Guðbjörg Gunnarsdóttir hóf störf sem deildarstjóri launadeildar á Reykjalundi árið 2001. „Árið 2005 bætti ég við mig námi og fór í diplómanám í mannauðsstjórnun við endurmenntun HÍ. Í kjölfarið var mér veitt traust og svigrúm til að gera margvíslegar breytingar á starfinu. Það má segja að eitt af mínum fyrstu verkum hafi verið að skilgreina deildina mína sem þjónustudeild við alla starfsmenn,“ segir Guðbjörg, mannauðsstjóri á Reykjalundi.

Trúnaður er lykilorð

Guðbjörg segir að hlutverk mannauðsstjóra sé fyrst og fremst að styðja við starfsmenn og stjórnendur. „Ég mæti hverjum og einum þar sem hann er staddur, en eðli starfsins snertir nánast undantekningarlaust samskipti við persónur. Ráðningar, uppsagnir, samskiptamál og fleira kemur því inn á mitt borð. Trúnaður er lykilorð í samskiptum mannauðsstjóra við allt sitt fólk. Oft eru viðkvæm mál borin upp og þá skiptir traust og virðing öllu. Þá er einnig mikilvægt að dyr mannauðsstjóra standi öllum starfsmönnum opnar, alltaf.“

Eitt stórt teymi

Hjá Reykjalundi starfa 200 manns í 166 stöðugildum. „Mannauðurinn er sannarlega mesta auðlind Reykjalundar því þar liggur þekkingin og reynslan. Starfsmenn gegna því lykilhlutverki í þeim góða árangri sem náðst hefur í endurhæfingu á Reykjalundi. Við státum okkur af því að vera flaggskip endurhæfingar á Íslandi. Til vitnis um það höfum við á að skipa 13 heilbrigðismenntuðum fagstéttum, svo þverfaglega nálgunin í okkar starfi er mikil. Að auki starfar hjá okkur hópur fólks sem sinnir mikilvægum störfum á borð við ræstingu, móttöku, skrifstofustörf og í mötuneyti. Saman myndum við því eitt stórt teymi þar sem valinn maður er í hverju rúmi.“

Einn dag í einu

Guðbjörg segir að þeir fordæmalausu tímar sem við lifum taki ansi mikið af tíma allra stjórnenda. „Einmitt núna vinn ég að því að standa vörð um réttindi starfsmanna sem eru tilbúnir til að bregðast við breyttum aðstæðum, og fara frá því að vera dagvinnufólk yfir í að vera vaktavinnufólk. Eins mikið og mann langar til að gera plön um næstu vikur og mánuði þá breytist allt svo hratt þessa dagana og maður neyðist til að taka einn dag í einu.“