Með listamessunni á Korpúlfsstöðum viljum við auka sýnileika myndlistar og gera listelskri þjóðinni auðveldara fyrir að kynna sér samtímalist, sem og að eignast listaverk eftir íslenska og erlenda listamenn sem starfa hér á landi. Því gefst áhugafólki um myndlist nú einstakt tækifæri til að fjárfesta í listaverkum um leið og það getur átt auðgandi samtal við listamennina sjálfa,” segir Ástþór Helgason, kynningarstjóri Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Yfir hundrað listamenn

Torg Listamessa Reykjavík er stærsti sýningar- og söluvettvangur íslenskrar myndlistar til þessa. Þar má á einum stað sjá fjölbreytt listaverk eftir bæði unga og rótgróna, sem og þekkta og lítt þekkta listamenn.

„Á listamessunni verða í aðalhlutverki listaverk og listafólk sem sýnir verk sín á eigin forsendum. Yfir hundrað listamenn leggja Korpúlfsstaði undir sig og sýna verk sín í rúmlega 60 básum. Því geta gestir geta hitt listamennina fyrir, spjallað við þá um sköpunarkraftinn, lífið og listina, og fræðst um verk þeirra og störf,“ upplýsir Ástþór um Torg Listamessu Reykjavík sem nú er orðin að árlegum viðburði sem auðga mun menningarlandslag borgarinnar.

„Sambærilegar listamessur eru tíðar erlendis og hafa fyrir löngu sannað gildi sitt,“ segir Ástþór. „Lengi hefur verið kallað eftir slíkum vettvangi hér heima og er ástæða til að benda á að Torg Listamessa Reykjavík er einstætt framtak og hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.“

Verðug umgjörð listaverka

Í framtíðinni stefnir SÍM á að virkja Hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum til sýningahalds og líflegra listviðburða.

„Okkur langar til að byggja upp spennandi listamiðstöð í Grafarvogi,“ segir Ástþór. „Gamla mjólkurbúið á Korpúlfsstöðum er ein glæsilegasta bygging borgarinnar frá öndverðri síðustu öld og verðug umgjörð utan um menningarmiðstöð íslenskra myndlistarmanna. Fyrsta skrefið í þá átt er Torg Listamessa sem var upphaflega haldin á Korpúlfsstöðum árið 2018 í tengslum við Mánuð myndlistar,“ útskýrir Ástþór.

Umsvif listamessunar hafa vaxið mikið frá því hún var haldin í fyrra. Sýningarsvæðið hefur verið stækkað og „Ráðsmannsportið“ á jarðhæðinni virkjað fyrir sýningarbása.

„Í miðju sýningarsvæðinu er svo Kaffi Thor og á næstu árum verður messan efld enn frekar með málþingi og fyrirlestrum. Þá munum við bjóða listamönnum og sérfræðingum frá hinum ýmsu heimshornum að taka þátt í messunni og um leið verður umheiminum opnuð glufa inn í þá fjölbreyttu og ríkulegu listsköpun sem á sér stað á Íslandi,“ segir Ástþór.

„Með listamessunni viljum við auka sýnileika myndlistar og gera fólki auðveldara fyrir að kynna sér samtímalist, en einnig að eignast listaverk eftir íslenska eða erlenda listamenn sem starfa hér á landi,“ segir Ástþór.

Upplýsingar um SÍM

Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) var stofnað 1982 til að efla samtakamátt myndlistarmanna og vinna að bættu starfsumhverfi myndlistar.

„SÍM er hagsmuna- og stéttarfélag myndlistarmanna. Það er fjölmennasta samband skapandi listamanna á Íslandi og telur nú um 960 félagsmenn,“ upplýsir Ástþór.

Verkefni SÍM eru margvísleg og felast meðal annars í því að annast ýmis ábyrgðarstörf í samstarfi við, eða fyrir, opinbera aðila og stofnanir í tengslum við myndlist.

„SÍM tilnefnir fulltrúa í fagnefndir, ráð og stjórnir og gefur faglegar umsagnir um mál er varða myndlist og myndlistarvettvang,“ upplýsir Ástþór.

Skrifstofur SÍM eru í SÍM-húsinu, Hafnarstræti 16 í Reykjavík. Þar er öllum ætíð velkomið að líta við til að afla sér upplýsinga um listamenn og starfsumhverfi myndlistar. Sími 551 1346, netfang: sim@sim.is. Sjá nánar á sim.is.

Ástþór Helgason og Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM, hafa í vikunni verið í óðaönn að setja upp listamessuna á Korpúlfsstöðum. Í bakgrunni eru listaverk eftir systkinin Oddrúnu og Kristberg Pétursbörn. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Upplýsingar vegna kaupa á listaverkum á Torg listamessu:

„Kaup listaverka ættu alltaf að vera ánægjulegur viðburður fyrir báða aðila,” segir Ástþór. „Við mælum með að skoða básana á listamessunni og nota sýningarskrána til að punkta við þá bása sem vekja mestan áhuga. Talið endilega við listamennina, spyrjið þá um verkin og hugmyndir þeirra tengdar verkunum. Biðjið þá að segja ykkur frá og eigið fróðlegt og skemmtilegt samtal sem lifir í minningunni um verkið sem svo kannski verður fyrir kaupunum og spyrjið um verð þess verks eða verka sem hugur ykkar stendur til.”

Verk keypt beint af listamanninum

Torg listamessa tekur enga þóknun vegna sölu listaverka á messunni og rennur kaupverð því óskipt og alfarið til listamannanna; sjálfra höfunda listaverkanna.

  1. Hægt er að staðgreiða listaverk með peningum eða greiða í heimabanka með farsíma.
  2. Hægt er að kaupa listaverk með vaxtalausum afborgunum samkvæmt sérstökum greiðslusamningi. Er þá gerður samningur á milli viðskiptavinar og listamanns og fyrsta greiðslan greidd á staðnum. Viðskiptavinurinn fær síðan senda kröfu í heimabanka sinn mánaðarlega þar til listaverkið er að fullu greitt.

Afhending seldra listaverka

Listaverk verða afhent nýjum eigendum í bás listamanns strax eftir lokun messunnar sunnudaginn 6. október, á milli klukkan 19 og 20, nema um annað hafi verið samið.

Opnun og opnunartímar

Torg listamessa Reykjavík opnar föstudaginn 4. október klukkan 18. Opið laugardag frá klukkan 12 til 20 og á sunnudag frá klukkan 12 til 19.

Korpúlfsstaðir eru á Thorsvegi 1 við Korpúlfsstaðaveg. Nánari upplýsingar á Facebook undir Torg listamessa í Reykjavík.

Spennandi sköpunarverk myndhöggvarans Valgerðar Guðlaugsdóttur.
Listakonan Rúrí er ein af rúmlega hundrað listamönnum sem sýna verk sín á Torgi Listamessu á Korpúlfsstöðum um helgina. Engillinn í bakgrunni er eftir Önnu Eyjólfsdóttur.
Heillandi málverk eftir Jón Magnússon verða til sýnist á listamessunni.
Litrík og falleg verk eftir textíllistakonuna Auði Vésteinsdóttur.
Meðal leirlistamanna á listamessunni er listakonan Hafdís Brands.
Hér má sjá verk eftir listakonuna Maríu Kristjánsdóttur.
Hér á gangi Korpúlfsstaða sést glitta í mögnuð málverk Elínar Þ. Rafnsdóttur, Sigurborgar Stefánsdóttur, Heidi Strand og Kristínar Tryggvadóttur.