Ferill Eds Sheeran er eitt stórt Öskubuskuævintýri,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. „Hann rís úr öskunni. Hann var ekki neitt. Bara strákur með gítar að syngja, en hann náði að heilla alla og hefur náð alveg rosalega langt.“

Eins og margir aðdáendur söngvarans eflaust vita átti hann frekar erfitt uppdráttar sem barn. Hann stamaði og var lagður í einelti bæði vegna stamsins og vegna þess að hann notaði stór gleraugu. Ed Sheeran hefur sagt frá því í viðtölum að hann hafi hætt að tala í skólanum út af stríðninni en stamið virtist aftur á móti ekki há honum þegar kom að því að syngja. Hann fékk því útrás í gegnum tónlistina. Hann byrjaði ungur að spila á götum úti til að reyna að koma sér áfram í tónlistarbransanum. Hann hætti í skóla og flutti til London þar sem hann leitaði uppi staði til að spila á og sófa til að gista á þess á milli. Ed var staðráðinn í að koma sér á framfæri og þessi staðfesta hans virkaði heldur betur.

„Hann slær öll met, hann er tekjuhæsti tónlistarmaðurinn, hann selur aldrei færri en 30 þúsund miða á tónleikana sína og upp í 100 þúsund. Hann nær svo vel til fólksins. Það sem er sérstakt við Ed Sheeran er að hann er ekki þessi venjulega poppstjarna. Hann er ekki besti gítarleikarinn eða besti söngvarinn. En hann hefur þennan x-factor. Hann býr yfir gæðum. Það er galdurinn,“ segir Bubbu.

Bubbi stefnir á að fara á fyrri tónleika söngvarans í Laugardalshöllinni á laugardaginn.

„Svo fer fjölskyldan á seinni tónleikana. Allavega hluti hennar,“ segir Bubbi.