Mígreni er ein helsta ástæða þess að fólk missir úr vinnu eða skóla og það getur haft verulega neikvæð áhrif á lífsgæði fólks, segir Unnur Sverrisdóttir, lyfjafræðingur hjá Alvogen.

Mígreni er tegund höfuðverkjar sem lýsir sér með slæmum höfuðverkjaköstum.

„Verkurinn er oft staðbundinn í höfði og með æðaslætti, eða púlserandi. Köstin geta staðið yfir í sex til 24 tíma eða jafnvel lengur. Þeim geta fylgt ljós- og hljóðfælni, ógleði, uppköst, máltruflun, viðkvæmni fyrir lykt og fleira. Þá fær um þriðjungur þeirra sem þjást af mígreni svokallaða áru, eða sjóntruflanir, stuttu áður en mígrenið byrjar,“ útskýrir Unnur.

Unnur Sverrisdóttir, lyfjafræðingur hjá Alvogen.

Umhverfisþættir skipta máli

Ástæður mígrenis eru ekki enn að fullu þekktar en líklega spila erfðir nokkuð stórt hlutverk.

„Rannsóknir hafa sýnt að ástæður og meingerð mígrenis eru töluvert flóknari en áður var talið. Líklegasta ástæða mígrenis er talin vera truflun á taugastarfsemi þar sem taugaboðefnið serótónín spilar hlutverk, en lyfið Rizatriptan Alvogen verkar einmitt á serótónín-viðtaka,“ upplýsir Unnur.

Einnig sé vitað að blóðrennsli í æðum til heila truflist, hvort sem það er orsök eða eitt af einkennum mígrenis.

„Vitað er að ýmsir umhverfisþættir geta haft áhrif á mígreni og stuðlað að mígrenikasti, svo sem áfengi, reykingar, hormónabreytingar, streita, þreyta, ákveðnar matartegundir, lykt og fleira. Þannig geta margir fækkað mígreniköstum með því að forðast þætti sem geta framkallað kast,“ segir Unnur.

Fæst nú án lyfseðils

Rizatriptan Alvogen er nýtt lyf í lausasölu gegn mígreni, frá lyfjafyrirtækinu Alvogen. Það hefur áður verið fáanlegt en einungis gegn lyfseðli.

„Rizatriptan Alvogen er notað sem bráðameðferð við mígreniköstum, með eða án fyrirboðaeinkenna, fyrir fullorðna sem áður hafa verið greindir af lækni með mígreni. Lyfið er ekki notað til að fyrirbyggja kast heldur skal taka lyfið eins fljótt og hægt er eftir að mígrenieinkenni byrja,“ útskýrir Unnur.

Rizatriptan Alvogen þrengir æðar í höfði, hamlar losun taugaboðefna og dregur úr virkni í þrenndartauginni, sem er stór skyntaug fyrir andlit og hluta höfuðs. Þessi verkun dregur hratt úr sársaukaboðum og minnkar verk.

Rizatriptan Alvogen eru 10 mg munndreifitöflur og fást tvær töflur í pakkanum.

Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á sérlyfjaskra.is.

Númer rekjanleika er RIZ.L.A.2020.0008.01.