Múlalundur fagnar sextíu ára afmæli í ár. Þar fást allar almennar skrifstofuvörur á einum stað, pappír og ritföng. Þar hafa þúsundir einstaklinga með skerta starfsorku fengið annað tækifæri. „Við segjum stundum að þetta sé einfaldasta samfélagsverkefnið, að panta skrifstofuvörur frá Múlalundi, sem hvort eð er þarf að kaupa, og fá þær sendar daginn eftir,“ segir Sigurður Viktor Úlfarsson, framkvæmdastjóri Múlalundar, vinnustofu SÍBS.

Á Múlalundi starfa dugmiklir einstaklingar sem í kjölfar slyss eða heilsubrests hafa þurft að takast á við andlega eða líkamlega fötlun eða veikindi.

„Það er sannarlega ánægjulegt þegar fyrirtæki flétta samfélagsleg verkefni saman við eigin daglegan rekstur með því að kaupa skrifstofuvörurnar af Múlalundi. Með því fá þau gæðavörur og þjónustu sem aftur styður starfsfólk Múlalundar í að byggja upp sjálfstraust og þrótt með virkri þátttöku á vinnumarkaði. Fólki er enda mjög mikilvægt að fá að mæta til vinnu, eiga vinnufélaga og vera virkt í samfélaginu,“ segir Sigurður.

Vinsæl vefverslun

Á heimasíðunni mulalundur.is er rekin stór og vinsæl vefverslun. „Þar geta viðskiptavinir valið úr glæsilegu úrvali skrifstofuvara, og bæði verð og úrval koma ánægjulega á óvart. Einfalt er að versla á netinu og við sendum vörurnar strax daginn eftir,“ upplýsir Sigurður. Fari pöntun yfir 16.000 krónur er frí heimsending um land allt en ef pantað er fyrir lægri upphæð er tekið lágt sendingargjald.

Nýlega hóf Múlalundur framleiðslu á endingargóðum glærum vösum úr 100% endurunnu efni. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Pennar, pappír og dagbækur

Múlalundur selur allt sem hugsast getur fyrir skrifstofuna. „Verðin hjá okkur eru vel samkeppnishæf og oftar en ekki erum við ódýrari en aðrir,“ upplýsir Sigurður. Hann segir misskilnings gæta um að Múlalundur selji einungis eigin framleiðsluvörur, svo sem möppur og plastvasa. „Við bjóðum líka upp á pappír, penna, töflutúss, löggiltan skjalapappír og allt mögulegt annað fyrir skrifstofuna. Þá er hægt að fá fjölbreytt úrval penna frá BIC, Milan, Pentel EnerGel og mörgum fleirum.“

Á haustin býður Múlalundur landsins mesta úrval af dagbókum. „Þeir sem vilja geta látið gylla eða þrykkja nöfn og fyrirtækjamerki í dagbækurnar og skapað með því vinnu í leiðinni,“ útskýrir Sigurður. „Margir kjósa að kaupa allar sínar skrifstofuvörur hjá Múlalundi og það styrkir okkur mikið í starfi, enda þarf ekki að fara lengra en á Múlalund eftir almennum skrifstofuvörum,“ segir Sigurður.

Röð og regla með Egla

Egla-bréfabindi og -möppur hafa fyrir löngu fest sig í sessi í íslensku atvinnulífi. „Hér innanhúss segjum við gjarnan: Röð og regla með Egla,“ segir Sigurður og brosir. „Við seljum líka tímaritabox þar sem kjölurinn lítur út eins og Egla-mappa og eru hugsuð fyrir skýrslur og gögn sem ekki er hægt að gata. Með þeim er snyrtilegt að horfa yfir hillur skrifstofunnar með allt í stíl,“ segir Sigurður. Fyrirtæki geyma gjarnan gögn í möppum um ákveðinn tíma en færa þau svo yfir í skjalakassa til að endurnýta möppurnar. „Við bjóðum vitaskuld upp á allar þessar lausnir og gott betur, en Egla og fleiri vörur Múlalundar fást beint frá Múlalundi sem og í öllum helstu ritfangaverslunum,“ segir Sigurður. Egla er íslenskt heiti og sækir uppruna sinn í Egils sögu Skallagrímssonar.

