Langbesta afmælið er sagan af Kalla, litlum kanínustrák sem býr á ástríku heimili ásamt foreldrum sínum og gæludýrum í útjaðri bæjarins.

Eins og margir fimm ára strákar er Kalli í leikskóla þar sem hann leikur sér við vini sína úr nágrenninu. Hann er vanur að eiga alla athygli foreldra sinna en allt breytist þegar Klara systir hans fæðist og það leiðir til óvænts ævintýris með bestu vinkonu Kalla, Móniku.

Myndin er samvinnuverkefni þýskra, hollenskra og sænskra kvikmyndagerðarmanna og ætluð börnum á aldrinum þriggja til sjö ára. Handritið er eftir hinn virta handritshöfund Are Andrea Brücken og leikstjórnin er í höndum Michael Ekblad, sem einnig leikstýrði Molly Monster.

„Það er mikið ævintýri að fá að leikstýra góðri og spennandi mynd fyrir ung börn,“ segir Michael Ekblad leikstjóri myndarinnar. „Við reynum að segja söguna frá sjónarhóli barna. Sögu um hugrekki, viðurkenningu og þroskaferil einstaklings sem lærir að skilja og meta þarfir annarra.“

Leikarar eru flestir ungir og efnilegir og njóta þess að í hópnum eru reynslumeiri leikarar á borð við Stein Ármann Magnússon og Selmu Björnsdóttur.

Langbesta afmælið hefur notið vinsælda í kvikmyndahúsum í Þýskalandi, Svíþjóð, Hollandi, Belgíu og Lúxemborg. Myndin er 75 mínútur að lengd.

Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó.