Guðmundur Jakobsson stoðtækjasmiður átti sér draum um að verða bakari þegar hann ákvað að söðla um og læra blikksmíði. Sú ákvörðun leiddi hann á vit ævintýranna hjá Össuri.

„Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir hjartalæknum því þeir bjarga svo mörgum mannslífum, en við reynum að gefa aukin lífsgæði með þeim vörum sem við framleiðum hjá Össuri,“ segir stoðtækjasmiðurinn Guðmundur Jakobsson, einn af fyrstu starfsmönnum Össurar á Íslandi.

Guðmundur er búinn að standa vaktina hjá Össuri í 34 ár, eða síðan í október 1987.

Silíkonhulsan var upphafið að ævintýri Össurar

„Fyrirtækið var þá með starfsemi á Hverfisgötu 105, þar sem tíu manna þéttur hópur vann saman og maður lærði fljótt að ganga í öll verk,“ segir Guðmundur.

Eitt af verkefnum Guðmundar var að setja upp tæki sem framleiddi fyrstu silíkonhulsur Össurar Kristinssonar sem nú eru orðnar frægar um allan heim.

„Össuri hugnaðist illa sú staðreynd að fólk þyrfti að koma oft til að breyta og bæta hulsuna sína því stúfar breytast í sífellu eftir útlimamissi. Hann vildi því hanna notendavænni vöru og úr varð hulsa úr silíkoni sem flytur núning á húðinni yfir á ytra borð silíkons, gerir stúfinn stöðugan og festir gervifætur mun betur við einstaklinginn. Þetta var tímamótauppfinning og með silíkonhulsunni hófst ævintýri Össurar sem ég hef verið þátttakandi í allar götur síðan,“ segir Guðmundur.

Þróunarvinna við silíkonhulsuna tók á þriðja ár, bæði hér heima og hjá Össuri sjálfum í Svíþjóð.

„Fyrsta kastið var þetta alltaf bras og stóð á brauðfótum, bæði að gera betur fyrir skjólstæðinga okkar og baráttan við kerfið. Þó fengu allir gervifætur sem þurftu, en allt var svo þungt í vöfum. Árin 1987 til 1993 gjörbreyttist smám saman þjónustan og varan okkar til hins betra, sem og samskipti við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðiskerfið. Þegar við fengum Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 1992 fóru hjólin svo að snúast fyrir alvöru.“

Össur hf. var stofnað árið 1971 af Össuri Kristinssyni stoðtækjafræðingi ásamt nokkrum íslenskum samtökum lamaðra og fatlaðra. Í upphafi þjónaði Össur aðeins innanlandsmarkaði.

Samheldinn samstarfshópur

Fyrstu árin voru vinnudagarnir langir hjá Össuri.

„En hópurinn var samheldinn og Össur sjálfur með svo stórtækar hugmyndir að menn urðu að hlaupa á eftir honum til að halda í við hann. Án hans hugmynda og þess góða mannskaps sem valdist í vinnu til hans værum við ekkert. Allir voru tilbúnir að leggja mikið á sig og þótt enginn gerði sér grein fyrir því þá að fyrirtækið yrði jafn stórt og það er í dag, né að við yrðum með jafn góða vöru og raun ber vitni, var eitthvað sem sagði okkur að við yrðum að gera enn betur í dag en í gær. Það er ástæða þess að Össur er enn til í dag og sú staðreynd að það vinnur enn framúrskarandi og frábært starfslið hjá Össuri.“

Aðstæður voru frumstæðar en þetta gekk upp því menn voru samhentir í að láta hlutina ganga. Allir voru meðvitaðir um hvernig fyrirtækið gekk og tilbúnir að fara í þau verk sem komu upp á borðið hverju sinni.“ segir Guðmundur.

Krafa um aukin lífsgæði

Undanfarin tuttugu ár hefur krafan um aukin lífsgæði aukist mjög á meðal Íslendinga, segir Guðmundur.

