Birta Björnsdóttir, fréttamaður á RÚV, er ein þeirra þúsunda sem ætla að sjá Ed Sheeran um helgina. Tónleikarnir komu upp úr jólapökkunum hjá henni.

„Í viðleitni til að gefa jólagjafir sem taka ekki skápapláss en skila kannski góðum minningum ákvað ég að gefa eldri börnunum mínum miða á tónleikana síðustu jól. Ég yrði líklega seint kjörin formaður aðdáendaklúbbs Sheeran en finnst hann virka viðkunnanlegur og vinalegur auk þess sem hann á þó nokkur ágætis lög,“ segir Birta og bætir við að hún hlakki mikið til að sjá hvað komi upp úr þessum 50 gámum sem fylgja Sheeran til landsins. „Ég býst við mjög flottum tónleikum,“ segir hún.

Birta hefur ekki séð stjörnuna áður á tónleikum en hún hefur fylgst með fréttum af honum. „Það voru fréttir af því þegar margir brjáluðust yfir því að honum brá fyrir í Game of Thrones og svo þegar hann tók ástfóstri við íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Og svo hef ég auðvitað heyrt lögin hans í útvarpinu,“ segir Birta og hlakkar mikið til að fara með krökkunum sínum og upplifa tónleikana í gegnum þau.