Hildur Harðardóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að frá því hún var barn hafi hún haft brennandi áhuga á umhverfismálum og pælt mikið í því hvaða áhrif hún geti haft á umhverfið. „Ég hef kannski minna pælt í því hvaða áhrif mitt nærumhverfi hefur á mig og minn líkama. Þetta breyttist heldur betur þegar ég eignaðist dóttur árið 2018. En þá fór ég meira að spá í hvaða skaðlegu efni gætu leynst inni á heimilinu sem hefðu áhrif á heilbrigði dóttur minnar og þroska,“ segir hún.

„Flest af því sem við notum daglega inniheldur ótal efni. Þau leynast í mat, fatnaði, snyrtivörum, þvottaefnum, húsgögnum, raftækjum, leikföngum, veggmálningu, gólfefnum og svo mætti lengi telja,“ upplýsir Hildur. „Vísindafólk um allan heim hefur lengi varað við því að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að skaðlegum efnum í umhverfi okkar sé stærra en áður var talið. Áhrifin á dýr hafa lengi verið þekkt en nú er farið að rannsaka áhrifin á fólk. Í heiminum öllum hafa hormónaraskandi efni meðal annars haft þau áhrif að stúlkur verða fyrr kynþroska en áður, frjósemi hjá körlum minnkar og tíðni eistnakrabbameins hækkar, ásamt því að börn séu líklegri til að þróa með sér ofnæmi.

Efnin komast í líkama okkar á marga vegu. Við öndum þeim að okkur, gleypum þau, borðum og drekkum og þau fara meira að segja í gegnum húðina okkar til dæmis þegar við berum á okkur snyrtivörur. Það er líka hægara sagt en gert að losna við þessi efni eftir að þau eru komin inn í líkamann. Sum þeirra setjast að í fituvefjum, og einu skiptin sem líkaminn losar sig við þau efni er þegar konur eru óléttar eða með barn á brjósti, en þá flytjast efnin með mjólkinni. Tek það samt fram að brjóstagjöf er alltaf ráðlögð þegar henni er við komið, þrátt fyrir að efni berist úr líkama móður til barns, þá hefur brjóstagjöfin svo marga aðra mikilvæga eiginleika,“ útskýrir hún.

Rotvarnarefni og ilmefni eru dæmigerð innihaldsefni í snyrtivörum.

Börn útsettari en fullorðnir

Hildur segir að börn séu almennt viðkvæmari fyrir umhverfisáhrifum en fullorðnir og útsettari fyrir efnum í umhverfinu. „Þau til dæmis rannsaka heiminn með því að stinga hlutum upp í sig og smakka á umhverfi sínu. Börn og fóstur eru líka með viðkvæmara tauga- og ónæmiskerfi og æxlunarkerfi en fullorðnir. Það er hægara sagt en gert að forðast öll þessi efni – þau eru allt í kringum okkur og tilurð þessara efna auðveldar okkur oft lífið, þau lengja líftíma andlitskremsins, auðvelda heimilisþrifin og bæta lykt af okkur.“

Snyrtivörur

„Nokkur dæmi um það hvernig við getum lágmarkað snertingu við skaðleg efni í okkar daglega lífi er til dæmis að horfa á notkun okkar á snyrti- og hreinlætisvörum. Rotvarnarefni og ilmefni eru dæmigerð innihaldsefni í snyrtivörum. Rotvarnarefnum er bætt við snyrtivörur til að koma í veg fyrir bakteríu- og myglumyndun þegar við stingum fingrunum í krukkuna. En sum rotvarnarefni eru talin valda hormónatruflunum og þau má finna í maskörum, sjampói, kremi, förðunarvörum og fleiru. Ilmefnin í snyrtivörum eru notuð til að gefa góða lykt eða fela líkamslykt. Þessi efni skipta þúsundum, en 26 þeirra hafa verið skráð sem sérstaklega ofnæmisvaldandi og það er skylda að skrá þau í innihaldslýsingu vara. Mig langar líka að benda á að náttúruleg ilmefni, til dæmis í ilmkjarnaolíum, geta líka verið ofnæmisvaldandi.“

Kokteiláhrifin

„Síðan eru það blessuðu kokteiláhrifin. Flestar rannsóknir á efnum og áhrifum þeirra hafa bara skoðað hvert efni út af fyrir sig. En hvað gerist þegar þeim er blandað saman í einn kokteil? Við komumst í snertingu við hormónaraskandi efni úr ótal áttum en það er mjög lítið vitað um hvað gerist þegar þessi efni öll blandast saman í líkama okkar. Það eina sem vísindamenn vita með vissu í dag er að blöndun efna eykur skaðsemi þeirra.“

Hormónaraskandi efni geta verið í ýmiss konar snyrtivörum.

