„Gönguhátíðin í Súðavík fer fram dagana 31. júlí–2. ágúst næstkomandi. Hátíðin hófst sem samstarfsverkefni hjá gönguhópi Einars Skúlasonar, Veseni og vergangi, Súðavíkurhreppi og Göngufélagi Súðavíkur og hefur farið fram í nokkur ár og verið í vexti,“ segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

„Á hátíðinni verður boðið upp á göngur fyrir bæði lengra og skemmra komna og alla fjölskylduna. Þetta er fyrst og fremst fjölskylduskemmtun og hún hentar vel göngufólki, en er alls ekki bara fyrir vana göngugarpa,“ segir Bragi. „Mest krefjandi göngurnar eru frekar fyrir vana en auðveldasta gangan er bara leiðsögn um bæinn, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hátíðin hefst með pub-quiz á Melrakkasetrinu á fimmtudagskvöld. Fyrsta gangan hefst svo strax morguninn eftir og síðan verður þétt dagskrá alla helgina.Serbl_Myndatexti:MYNDIR/AÐSENDar

Árið 2019 var hátíðin gríðarlega vel sótt og heppnuð, enda var veðrið alveg frábært, en í fyrra setti veðrið strik í reikninginn þannig að það komu færri. Það er yfirleitt þannig með svona útivistarferðir að fólk er með plan B ef það er vont veður,“ segir Bragi. „En það er búið að vera gott veður á Vestfjörðum í sumar og spáin er góð, svo við sjáum fram á líflega hátíð og hlökkum til, en að sjálfsögðu klæðum við okkur eftir veðri.“

Öflug dagskrá alla helgina

„Það sem gefur hátíðinni sérstöðu er náttúrufegurðin sem er hér í kring, það er einstaklega gaman að fara í göngur hér á svæðinu,“ segir Bragi. „Ég held líka að þetta sé eina hátíðin á landinu sem er með skipulagða dagskrá í kringum göngur. Svo er þetta líka hentug hátíð núna þegar staðan er eins og hún er vegna Covid, því hún kallar ekki á meiri nálægð en fólk treystir sér til.

Mest krefjandi göngurnar eru frekar fyrir vana en auðveldasta gangan er bara leiðsögn um bæinn, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Það verður þétt dagskrá yfir hátíðina sem hefst með pub-quiz með búlgörsku þema á Melrakkasetrinu á fimmtudagskvöld, en þar verður einnig boðið upp á búlgarskan mat. Við erum mjög fjölþjóðleg hér í Súðavík og rekstraraðili Melrakkasetursins í sumar hefur búlgarskan bakgrunn,“ segir Bragi. „Svo hefst fyrsta gangan strax klukkan hálf níu á föstudagsmorgun, en það er svona passlega krefjandi ganga. Síðan verður hátíðin formlega sett klukkan hálf átta um kvöldið. Þá verður stutt skrúðganga að brennu og svo tekur setningarathöfn við.

Göngurnar halda svo áfram yfir helgina og sunnudagur verður þéttasti göngudagurinn, en þá verða göngur klukkan 9, 11 og 12. Þá þarf fólk að velja á milli, það gefst áreiðanlega ekki tími til að fara í þær allar.“

Nóg að gera fyrir þau yngstu

„Fyrir utan göngur verður ýmislegt annað um að vera. Við viljum ekki binda dagskrána alfarið við göngufólk, heldur leggjum við áherslu á að bjóða alla velkomna og hafa afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Það verður náttúrulega nóg að gera fyrir yngstu kynslóðina í Raggagarði, en þar hefur verið gríðarleg uppbygging, ekki síst í sumar og það er mikil aðsókn í garðinn,“ segir Bragi. „Við verðum líka með hoppukastala og fleira fyrir krakkana. Svo verður einhvers konar matarþema í gangi alla dagana sem tengist fjölmenningunni hér og við ætlum að bjóða upp á kjötsúpu með ýmsu sniði í tengslum við það.

Í kringum Súðavík er einstök náttúrufegurð. Það er til dæmis mögnuð upplifun að ganga upp á Kofra.

Við ætlum líka að leggja áherslu á heimatilbúið. Við erum með súkkulaðiverksmiðju hér í Súðavík, Sætt og salt ehf., sem framleiðir mjög vinsælt súkkulaði sem inniheldur sjávarsalt héðan úr héraðinu. Melrakkasetur Íslands verður líka opið alla dagana og það sama gildir um kaupfélagið, þar sem þýski kaupmaðurinn okkar ætlar að taka á móti fólki og bjóða upp á mat,“ útskýrir Bragi.

„Við erum með frábært tjaldsvæði hérna í Súðavík sem allir eru mjög ánægðir með og getur hýst þó nokkurn fjölda gesta,“ segir Bragi. „Þeir sem vilja síður gista á tjaldsvæðinu geta nýtt sér gistiheimilið og það er líka hægt að taka hús á leigu í bænum í gegnum Airbnb.“