„Vök Baths eru heitar náttúrulaugar sem liggja ofan á fögru Urriðavatninu, aðeins fimm mínútum frá Egilsstöðum. Þær eru fyrstu og einu fljótandi laugar landsins og fullkominn áningarstaður allra sem vilja upplifa beina snertingu við náttúruna og næra um leið líkama og sál,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths á Austurlandi.

Vakirnar uppgötvuðust þegar þær bræddu af sér snjó á ísi lögðu vatninu og nýttu konur í sveitinni vakirnar til þvotta í gamla daga. Þá fengu þær viðurnefnið Tuskuvakir.

Umgjörð lauganna er engri lík. Ósnortin náttúra, tignarleg fjöll, himinblátt vatn, fagur fuglasöngur og stökkvandi bleikjur upp úr vatninu, sem er mikið sjónarspil.

„Við opnuðum í júlí 2019 og síðan hefur bara verið gaman og viðtökurnar dásamlegar. Hönnun staðarins er í takt við umhverfið og upprunann, með tveimur fljótandi laugum sem eru í laginu eins og hitavakirnar sem mynduðust á vatninu. Fljótandi laugar eru nýnæmi á Íslandi en í þeim ná gestir að upplifa einstaka tengingu við náttúruna með útsýni í allar áttir, og þegar legið er í þeim er eins og maður sé ofan í köldu og íðilfögru vatninu, þótt legið sé í makindum í heitum uppsprettum Urriðavatns. Úr laugunum er svo beint aðgengi úr stiga ofan í vatnið og margir sem nýta sér að fara út í. Urriðavatn er þörungaríkt og hefur heilsusamleg og frískandi áhrif á húðina, sannkallað heilsubað,“ greinir Aðalheiður frá.

Mikið er lagt upp úr snyrtilegri og vandaðri aðstöðu fyrir gesti í Vök Baths.

„Auk fljótandi lauganna ofan í vatninu erum við með tvær heitar laugar við strönd vatnsins, köld úðagöng og gufubað. Í búningsklefum eru góðar sturtur og læstir skápar og hægt að leigja sundfatnað og handklæði í móttöku,“ upplýsir Aðalheiður um glæsilega baðaðstöðuna.

Smáréttir og bröns er vinsæll kostur, sem og æðislegir eftirréttir.
Gómsætar súpur fást á Vök Bistró.

Súkkulaðikaka með wasabi-ís

Annað einstakt við Vök Baths er heillandi tebar sem enginn lætur fram hjá sér fara sem kemur í böðin.

„Borhola heitra uppsprettanna er rétt hægra megin við okkur og þaðan liggur koparrör beint í húsið til okkar þar sem við getum skrúfað frá krana og fengið eina drykkjarhæfa heita vatnið beint úr borholu í bollann, og það líka afar ljúffengt. Á tebarnum bjóðum við gestum að velja handtíndar jurtir frá Móður Jörð í Vallanesi, svo sem myntu, sítrónumelissu og fleira gómsætt í jurtatebollann,“ upplýsir Aðalheiður á Vök Bistro, gullfallegum veitingastað Vök Baths.

Þar er boðið upp á dýrindis bröns, súpur, smárétti og spennandi eftirrétti.

„Við gerðum könnun á meðal gesta okkar, um hvað þeir vildu helst sjá á matseðlinum, og flestir óskuðu eftir fleiri smáréttum og bröns, enda er dásamlegt að setjast að slíkum krásum þegar maður kemur svangur upp úr laugunum. Við erum með þrjá valmöguleika í boði í brönsinum í stað hefðbundins hlaðborðs vegna Covid. Ég mæli svo hiklaust með nýju blómkálsvængjunum og rauðrófuborgaranum, sem dæmi. Vanalega er ég engin rauðrófumanneskja, en drottinn minn hvað þeir koma á óvart og eru góðir,“ segir Aðalheiður sæl.

„Einn kokkanna kom með hugmynd að nýjum eftirrétti sem er heit súkkulaðikaka með wasabi-ís og er algjört lostæti, en wasabi-rækt er hér handan við hornið. Svo erum við með heimabakaðar smákökur og döðlugott sem er alveg hættulega gott. Við höfum sjálfbærni að leiðarljósi í allri matseld og leggjum ríka áherslu á íslenskt hráefni úr heimabyggð. Því breytist matseðillinn reglulega yfir árið, eftir því hvaða hráefni er í boði hverju sinni.“

Roðagyllt kvöldsólin fyrir austan er töfrandi við náttúrulaugarnar í Vök Baths sem er fullkominn áfangastaður fyrir þá sem vilja næra líkama og sál í beinni tengingu við íslenska náttúru. MYND/AÐSEND
Í Vök Baths er hægt að skála á laugarbarnum, fara í gufubað og köld úðagöng.

