Fold hefur, eins og önnur fyrirtæki, þurft að aðlaga rekstur sinn að breyttum aðstæðum vegna samkomutakmarkana. Þau uppboð sem venjulega fara fram í sal fara núna fram á netinu og eins hefur opnunum á sýningum verið streymt þar sem þær hafa ekki verið með venjulegum hætti.

„Við höfum að vísu verið með netuppboð frá árinu 2011. En núna hafa þessi stóru fínu uppboð sem venjulega fara fram í sal líka færst á netið. Það er hægt að skoða öll uppboðin okkar á netinu á síðunni uppbod.is,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri hjá Fold.

Jóhann segir að vefuppboðin standi yfirleitt í tíu daga. Nýtt uppboð hefst í hverri viku, stundum fleiri en eitt, en eins og er eru tvö uppboð í gangi. Auk vefuppboðanna eru venjulega haldin fjögur til sex hefðbundin uppboð á ári en Jóhann segir að líklega verði engin slík haldin á þessu ári fyrr en í haust út af takmörkunum.

„Uppboðin eru af misjöfnum toga. Við erum með myndlistaruppboð, uppboð á grafíkverkum, uppboð á keramík og postulínshlutum, eins og frá Royal Copenhagen, og þess háttar. Við erum líka með skartgripauppboð og bókauppboð eru haldin reglulega. Þannig að þetta eru mismunandi tegundir uppboða þótt myndlistin sé alltaf í aðalhlutverki,“ útskýrir Jóhann.

Sérstæð verk á perluuppboði

Þessa dagana stendur yfir sérstakt perluuppboð, en það er uppboð á íslenskum gæðaverkum. Perluuppboðinu lýkur 3. mars en það er fyrsta perluuppboð ársins í Fold uppboðshúsi. Þrátt fyrir að uppboðið fari fram á netinu, en ekki í sal eins og venjulega, verður engu að síður öll þjónusta við viðskiptavini með sama hætti og á hefðbundnum uppboðum.

„Verkin eru sýnd í galleríinu en í lengri tíma en vanalegt er og verður opið alla daga fram að uppboðinu. Starfsfólk gallerísins svarar í síma meðan á uppboðinu stendur og veitir tæknilega aðstoð, auk þess sem hægt verður að bjóða í gegnum síma eins og á hefðbundnum uppboðum,“ útskýrir Jóhann.

Gefin hefur verið út uppboðsskrá á pappír en einnig má nálgast skrána á vef uppboðshússins, uppbod.is. En perluppboðið er vefuppboð númer 528.

„Fyrsta verkið verður slegið klukkan sjö og svo koll af kolli. Mörg sérstæð verk verða boðin upp, meðal annars þrír skúlptúrar sem allir mega vera úti jafnt sem inni. Fyrst ber að nefna hið kunna verk „Fótboltamenn“ eftir Sigurjón Ólafsson. Bronsskúlptúrinn gerði Sigurjón upphaflega árið 1936 og stendur stækkuð gerð hans á Faxatorgi á Akranesi. Sá sem nú verður boðinn upp er einn af sex sem gerðir voru og seldir til stuðnings Listasafni Sigurjóns Ólafssonar árið 1991. Þá verður boðinn upp gosbrunnur af hafmeyju eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal og hangandi skúlptúr eftir Hallstein Sigurðsson. Þá má nefna glerverk eftir Leif Breiðfjörð,“ segir Jóhann.

Jóhann segir að einnig sé á uppboðinu nokkuð af verkum eftir íslenska naívista. Má þar nefna verk eftir Gunnar Guðmundsson frá Hofi, en um hann er fjallað í bókinni Einfarar í íslenskri myndlist.

„Mynd eftir Gunnar hefur aldrei áður ratað á uppboð hjá Fold og því er um einstakt tækifæri að ræða. Þá verða boðin upp verk eftir Stefán Jónsson frá Möðrudal, Stórval, meðal annars af Herðubreið og skemmtileg mynd eftir Eggert Magnússon,“ segir Jóhann.

„Af verkum gömlu meistaranna má nefna gullfallega mynd af Snæfelli eftir Kristínu Jónsdóttur, myndir af sjómönnum eftir Gunnlaug Blöndal og Gunnlaug Scheving, olíuverk og teikningar eftir Jóhannes Kjarval, olíuverk eftir Jón Stefánsson, Finn Jónsson og Þórarin B. Þorláksson og skemmtilega olíumynd af þvottakonu eftir Jóhann Briem,“ bætir hann við.