Umhverfismerki til bjargar

„Listinn yfir skaðleg efni í snyrtivörum er mjög langur og ómögulegt fyrir okkur að ætla leggja þau öll á minnið. Það er hægt að einfalda sér lífið með því að þekkja tvö umhverfismerki og velja þau þegar völ er á. Þetta er Svansmerkið og Evrópublómið. Svansmerkið er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og Evrópublómið er umhverfismerki Evrópusambandsins og finnst oft á vörum eins og klósettpappír, hreinsiefnum og textíl. Þegar maður velur vörur með þessum merkjum þá getur maður verið öruggur um að hafa valið umhverfisvænustu vörurnar á markaðnum. Í Svansvottuðum vörum eru þekkt hormónaraskandi efni t.d. ekki leyfð og heldur ekki þessi 26 ofnæmisvaldandi ilmefni sem ég nefndi. Svansvottaðar vörur sem framleiddar eru fyrir börn fylgja líka miklu strangari skilyrðum heldur en vörur hugsaðar fyrir fullorðna, þau eru til dæmis alveg án ilmefna, ekki bara án þessara 26 mest ofnæmisvaldandi.“

Textíll

Textíliðnaðinum fylgir líka gríðarleg efnanotkun. Efnin er notuð til að lita textílinn og losna við myglu og skordýr. Nokkur ráð um textíl: • Þvo allan nýjan fatnað. • Þvo föt alltaf upp úr Svansvottuðu og ilmefnalausu þvottaefni. • Kaupa frekar notað en nýtt eða fá gefins frá vinum og vandamönnum (þá hefur flíkin verið þvegin oft). Notuð flík er því betri fyrir budduna, umhverfið og heilsu barnanna. • Þekkja helstu umhverfisvottanir á fötum og textíl, algengust eru Evrópublómið og GOTS, „Global Organic Textile Standard“. • Umhverfismerkin hjálpa okkur að velja rétt!

Leikföng

Leikföng eru snúið dæmi því þau eru gjarnan gerð úr plasti og plast getur innihaldið skaðleg efni. Vegna þess hversu mörg hneykslismál hafa komið upp í leikfangaframleiðslu er eftirlit með plasti í leikföngum mjög gott í Evrópu. Það sama gildir þó ekki um leikföng úr plasti sem eru framleidd og seld utan Evrópu. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að við séum meðvituð um ákveðna hluti þegar kemur að plastleikföngum. Það eru mörg efni sem ekki eru leyfð við leikfangaframleiðslu, en ilmefni eru þó leyfð. Einnig ofnæmisvaldandi ilmefnin sem ég talaði um áðan. Þess vegna þurfa foreldrar og aðrir aðstandendur barna að hafa nokkra hluti í huga þegar leikföng eru keypt.

Nokkur ráð um leikföng

• Nota nefið – leikföng eiga ekki að lykta af jarðarberjum eða öðrum ávöxtum! Þau eiga heldur ekki að hafa sterka lykt af plasti eða öðrum efnum.

• Velja Svansvottuð leikföng – frekar færri leikföng og vönduð þegar kaupa á nýtt og leitum eftir Svansmerkinu.

• Kaupa CE-merkt – Passa að leikföngin séu CE-merkt, en það þýðir að varan uppfyllir grunnkröfur Evrópska efnahagssvæðisins um öryggi og heilbrigði og horfið til þess hvaða aldurs leikföngin eru ætluð. Það gilda strangari reglur um leikföng ætluð 3 ára og yngri til dæmis því þeim má stinga upp í sig.

• Velja harðplast – Veljið frekar leikföng úr hörðu plasti og forðist með öllu leikföng úr mjúku plasti sem framleidd voru fyrir árið 2013 þar sem þá var reglugerðarbreyting sem herti á kröfum um skaðleg efni í framleiðslunni.

• Forðast plast framleitt fyrir 2013.

• Kaupa gegnheil viðarleikföng, helst án málningar eða að minnsta kosti með málningu sem er örugg fyrir börn.

• Þvo ný leikföng fyrir notkun þar sem á þeim gætu leynst skaðleg efni frá framleiðslunni. Þetta eru ekki leikföng Það er líka mikilvægt að vita að það eru margir hlutir á okkar heimili sem börn ættu ekki að fá að leika sér með svo sem farsímar, fjarstýringar, lyklar, umbúðir og kvittanir svo fátt eitt sé nefnt. En í þeim geta leynst þungmálmar og ýmis önnur skaðleg efni.

Huga að inniloftinu

Síðast en ekki síst eru það gæði innilofts en það er ekki síður mikilvægt að huga að því en efnainnihaldi í vörum. Við erum hreinlega að anda að okkur efnum heima hjá okkur á hverjum degi. Efnin bindast nefnilega ryki sem svífur um loftið og fer þannig inn um öndunarfæri okkar. Allt sem við komum með inn á heimilið lætur frá sér efni, efnin gufa upp úr hlutum og festast í rykögnum. Rafmagnstæki gefa frá sér efni þegar kveikt er á þeim og efni gufa upp úr nýjum húsgögnum.

Nokkur ráð um inniloft

• Rannsóknir sýna að það að lofta út er besta leiðin til að losna við efni úr umhverfi okkar. Mælt er með að opna út í 3-5 mínútur í senn, 2-3 á dag.

• Lofta sérstaklega út þegar kveikt hefur verið á kertum vegna skaðlegra efna í brunanum.

• Lofta sérstaklega vel út þegar ný húsgögn koma inn á heimilið.

• Þurrka reglulega af og þrífa.

• Velja umhverfisvottaðar ræstivörur, merkt Svaninum eða Evrópublóminu.

Að lokum

• Vandamálin liggja ekki í því sem við gerum við sérstök tilefni, heldur í daglegum venjum okkar.

• Leitum ávallt eftir umhverfisvottunum á vörum.

• Þvoum alla nýja hluti fyrir börnin okkar, hvort sem það eru leikföng eða textíll.

• Loftum vel út minnst tvisvar á dag.

• Notum skynsemina – þurfum við allar þessar vörur? Leiðum hugann að því hvort eitthvað sé mögulega óþarfi.