Verslun Múlalundar er öllum opin og býður upp á mikið úrval af skrifstofuvörum. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Starfsmannaskírteini og innri markaðssetning

Múlalundur býður upp á barmmerki og hálsbönd fyrir starfsmannaskírteini, fundi og ráðstefnur. Þau eru ýmist framleidd af starfsfólki Múlalundar eða innflutt. „Í dag merkja sífellt fleiri fyrirtæki starfsfólk sitt og þá henta barmmerki og hálsbönd vel. Þau fást í fjölmörgum litum og eru búin sérstakri öryggislæsingu sem opnast sjálfkrafa ef rykkt er í böndin,“ útskýrir Sigurður.

Múlalundur framleiðir einnig músamottur sem eru vinsælar hjá fyrirtækjum til innri og ytri markaðssetningar.

„Á motturnar eru þá prentuð skilaboð til starfsmanna tengd verkferlum, gæðastöðlum, sameiginlegum markmiðum eða átaksverkefnum sem starfsmenn hafa svo við höndina í dagsins önn í orðsins fyllstu merkingu,“ segir Sigurður.

„100% endurunninn“

Margar af vörum Múlalundar eru framleiddar úr plasti og leggur Sigurður áherslu á að fólk sé vandlátt þegar kemur að kaupum á plastvörum.

„Mikilvægt er að plastvörurnar uppfylli evrópska staðla um hreinleika, þær séu endingargóðar, sem mest endurunnar og framleiddar sem næst notkunarstað til að lágmarka skaðleg áhrif á umhverfið.“ Plastið sem Múlalundur nýtir í sína framleiðslu uppfyllir öll þessi skilyrði. Það er framleitt í Evrópu og skráð í evrópska gagnagrunna (REACH) sem tryggir gagnsæi innihaldsefna. „Plastið hefur evrópska vottun til notkunar við leikfangagerð þar sem er gert ráð fyrir að börn stingi því upp í sig. Það tryggir hreinleika og skaðlaust vinnuumhverfi starfsfólks og viðskiptavina,“ segir Sigurður.

Vörur Múlalundar hafa marg-sannað sig þegar kemur að góðri endingu. „Plastið sem Múlalundur nýtir er almennt 40 til 60 prósent endurunnið og nú bjóðum við líka upp á 0,18 mm plastvasa úr 100 prósent endurunnu efni. Ef leitað er að „100% endurunninn“ í vefverslun Múlalundar koma þessar vörur upp. Hreint, vottað plast, sem er að stórum hluta endurunnið, framleitt stutt frá notkunarstað, notað ár eftir ár og loks skilað aftur í endurvinnslu að notkun lokinni, er góður kostur fyrir umhverfið.“

Fyrirtæki sem skipta við Múlalund leggja mikilvægu samfélagsverkefni lið. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Öllum er mikilvægt að vinna

Múlalundur hefur frá árinu 1959 verið rekinn af SÍBS, með stuðningi Happdrættis SÍBS, og fagnar því eins og fyrr segir sextíu ára afmæli í ár. Af því tilefni verður efnt til afmælisfagnaðar í vor. Frá því starfsemin hófst hafa þúsundir einstaklinga með skerta starfsorku fengið annað tækifæri og blómstrað á ný.

„Múlalundur stendur sjálfur undir stærstum hluta tekna sinna, sem er allt að því einsdæmi á vinnustofum fólks með skerta starfsorku. Hver einasta króna skiptir Múlalund máli og ávinningurinn er samfélagsins í heild, því saman hjálpum við fleirum sem glíma við skerta starfsorku að komast á vinnumarkað. Starfsemin stendur og fellur með viðskiptavinum okkar og í dag standa mörg fyrirtæki sig vel í að flétta daglega starfsemi saman við samfélagslega ábyrgð. Íslensk fyrirtæki hafa staðið með okkur í 60 ár. Með því vinna allir,“ segir Sigurður.

Á Múlalundi vinnustofu SÍBS er glæsileg verslun við Reykjalund í Mosfellsbæ. Sími 562 8500. Skoðið úrvalið á mulalundur.is.

Egla-möppurnar frá Múlalundi vinnustofu SÍBS hafa fyrir löngu fest sig í sessi í íslensku atvinnulífi. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR