Í mars kom út hljóðserían Hundrað óhöpp Hemingways eftir Lilju Sigurðardóttur, en þær Elísabet Hafsteinsdóttir útgáfustjóri og Sóla Þorsteinsdóttir framleiðslustjóri, segja að ekkert hafi verið til sparað í framleiðslunni.

„Hundrað óhöpp Hemingways er önnur af tveimur hljóðseríum sem eru komnar út á þessu ári en það eru fleiri í pípunum,“ segir Elísabet.

„Hin hljóðserían sem er komin út heitir Handritagildran – Bókaþjófurinn kjöldreginn, og er eftir Friðgeir Einarsson,“ segir hún og útskýrir að hljóðseríur séu í anda hlaðvarpa, nema þær eru alltaf byggðar á handriti.

„Við gerð þessara hljóðsería höfum við verið að leika okkur með hljóðbókaformið, taka það á næsta stig,“ segir Sóla.

„Við framleiðslu hefðbundinna hljóðbóka höfum við alltaf lagt mikinn metnað í að finna réttu lesarana og pössum að allt sé eins og best verður á kosið. Í hljóðseríum er þó ekki einn lesari eins og í venjulegum hljóðbókum. Til dæmis í Hundrað óhöppum Hemingways var Lilja Sigurðardóttir sögumaður en Örn Árnason lék Hemingway á móti henni. Svo voru tugir af öðrum persónum sem voru lesnar inn af öðrum lesurum. Lesararnir komu bæði í stúdíóið og lásu á móti Erni eða komu sjálfir og lásu og við klipptum efnið svo saman. Þetta var mikið púsl!“

Sóla bætir við að einnig hafi verið mikið af hljóðskreytingum og flott stef bæði í Hundrað óhöppum Hemingways og Handritagildrunni.

„Friðgeir sem skrifaði Handritagildruna tók viðtöl og fékk alls kyns hljóðbúta inn í verkið. Hann var svolítið að leika sér með formið og mörk raunveruleika og skáldskapar,“ segir hún.

Fjölbreytt barnaefni

Á þessu ári hefur áhersla einnig verið lögð á útgáfu frumsamins barnaefnis á Storytel. Nýlega kom út fyrsta bókin í nýrri bókaseríu eftir Felix Bergsson um tvíburasystkinin Freyju og Frikka, en næsta bók kemur út í ágúst.

„Í Freyju og Frikka nýtum við hljóðbókaformið mjög skemmtilega. Þau eru tvíburar og lesararnir eru tveir, Felix Bergsson og tengdadóttir hans, Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Þau leika söguna mikið og svo bætum við inn alls kyns hljóðskreytingum og stefi,“ segir Elísabet.

„Auk þess erum við að gefa út Sögustund með afa, með afa okkar allra, Erni Árnasyni. En svo er það Trölladans, það er alveg epískt verk. Þetta er rokksöngleikur fyrir börn, sérstaklega saminn fyrir hljóðbókarformið. Þar er alveg svakalega flott frumsamin tónlist og ég veit ekki hversu margir lesarar komu að verkinu,“ bætir Elísabet við.

„Auk þess erum við að fara að gefa út fræðsluefni fyrir börn í júlí með þeim Sævari Helga Bragasyni og Sigyn Blöndal. Það hefur sannarlega verið nóg að gera í útgáfu barnaefnis hjá okkur, og nóg fram undan í sumar fyrir börn að hlusta á.“

Trölladans er rokksöngleikur fyrir börn, frumsaminn fyrir Storytel.

Ný sería á föstudaginn

Föstudaginn 1. júlí kemur svo út ný hljóðsería hjá Storytel sem Sóla segir að hinar hljóðseríur ársins hafi verið hálfgerð upphitun fyrir.

„Þar erum við að fara alla leið með hljóðheiminn og keyrum allt í gang. Við erum með fimm lesara saman í stúdíóinu sem leika á móti hverjum öðrum og með leikstjóra sem stýrði öllu með glæsibrag. Hljóðheimurinn í verkinu er gegnumgangandi frá upphafi til enda. Hlustandinn gengur alveg inn í hljóðheiminn með aðalpersónunni,“ segir hún.

Hljóðserían heitir Skerið: 13 dagar undir sólinni og er eftir Áslaugu Torfadóttur og Ragnar Egilsson sem unnu hugmyndasamkeppni Storytel í fyrra með þessu verki.

„Þetta er búið að vera lengi í vinnslu hjá okkur og engu til sparað. Haraldur Ari Stefánsson er í aðalhlutverki sem hinn misheppnaði Ási og gerir þetta frábærlega. Svo eru fleiri góðir leikarar með honum, þau Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Stefán Hallur Stefánsson, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir. Friðrik Sturluson sér svo um að púsla þessu öllu saman og glæða hljóðheiminn lífi. Hann er okkar séní þegar kemur að hljóðsetningu,“ segir Sóla.

Margir þekktir leikarar ljá sögupersónum rödd sína. MYND/AÐSEND

Hljóðbókin gjörbreytt kiljumarkaðnum

„Við finnum fyrir mikilli aukningu í hlustun hljóðbóka yfir sumartímann. Þess vegna leggjum við svo mikið upp úr sumarútgáfunni okkar. Það má þannig segja að hljóðbókin sé orðin mjög stór hluti af sumarkiljumarkaðnum og hafi í raun og veru gjörbreytt honum. Sumar kiljur eru einfaldlega betri sem hljóðbækur. Við sáum stóraukningu í hlustun í Covid heimsfaraldrinum þar sem fólk hlustaði í auknum mæli í sumarfríinu og gleðjumst yfir því að sú breyting virðist ekki ætla að ganga til baka,“ segir Elísabet.

Í sumar er þannig einnig von á hefðbundnari hljóðbókum hjá Storytel.

„Um miðjan júlí kemur út ný glæpasaga sem heitir Andnauð og er eftir Jón Atla Jónasson leikskáld og rithöfund. Einnig komum við til með að gefa út bókina Trúnað, eftir nýjan og upprennandi rithöfund, Rebekku Sif Stefánsdóttur. Þar eru fimm raddir jafnmargra vinkvenna sem allar segja sína hlið af sögunni,“ segir Elísabet.

„Þetta eru frumútgáfur sérstaklega skrifaðar fyrir hljóðbókarformið, líkt og önnur verk sem við höfum talað um,“ bætir hún við.

„Við höldum áfram að einbeita okkur að hefðbundnari hljóðbókum í haust, þar sem heilar sögur eru sagðar í einni lengri bók. En við höldum líka aðeins áfram með hljóðseríuformið og gefum meðal annars út eina stóra hljóðseríu í haust,“ segir Elísabet.

Elísabet segir að hljóðseríuformið sé ekki alveg nýtt hjá Storytel.

„Sönn íslensk sakamál komu út hjá okkur árið 2020. Ég myndi segja að það hafi verið fyrsta hljóðserían. En við erum alltaf að ýta forminu lengra og lengra. Til dæmis með því að samþætta það við leik,“ útskýrir hún.

„Það er gaman að fá tækifæri til að nýta okkur hljóðbókarformið jafn vel og við erum að gera,“ segir Sóla. „Það er ekki bara verið að lesa sögu heldur skapa nýjan hljóðheim sem þú gengur alveg inn í. Eins og í bíómynd, nema þú ert bara að hlusta.“