Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Godo þjónustar flest hótel og gististaði landsins með einum eða öðrum hætti auk margra innlendra og erlendra ferðaskrifstofa. Meðal nýlegra lausna fyrirtækisins má nefna Pronto, sem er samvinnulausn fyrir starfsmenn hótela þar sem rennur saman umsjón þrifa, viðhalds og gæðastýringar með snjöllu appi og veflausn sem miðar að því að tæknivæða þessa hlið hótelrekstursins. Einnig má nefna markaðstorgið Travia, sem tengir ferðaskrifstofur og aðra söluaðila við hótel og gististaði.

Travia hefur slegið í gegn og fjöldi ferðaskrifstofa innanlands og erlendis notar þá lausn með góðum árangri, að sögn Katrínar Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Godo var stofnað árið 2011 af tveimur gömlum vinum mínum, þeim Sveini Jakobi Pálssyni og Sverri Steini Sverrissyni. Þá voru þeir báðir nýlega fluttir til landsins eftir áralanga dvöl erlendis við verkfræðinám og -störf. Þetta eru ævintýramenn sem horfðu á þessum tíma til ferðaþjónustunnar enda spennandi atvinnugrein sem er stútfull af spennandi tækifærum á sviði tækniþróunar.“

Sáu mikla þörf

Upphaflega voru þeir félagar að vinna með aðrar hugmyndir, en fljótlega sáu þeir gríðarleg tækifæri í hugbúnaðarlausnum fyrir hótel og gististaði.

Á þessum tíma var skortur á notendavænum og hagkvæmum hugbúnaði sem myndi auka sjálfvirkni og einfalda daglegan rekstur í greininni.

„Hér var þörf á markaðinum því nýting á hótelum og gististöðum var góð, ný hótel spruttu upp, sölupunktarnir urðu fleiri og fleiri og því erfitt fyrir starfsfólk að halda reiður á bókunum sem komu úr mismunandi áttum og þeim upplýsingum sem fylgdu. Því var skipt fljótt um stefnu og við höfum einbeitt okkur að hugbúnaðarlausnum fyrir ferðaþjónustu síðustu 7–8 árin.“

Auk Pronto og markaðstorgsins Travia, sem minnst var á áðan, býður Godo upp á svokallað PMS kerfi, eða hótelkerfi, sem er miðlægur grunnur fyrir verð, framboð, bókanir og margt fleira, segir Katrín.

„Slík kerfi eru hjartað á hótelum en við í Godo Property tengjum einnig við önnur kerfi til að einfalda starfsfólki vinnu sína. Hér má til dæmis nefna bókhaldskerfi, greiðsluhirða, sölukerfi og fleira.“

Godo var stofnað árið 2011 og er í dag með starfsstöðvar í þremur löndum, sem fara stækkandi. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Ný heimsmynd

Katrín segir að með því að sjálfvirknivæða reksturinn eins og kostur er, gefist tækifæri til að sinna öðrum hliðum betur.

„Mannlegi þátturinn í ferðaþjónustu er mikilvægur, en það eru einnig verkefni sem óþarfi er að eyða tíma og kröftum í. Við verðum líka að horfa í þá nýju heimsmynd sem blasir við okkur í kjölfar COVID-19 faraldursins og þá staðreynd að ferðamynstur hefur breyst og mun breytast enn frekar. Ég er viss um að fleiri munu horfa í öryggi sitt á ferðalögum, ekki bara hvað snertir hryðjuverk, slys og það sem við flokkum venjulega undir öryggi, heldur ekki síður það öryggi er snýr að heilbrigðissjónarmiðum.“

Því séu snertilausar lausnir og sjálfvirkni eitthvað sem mun sjást enn meira af á næstu árum.

„Margir af viðskiptavinum okkar eru þegar komnir langt í þessum efnum þar sem allt ferlið frá því að bókun er gerð, greiðsla tekin, gestur skráir sig inn á herbergi og svo aftur út gerist með sjálfvirkum lausnum. Þetta eykur bæði öryggi, minnkar handavinnu og veitir gestum jákvæða upplifun.“

Þróunarvinna í forgangi

Hún segir stefnu fyrirtækisins vera skýra og að hópurinn haldi ótrauður áfram, bæði í áframhaldandi þróun á þeim hugbúnaði sem fyrirtækið er með á markaði og um leið með nýjum lausnum sem eru í þróun.

„Við stöndum framarlega á sviði tæknilausna fyrir ferðaþjónustuna og höfum sérhæft okkur alfarið þar. Sérstaða okkar liggur í starfsfólkinu, sem er með ólíkan bakgrunn og mikla reynslu í farteskinu.“

Stefnan er sett á að bjóða viðskiptavinum áfram upp á góðar hugbúnaðarlausnir og framúrskarandi þjónustu við þær.

„Framtíðin byggir á enn meiri sjálfvirknivæðingu innan ferðaþjónustunnar og byggist öll okkar stefnumótun á því að einfalda líf viðskiptavina okkar enn frekar.“

Hún segir þróunarvinnuna vera númer eitt, tvö og þrjú á næstu árum.

„Það er ekki hægt að gefa út hugbúnað og hætta svo þróun á honum. Þetta er endalaus vinna við breytingar og betrumbætur sem hættir ekki þó varan sé komin í loftið. Við erum með starfsstöðvar í þremur löndum sem fara stækkandi. Þróun heldur því áfram hjá hugbúnaðardeildinni á meðan við skoðum erlenda markaði sem stefnan er sett enn frekar á.“

Nánari upplýsingar má finna á godo.is.