„Á þeim 34 árum sem ég hef unnið hjá Össuri hefur þörf á gervilimum aukist mikið. Til að byrja með voru þetta tveir til fjórir einstaklingar á ári sem misst höfðu útlimi í sjó- eða bílslysum en upp úr 1990 fórum við að sjá afleiðingar lífsstílssjúkdóma í auknum mæli. Þá voru þeir þrír til fimm á ári, en í dag missa um 35 manns útlimi á Íslandi á ári. Þar af fá sjö til sautján útlimi hjá okkur,“ upplýsir Guðmundur.

„Auk þess að taka á móti fólki sem misst hefur útlimi í slysum fáum við til okkar fólk sem er um sextugt og eldra og er að missa útlimi vegna sjúkdóma. Það er mikilvægt að koma því aftur út í lífið því það sparar gríðarlegar fjárhæðir fyrir heilbrigðiskerfið að fólk geti séð um sig sjálft. Þeir sem geta nýtt sér vörur Össurar í dag verða sífellt eldri því þær eru svo öflugar að fólk nær að lifa góðu lífi með þeim og heimaaðstoð, þótt við getum enn gert betur,“ útskýrir Guðmundur.

„Á tuttugu árum hefur sú breyting orðið að fólk vill njóta meiri lífsgæða í lífi sínu, hvort sem það hefur misst útlim eða þjáist af slitgigt eða öðru. Fólk lifir lengur og í dag er fólk um og yfir sjötugt mikið í útivist og hreyfingu og í miklu betra formi en jafnaldrar þess voru á árum áður. Það gerir meiri kröfur til sjálfs sín um að vera í betra formi og lifa betra lífi, en einnig meiri kröfur til vörunnar sem við framleiðum, eins og spelkur sem hjálpa þeim til aukinna lífsgæða.“

Um 1990 voru höfuðstöðvar Össurar og stoðtækjaþjónusta staðsettar á þriðju hæð á Hverfisgötu 105 í Reykjavík með aðeins um 30 starfsmenn. Í dag er Össur með yfir3500 starfsmenní yfir 25 löndum.

Hröð tækniþróun

Guðmundur segir þjónustuna persónulega og að fólk leggi allt traust sitt í hendur starfsfólks Össurar.

„Við erum alltaf að reyna að bæta tæknina og búa til betri vöru. Maður þarf að mæta til vinnu á hverjum morgni og vera opinn fyrir því að geta breytt því sem við unnum að fyrir ári síðan. Við vitum að þróunin er hröð og sífellt bætast við nýjar vörur sem geta hjálpað fólki enn betur að lifa lífinu til fulls með þeim annmörkum sem eru,“ segir Guðmundur.

Alls vinna tólf manns á stoðtækjaverkstæði Össurar.

„Við erum engir töframenn en vitum að við getum gert eitt og annað, og reynum að hjálpa öllum á sem bestan hátt. Væntingarnar eru eðlilega miklar og munu síst minnka í framtíðinni, en þetta er mjög gefandi starf.“

Spennandi verkefni

Verkefnin hjá Össuri hafa alltaf verið fjölbreytt og spennandi, að sögn Guðmundar.

„Ég hef fengið að snerta á hlutum utan landsteinanna, meðal annars farið til Lahore í Pakistan árið 2006, sem ég hafði aldrei heyrt minnst á, en voru þá einar af uppeldisstöðvum hryðjuverkasamtakanna al-Kaída. Einnig þjónustum við Sjúkrahúsið í Færeyjum og förum þangað nokkrum sinnum á ári til að smíða stoðtæki, sem er afar skemmtilegt,“ segir Guðmundur sæll í sinni.

„Frá upphafi hefur Össur verið keðja bundin saman af gríðarlega færu fólki. Við fáum til starfa ótrúlega flott fólk sem er með svo frjóar hugmyndir að maður gapir af undrun. Framtíðin er svo sannarlega björt.“