjunina. Seinna vann ég hjá Vinnueftirliti ríkisins á Akureyri sem eftirlitsmaður í vinnuvéladeildinni. Eftir það vann ég svo sem stöðvarvörður í Laxárvirkjun. Þetta eru fjölbreytt og ólík störf,“ segir hún.

Það eru í raun vélstjórar úti um allt. Þeir hafa mjög víða þekkingu. Þeir vinna mikið við fyrirbyggjandi viðhald, geta verið í smiðjum að vinna við smíði og hönnun. Þeir eru í framleiðslufyrirtækjum, frystihúsum, í lyftubransanum að þjónusta til dæmis fólkslyftur og svo auðvitað á sjónum að sjá um vélbúnaðinn þar.“

Vélstjórar vinna ólík störf

Snæfríður segir störf vélstjóra geta verið ólík, þau geta verið allt frá því að framleiða vélhluta í fiskvinnsluvélar, setja upp kælikerfi, vera með búrekstur, en vélstjórn er frábært nám fyrir bændur sem þurfa að geta bjargað sér, vinna í álverum, virkjunum, mjólkurframleiðslu, kjöt- og fiskvinnslum.

„Þetta eru fjölbreytt störf og hægt að sérhæfa sig á ýmsum sviðum. Möguleikarnir er mjög margir. Það myndi ekkert virka ef það væru ekki til vélstjórar. Ekkert af þeim störfum sem ég hef unnið sem vélfræðingur hefur mér fundist leiðinlegt. Þetta fer í reynslubankann og ég myndi tvímælalaust mæla með þessu námi fyrir alla,“ segir hún.

Snæfríður settist aftur á skólabekk árið 2011 og lærði sálfræði í Háskólanum á Akureyri og fór í framhaldi af því í nám í stjórnun og stefnumótun í Reykjavík sem hún lauk árið 2016. Í dag starfar hún sem ráðgjafi hjá HSE Consulting.

„Ég er að fara inn í fyrirtæki og veiti ráðgjöf og aðstoð varðandi stefnumótun, sjálfbærni, gæða-, öryggis- og umhverfismál og viðhald vottana, til dæmis ISO9001, 14001 og 45001. Reynsla mín af störfum sem vélfræðingur hefur nýst mér mjög vel í núverandi starfi. Þegar maður er að koma inn í fyrirtæki er maður illa svikinn ef það er ekki einn vélstjóri að vinna þar.“ ■