Við erum með sjö hús í boði í nokkrum stærðum og gerðum. Það stærsta er 167 m2 og það minnsta 27 m2. Auk þess erum við með tvo bílskúra, 30 m2 og 54 m2,“ segir Guðbjartur Halldórsson, söluráðgjafi hjá fagsölusviði Húsasmiðjunnar.

Húsin eru stöðluð framleiðsla en það er gert til þess að halda framleiðslukostnaði í lágmarki en tryggja hámarksgæði við hvert hús. „Áður smíðuðum við einingarnar á Íslandi en nú eru þær framleiddar í Lettlandi af fyrirtæki í eigu Íslendinga,“ segir Guðbjartur. Hann nefnir að húsin séu flutt inn í eins stórum einingum og hægt er til að auðvelda samsetningu. Eftir að grunnurinn er steyptur tekur ekki nema tvo til þrjá daga að setja húsið saman svo það sé vind- og regnhelt. Auðvelt er að setja einingarnar upp en til þess þarf kaupandi að hafa með sér byggingastjóra með full réttindi. Húsunum fylgja greinagóðar samþykktar teikningar sem auðvelda uppsetningu. „Þetta er svolítið svipað og að setja saman Lego-kubba,“ segir Guðbjartur í gamni.

Guðbjartur segir húsin einföld og fljótleg í uppsetningu. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Áratuga reynsla

„Það tekur samt ögn lengri tíma en tvo, þrjá daga að gera húsin tilbúin svo hægt sé að flytja inn í þau,“ segir Guðbjartur. Húsunum fylgja hurðir, gluggar og innveggir og hægt er að kaupa þau með timburgólfeiningum líka. Einnig fylgja þakstál, flasningar, þakkantaefni og festingar. „Þegar kaupandi hefur unnið úr því efni sem hann kaupir af Húsasmiðjunni er hann með eitt stykki hús fullbúið að utan og tilbúið undir lagnir (pípu-og raflagnir). Klæðningaefni, til dæmis gifsplötur, raflagna- og pípulagnaefni fylgir ekki með húsunum en Húsasmiðjan selur þessa vöru og býður verðandi kaupendum hana á hagstæðu verði. Það er oft misjafnt hvað hentar eftir staðsetningu húsanna. Innréttingar fylgja ekki. Við seljum þær því miður ekki eins og er, en hver veit nema við byrjum á því einhvern tímann,“ bætir Guðbjartur við en hann hefur sjálfur starfað í bransanum frá árinu 1982 og hefur því bráðum fjögurra áratuga reynslu af sölu einingahúsa. Húsasmiðjan er í nánu samstarfi við hönnuði húsanna og vísar fúslega á þá sé óskað frekari ráðgjafar. Húsasmiðjan leggur áherslu á að ferlið sé einfalt og í góðu samráði við kaupanda.

Hér sést nýjasta húsið uppsett og tilbúið. Þetta er 107m2 hús, rúmgott og fallegt.

Standast reglugerðir

Húsasmiðjan byrjaði að selja einingahús upp úr miðri síðustu öld og er því komin með mikla reynslu og þekkingu á því sviði. Guðbjartur nefnir að stór hluti Hverafoldarinnar í Grafarvogi séu einingahús frá Húsasmiðjunni sem hafi reynst vel. Einingahúsin sem Húsasmiðjan selur eru timburhús. Þau standast allar reglugerðir um heilsárshús og því hægt að nota þau bæði sem íbúðarhús og sumarbústaði eða gestahús. Guðbjartur nefnir einnig að húsin henti vel fyrir ferðaþjónustu. Meðal annars vegna þess hversu fljótlegt er að setja þau upp.

„Það hafa orðið einhverjar breytingar á húsunum gegnum árin, nýjasta hönnunin hjá okkur er 107 fermetra húsið,“ segir Guðbjartur. Húsið er er mjög rúmgott og fallegt með þremur svefnherbergjum, tveimur baðherbergjum, stofu, eldhúsi og rúmgóðri geymslu.

Hin húsin eru með allt frá einu upp í fjögur svefnherbergi og henta því ólíkum fjölskyldustærðum. Á vefsíðu Húsasmiðjunnar, www.husa.is, er hægt að lesa nánar um hvert hús fyrir sig og skoða teikningar.

Gerður – 107 m2 heilsárshús með þremur svefnherbergjum.
Gígja – 80 m2 heilsárshús með þremur svefnherbergjum.
Björk – 167,1 m2 heilsárshús með þremur svefnherbergjum.