Fyrirtækið 3Z var stofnað árið 2008, en fyrstu árin fóru í að byggja grunninn að rannsóknarstarfi og safna gögnum. Árið 2017 hóf fyrirtækið að bjóða þjónustu sína út og það var farið í stórt þróunar- og rannsóknarverkefni fyrir fyrsta stóra viðskiptavininn,“ segir Perla Björk Egilsdóttir framkvæmdastjóri. „Í kjölfarið fengum við styrk frá Tækniþróunarsjóði og síðastliðið ár höfum við sótt okkur verkefni og boðið út þjónustu með einbeittari hætti.

Hjá fyrirtækinu starfa sjö starfsmenn og að jafnaði tveir til fjórir nemar, þannig að að staðaldri eru hér um tíu starfsmenn sem starfa við rannsóknirnar,“ segir Perla. „Mér finnst fyrirtækið hafa verið byggt upp með réttum og skynsamlegum hætti. Það fór góður tími í að byggja undir rannsóknarhlutann áður en farið var að bjóða þjónustuna út.“

„Fyrirtækið sérhæfir sig í að prófa ný lyf við þekktum miðtaugakerfissjúkdómum. Við byrjum á því að herma einhvern mennskan sjúkdóm í fiski. Við notum sebrafiska sem tilraunadýr og framköllum einhvern sjúkdóm, til dæms MND, flogaveiki eða Parkinson,“ segir Karl Ægir Karlsson, prófessor, vísindastjóri og stofnandi fyrirtækisins. „Ef og þegar það tekst getum við notað þennan fisk til að prófa ný lyf sem slá á einkenni sjúkdómsins, sem síðan er hægt að nota í áframhaldandi rannsóknir og hugsanlega verða þá að lyfjum fyrir menn.“

Eru að byrja að þróa eigin lyf

„Upphaflega var fyrirtækið hugsað þannig að það myndi vaxa í fyrirfram skilgreindum skrefum,“ segir Karl. „Það myndi byrja á því að veita þessa þjónustu til lyfjafyrirtækja sem eru í lyfjaþróun. Kúnninn væri þá lyfjafyrirtæki sem ætti fjölmargar lyfjasameindir sem hafa óþekkta virkni. Við prófum þær svo og ef við finnum eitthvað sem virkar á sjúkdóminn sem er verið að skoða er sú sameind tekin til frekari þróunar og endar hugsanlega á markaði.

Næsta skrefið var að prófa okkar eigin sameindir. Þá myndum við kaupa söfn af lyfjasameindum sem hafa óþekkta virkni, prófa þau sjálf og koma þeim á markað,“ segir Karl. „Það er skrefið sem við erum að stíga um þessar mundir, þannig að fyrirtækið er að taka breytingum á innra starfi og vaxa út í það að prófa eigin lyf. Við erum að færa okkur úr því að vera hreint þjónustufyrirtæki í það að vera lyfjafyrirtæki, sem felur í sér meiriháttar breytingu á viðskiptamódeli, en minniháttar breytingu á innra starfi fyrirtækisins.“

„Aðferðirnar sem hafa verið þróaðar hér eru mjög skalanlegar, það er gríðarleg mæligeta hérna og hægt að skoða margar sameindir í einu. Við erum þegar að þjónusta erlend fyrirtæki og höfum þessa gríðarlegu getu og þekkingu hér innanhúss sem við getum nýtt ennþá betur og skapað meiri verðmæti með því að leita að okkar eigin lyfjum. Hugmyndin er að við finnum þau og seljum þau svo áfram í frekari þróun,“ segir Perla. „Í sumar höfum við komist af stað í þessu ferli og núna erum við í viðræðum við bandarískan aðila sem vill vinna með okkur. Þannig að fyrstu skrefin okkar inn í þetta ferli verða mjög stór.“

Nýjar víddir í lyfjaþróun

„Hér hafa verið framkvæmdar svo miklar mælingar að það er til mikið af samanburðargögnum sem er hægt að hafa til hliðsjónar þegar við erum með óþekkta sameind, til að finna hvar þessi lyfjasameind gæti haft verkun,“ segir Perla. „Þessi gögn gefa vísbendingu um hvernig sameindin virkar og við hvaða sjúkdómi.

Það má segja að þessi mikla mæligeta sem er hér til staðar sé að opna nýjar víddir inn í lyfjaþróun við miðtaugakerfissjúkdómum. Það hafa komið fá ný lyf við þeim á síðustu áratugum og það hefur verið vandi að það kemur seint í ljós í þróunarferlinu hvort lyfin virka raunverulega,“ segir Perla. „Aðferðir okkar geta hjálpað til við þetta ferli og stytt það. Það er hægt að skoða fyrr með skilvirkum hætti hvort lyfið hafi raunverulega virkni í manni.“

Eina félagið sem er með þessa sérhæfingu

„Ég myndi segja að sérstaða okkar sé bæði skalanleikinn og þessi áreiðanleiki, að geta skoðað mun fyrr í ferlinu hvort lyfjasameindir hafi virkni sem gagnast mönnum eða ekki,“ segir Perla. „Við erum með dýramódel og skoðum hvernig lyfjasameindir virka á heila lífveru, en ekki bara einstök kerfi innan hennar. Það er hinn raunverulega mælikvarði á virkni lyfja í miðtaugakerfinu, hvernig þau hafa áhrif á lifandi lífveruna í heild.

Okkar sérhæfing er að nota atferlisgreiningu til að sjá hvernig lyfin virka á fiskana. Þeir fá lyfin og atferli þeirra er mælt til að sjá hvort til dæmis Parkinson fiskurinn okkar er betri eða verri. Þannig að við notum atferli sem mælikvarða á heilavirkni, sem er sérstakt,“ segir Perla. „3Z er eina félagið í heiminum sem sérhæfir sig í miðtaugakerfissjúkdómum og hefur bæði þennan skalanleika og notar atferli sem mælikvarða. Í samanburði við tilraunir á öðrum dýrum er þetta mun einfaldara, ódýrara og fljótlegra. Okkar aðferð er hagkvæmari og gefur áreiðanlega niðurstöðu mun fyrr í ferlinu.

Ég hef stundum sagt að 3Z sé eitt mest spennandi fyrirtæki sem hefur komið fram í íslensku atvinnulífi mjög lengi,“ segir Perla. „Við erum alveg sannfærð um að þessar aðferðir okkar verði það sem lyfjaþróun snýst um í framtíðinni og við teljum að við getum verið í fararbroddi þar.“

Þakka sterkum bakhjörlum

„Við eigum sterka bakhjarla sem hafa gert þetta mögulegt. Við erum til húsa í Háskólanum í Reykjavík, sem er einn af okkar eigendum og hefur stutt vel við okkur,“ segir Perla. „Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem og innlendir og erlendir einkafjárfestar hafa líka stutt vel við fyrirtækið og komið með fjármagn, sérþekkingu og reynslu inn í félagið sem hefur nýst afar vel. Svo má ekki gleyma Tækniþróunarsjóði sem hefur veitt okkur styrki sem er gríðarlega mikilvægur stuðningur fyrir ungt nýsköpunarfyrirtæki eins og okkar.“

„Ég myndi segja að aðkoma HR, Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hafi öll verið algjörlega nauðsynleg. Þessir bakhjarlar gegna hver sínu lykilhlutverki,“ segir Karl.