FlyOver hefur mikla trú á Grandanum,“ segir Eva Eiríksdóttir, markaðsstjóri FlyOver Iceland.

„Þetta er hverfi sem er á barmi mikilla breytinga og hefur ákaflega skemmtilega möguleika. Hér er þegar kominn sterkur afþreyingar-kjarni rétt við miðborgina: Sjóminjasafnið, Norðurljósasetrið, Marshallhúsið, Hvalasýningin, Omnom súkkulaðigerð og svo auðvitað FlyOver Iceland.“

Á Grandanum sé allt til alls. „Auk þess er hér fjölbreytt þjónusta, stórar matvöruverslanir, apótek og sérvöruverslanir.“

Afþreyingarfyrirtækið FlyOver Iceland býður upp á ævintýralega og fróðlega sýningu sem fangar öll skilningarvitin og lætur engan ósnortinn.

Fortíð mætir nútíð

Eva segir FlyOver Iceland binda miklar vonir við uppbyggingu og þróun svæðisins. „Við sjáum fyrir okkur að Grandinn gæti umbreyst líkt og Meatpacking District í New York eða Dairy Block í Denver, sem dæmi. Hverfi sem er lítið og afmarkað og hýsti áður iðnað en umbreytist svo í takt við það sem samfélagið þarf á þeim tíma.“

Grandinn sé kjörinn fyrir þess háttar fyrirkomulag, enda fullkomið dæmi um kraftinn sem leysist úr læðingi þegar hið gamla mætir hinu nýja. „Það sem er skemmtilegt við Grandann er að hér er auðvitað enn sjávariðnaður en líka mikil nýsköpun þannig að þetta er dýnamískt umhverfi sem er gaman að tilheyra.“

Staðsetningin er ekki síður tilvalin. „Við erum í göngufæri við Miðbæinn og Vesturbæinn og steinsnar frá Seltjarnarnesi. Margir koma til okkar á hjóli eða rafskútum og við hvetjum okkar gesti til þess að nýta almenningssamgöngur. Þannig kynnist maður hverfinu betur og finnur kannski staði sem maður hefði annars misst af.“

Glimrandi móttökur

FlyOver Iceland hóf starfsemi á Granda í ágúst í fyrra og hefur frá upphafi unnið að því að kynna svæðið fyrir erlendum gestum. „Markaðsteymi FlyOver hefur lagt áherslu á að kynna Grandann og þá sérstaklega fyrir erlendum ferðamönnum,“ útskýrir Eva.

Móttökurnar hafa verið framar öllum vonum, bæði meðal erlendra og íslenskra gesta, en Íslendingum stendur nú til boða að prófa herlegheitin á sérlega góðum kjörum. „Við hvetjum Íslendinga til að nýta sér Ferðagjöfina og prófa eitthvað sem þeir hefðu annars ekki gert. Við erum með tilboð á vefnum okkar og það er auðvelt að nota Ferðagjöfina og bóka á netinu hjá FlyOver Iceland.“