Verslunin Wasteland var stofnuð í Kaupmannahöfn árið 2003. Verslunin býður upp á notaðar flíkur og er hún vinsælasta verslun sinnar tegundar í Danmörku. Árið 2017 flutti Rakel Unnur Thorlacius til Kaupmannahafnar eftir að hafa stundað stílistanám í London og tók við stöðu verslunarstjóra í Wasteland. „Með tímanum kom upp sú hugmynd hjá mér og eigandanum að opna Wasteland á Íslandi, ég var líka komin með smá löngun til að flytja aftur heim til Íslands,“ segir Rakel. Hugmyndin varð að veruleika og Wasteland opnaði verslun sína á Ingólfsstræti 5 þann 4. maí síðastliðinn.

Miðbærinn það eina sem kom til greina

Þegar kom að því að finna staðsetningu fyrir verslunina komu ekki margir staðir til greina. „Það var aldrei nein spurning að opna búðina neins staðar annars staðar en í miðbænum og það átti ekki að opna búðina fyrr en í nóvember en þegar húsnæðið á Ingólfsstræti kom upp þá var engin spurning um að flýta opnuninni um hálft ár.“

Rakel segir að miklir kostir fylgi því að vera með verslun í miðbænum. „Það er svo mikil stemning að vera með búðina í miðbænum í kringum öll listasöfnin, kaffihúsin og iðandi mannlíf,“ segir Rakel. Wasteland í Reykjavík og Kaupmannahöfn eru ekki ólíkar en báðar verslanirnar liggja við vinsælustu verslunargötur borganna.

Persónulegur stíll og hreinna umhverfi

Fötin eru handvalin frá Bandaríkjunum, Kanada og Japan af Rakel og eiganda Wasteland í Kaupmannahöfn fyrir báðar búðirnar. „Vegna aukinnar vitundarvakningar um að endurnota föt og ekki kaupa hraðtískuföt þar sem fatnaður er einn stærsti mengunarvaldur í heiminum í dag, þá hafa verið frábær viðbrögð frá fólki við opnun Wasteland á Íslandi.“ Rakel segir að mikilvægt sé að fólk taki það til umhugsunar að kaupa notuð föt. „Með kaupum á notuðum fötum ertu ekki einungis að vera góður við umhverfið þitt. Þú ert að kaupa eitthvað sem er einstakt og enginn annar á nema þú og getur þar með skapað þinn eigin persónulega stíl. Það getur stundum verið yfirþyrmandi að ganga inn í verslun sem er einungis með notuð föt og finna eitthvað sem passar á þig þar sem það er bara eitt af hverju en þess vegna er starfsfólkið til staðar til að hjálpa þér að finna þessar fullkomnu flíkur,“ útskýrir Rakel.

Hún mælir með því að fólk gefi sér tíma í að skoða og máta, sérstaklega ef fólk er ekki vant því að kaupa notuð föt. „Notuð föt eru fyrir alla í öllum stærðum og gerðum, unga sem aldna. Við erum með fatnað sem nær alveg aftur til ársins 1940 og dagsins í dag, þannig að það er eitthvað fyrir alla. Markmið Wasteland er að gera Ísland að betri stað og að auka kaup á notuðum fötum.“

Það er opið í Wasteland alla daga vikunnar. Mánudaga til fimmtudaga frá 10.00-18.00, föstudaga frá 10.00-19.00, laugardaga frá 11.00-18.00 og sunnudaga frá 12.00-18.00.

Opið verður í Wasteland á 17. júní frá kl. 10.00-19.00 og tekið verður á móti öllum með bros á vör.