Dagsferð í Stuðlagil og Vök Baths

Heitu laugarnar á vökunum eru tvær. Önnur er 39-40°C heit, hin er um 41°C.

„Svo erum við með stóra laug sem hægt er að fara beint út í úr búningsklefa og þar er hægt að njóta lífsins á laugarbarnum okkar. Þar jukum við úrvalið að óskum viðskiptavina og erum nú komin með Aperol Spritz og Vita Bona-kokteila á krana sem og Espresso Martini og Pornstar Martini sem er frískandi drykkur úr ástaraldini. Við erum einnig með áfengislausan Aperol Spritz og áfengislaust freyðivín, og bættum við Möet-kampavíni, svo nú er hægt að skála í fallegum glösum á laugarbarnum, sem er vinsælt hjá pörum því hér er vinsælt að eiga rómantísk stefnumót í fagurri náttúruumgjörð lauganna,“ upplýsir Aðalheiður.

Í samstarfi við Austra brugghús hafa þau þróað ljúffenga bjóra fyrir Vök Baths, þá Vökva og Vöku sem fást beint úr krana á laugarbarnum.

„Vökvi og Vaka munu jafnvel fást á fleiri veitingastöðum hér fyrir austan. Mig langar að taka inn fleira góðgæti frá Héraði, og hef nú þegar sett á matseðilinn grafið lamb með bláberjasósu og vinagrette frá Síreksstöðum. Við leggjum áherslu á að koma gestum okkar ánægjulega á óvart og tryggja ljúfa og skemmtilega upplifun, meðal annars með ómótstæðilegri dagsferð með rútu og leiðsögumanni í Stuðlagil þar sem komið er í laugarnar til okkar á eftir og borðaður góður matur.“

Vök Baths eru einstakar, fljótandi náttúrulaugar sem liggja ofan á Urriðavatni, eins og sjá má á myndinni. Aðstöðuhúsið er glæsilegt og fellur fallega inn í náttúruna en þar er fyrsta flokks baðaðstaða og veitingastaður.
Aðalheiður með starfsfólki Vök Baths þar sem dekrað er við gestina.

Ferðaþjónustuhjartað sterkt

Sem fyrr segir er Vök Baths spölkorn frá Egilsstöðum, um fimm mínútum þegar komið er hinum megin við brúna yfir Lagarfljót.

„Það er styttra en að skjótast úr miðbænum í Hafnarfjörð en við erum líka að skoða samstarf við strætó og ferð með leigubíl kostar ekki nema 3.500 krónur. Nú er allt að lifna við á ný og mikið líf og fjör. Við sjáum mikla fjölgun erlendra gesta og ég sé fram á gott sumar. Við hvetjum því gesti til að bóka sig fyrir fram á netinu og gerum líka sýnilegt á netinu ef það er uppselt,“ segir borgarbarnið Aðalheiður í fagurri umgjörð Vök Baths.

„Það var ferðaþjónustuhjartað í mér sem kallaði á mig að koma austur og að taka hér við í upphafi árs. Mér fannst heillandi tilhugsun að koma á stað sem er enn í þróun. Tækifærin eru mörg og ég vil tengja þau við ánægju viðskiptavina. Reyndar voru 97,5 prósent gestanna frekar eða mjög ánægð með heildarupplifun af Vök Baths í könnun sem ég gerði í febrúar en það er áskorun að viðhalda því, bæta í og sýna í verki að við komum til móts við óskir gesta okkar, eins og á veitingastaðnum, laugarbarnum, í gufubaðinu með meiri hita og enn betri stiga úr laugunum út í vatnið. Á meðan gestirnir sjá að við vinnum í hlutunum náum við að viðhalda ánægju þeirra,“ segir Aðalheiður sem vill sjá fleiri landsmenn flytjast búferlum austur.

„Hér er mjög gott að búa og lífið getur varla orðið betra en að vera hér með börn. Hingað austur vantar líka allar tegundir fólks og í allar starfsstéttir; smiði, múrara, snyrtifræðinga, nuddara, viðskiptafræðinga og fleiri. Ég hvet landa mína því til að hugsa málið og skoða tækifærin sem liggja í paradís Austurlands.“ ■

Vök Baths eru á Vök við Urriðavatn, 701 Egilsstaðir. Sjá nánar á vokbaths.is. Sími 470 9500. Netfang: hello@vok-baths.is

Á þessari loftmynd sést yfir framúrskarandi flotta hönnun Vök Baths.
Vök Baths er örstutt frá Egilsstöðum, í aðeins fimm mínútna akstursfjarlægð.