Á Facebook-síðu söngkonunnar segir hún frá því að henni hafi aldrei dottið í hug að hún myndi einhvern tímann hita upp fyrir Sheeran. „Þetta er draumur að rætast og ég er svo spennt!“

Síðasta ár hefur Glowie verið búsett í London. Í viðtali við Fréttablaðið sem var birt í maí á þessu ári segir Glowie frá því að hún hafi breyst og þroskast mikið á veru sinni í stórborginni. Það hefur verið nóg að gera sem söngkonunni þykir gott. Þó nýtir hún hvert tækifæri sem gefst til að heimsækja Ísland og segist sakna íslenskrar náttúru. „Ég sakna þess líka að sjá hafið og íslensku fjöllin, drekka hreina vatnið og anda að mér fersku og köldu lofti heima.“ Þegar Glowie óx úr grasi leitaði hún oft í einveruna í íslenskri náttúru, sem er hvergi að finna í London þó borgin sé frábær á sinn hátt.

Á Instagram-síðu Glowie kemur fram að þótt það sé tilfinningarússíbani að búa í landi langt frá fjölskyldu og vinum, líði henni eins og hún tilheyri stórborginni. Um þessar tilfinningar fjallar lagið Where I belong, tilfinningar sem vakna við London-veruna og einmanaleikann. Lagið er á samnefndri EP-plötu söngkonunnar sem kom út þann 14. júní.

Á þeirri plötu hefur lagið I’m good vakið mikla athygli en það hefur verið spilað oftar en 700.000 sinnum á Spotify. Lagið var meðal annars sett á lagalistann Pop before it breaks á YouTube, á listanum eru lög eftir tónlistarmenn á borð við Sam Smith, Zöru Larsson og Taylor Swift.

Vinsælasta lagið á plötunni er eins og stendur lagið Cruel, sem hefur fengið yfir milljón spilanir á Spotify og sömuleiðis á YouTube. Nýju lögin hennar Glowie eru samin af meðal annars af Juliu Michaels og Taylu Parx. Julia hefur samið fyrir stórstjörnur á borð við Justin Bieber, Demi Lovato, Britney Spears og Selenu Gomez og Tayla hefur samið fyrir Ariönu Grande, Jennifer Lopez, Rihönnu og Mariu Carey. Glowie virðist vera á hraðri leið upp á stjörnuhimininn og hver veit nema Ed Sheeran hiti upp fyrir hana næst.