„Það verða einnig tvær myndir boðnar upp eftir Braga Ásgeirsson. Ein þeirra er einkar sviphrein mynd með fundnum hlutum. Þá verða boðin upp olíuverk eftir Karl Kvaran, Louisu Matthíasdóttur, Kjartan Guðjónsson, Kristján Davíðsson, Eirík Smith og Júlíönu Sveinsdóttur. Þá verður boðin upp gullfalleg vatnslitamynd eftir Karólínu Lárusdóttur, teikning eftir Birgi Andrésson sem og teikning eftir hann með ljósmynd eftir Magnús Jónsson sem saman mynda eitt verk. Af verkum yngri kynslóðar listamanna má nefna verk eftir Þorra Hringsson, Línu Rut Vilberg, Daða Guðbjörnsson, Sossu, Þorstein Helgason og ýmsa fleiri.“

Hjá Gallerí Fold er gríðarlegt úrval af íslenskri myndlist sem seld er bæði á uppboðum og í beinni sölu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ellefu einkasýningar á árinu

Auk þess að vera uppboðshús er Fold einnig hefðbundið gallerí þar sem reglulega eru opnaðar nýjar sýningar.

„Í galleríhlutanum erum við með verk 40 listamanna sem vinna í mismunandi efni. Málverk og myndir eru fyrirferðarmestar en nokkrir eru þó að vinna með skúlptúra og textíl. Á árinu verðum við með ellefu einkasýningar. Það er því næstum ein ný einkasýning mánaðarlega. Við höfum haldið dampi og opnað allar sýningar sem hafa verið á áætlun þrátt fyrr ástandið í þjóðfélaginu,“ segir Jóhann.

Hann segir að listamennirnir hjá Fold séu nokkuð fjölbreyttir. Flestir eru þeir íslenskir en þeir eru þó búsettir víða um heim.

„Þetta eru allt starfandi listamenn bæði hér á landi og erlendis. Þeir sem sýna hjá okkur á þessu ári eru búsettir í Bretlandi, Danmörku, Austurríki og auðvitað á Íslandi. Listamennirnir vinna sem sagt úti um allan heim en sýna hér á landi hjá okkur í ár,“ segir Jóhann.

„Auk íslenskra listamanna þá störfum við með bæði færeyskum, dönskum, bandarískum og breskum listamönnum sem við seljum verk fyrir. Uppistaðan eru samt íslenskir listamenn og á uppboðsmarkaðnum erum við nær eingöngu með íslenska listamenn. Það markast af því að besta verðið fæst yfirleitt fyrir verk listamanna á þeim heimamarkaði sem hann starfar. Dönsk listaverk seljast betur í Danmörku en á Íslandi og íslensk listaverk seljast betur á Íslandi en í Danmörku.“

Þessa dagana fer fram á netinu uppboð á íslenskum gæðaverkum.

Sala listaverka aukist

Jóhann segir að sala á listaverkum sé mjög góð þessa dagana og að árið 2020 hafi verið með stærri árum í uppboðssölu listaverka.

„Verð á listaverkum hefur líka hækkað töluvert. Við höfum fengið mjög mikið af góðum verkum í sölu sem auðvitað skiptir máli. Það virðist vera bæði nóg framboð og töluverð eftirspurn eftir verkum. Við erum í rauninni með biðlista eftir ákveðnum tegundum verka,“ segir Jóhann.

Hann segir að aukinn áhugi skýrist að einhverju leyti af því að fólk er meira heima við af augljósum ástæðum.

„Fólk fer þá að hugsa meira um hvað það hefur inni á heimilinu og hvers það vill njóta. Þar af leiðandi leitar það eftir listaverkum til að prýða sín heimili. Það er ein orsök þess að verkin hafa farið á hærra verði á síðasta ári en árið áður.“

Starfsemi Foldar er í 600 fm húsnæði við Rauðarárstíg og hefur yfir fimm sýningarsölum að ráða. Þar er ávallt gott úrval fjölbreyttra verka til sölu, bæði á uppboðum og í beinni sölu.