Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino's á Íslandi, segir að fyrirtækið sé stolt af því að hafa skapað sér sess inni á heimilum þjóðarinnar í gegnum árin. „Við viljum að viðskiptavinir geti alltaf treyst á okkur. Domino’s fer alltaf eftir ströngum reglum varðandi hreinlæti og matvælaöryggi en síðastliðnar vikur höfum við sett fullan þunga í þessi mál og hert reglurnar enn frekar,“ segir Birgir.

„Fyrirtæki þurfa að bregðast við breyttu landslagi og það gerum við til dæmis með því að hvetja viðskiptavini til að nýta sér fyrirframgreiðslur og bjóða upp á snertilausar sendingar. Þannig tryggjum við öryggi bæði viðskiptavina okkar og bílstjóra þegar farið er með sendingar til fólks í sóttkví.“

Snertilausar sendingar fara þannig fram að viðskiptavinur pantar og greiðir í gegnum vef eða app og skrifar „snertilaus sending“ í athugasemd við heimilisfang. Til að gæta sérstaklega að hreinlæti og matvælaöryggi koma bílstjórarnir með tóman pitsakassa sem settur er undir vörur við dyr viðskiptavina. Bílstjórarnir bíða svo í hæfilegri fjarlægð þar til viðskiptavinur hefur tekið pöntunina inn.

„Við viljum létta undir með viðskiptavinum okkar á matartímum nú sem áður. Við höfum gríðarlega mikla og góða reynslu af heimsendingum og margir kunna að meta það á þessum tímum. Með appinu, vefnum og þjónustuverinu bjóðum við upp á fjölbreyttar leiðir fyrir viðskiptavini að ná til okkar. Við leggjum mikið upp úr því að auðvelt sé að eiga við okkur viðskipti, sérstaklega núna.“ segir Birgir. Í stærð fyrirtækisins er styrkur að sögn Birgis en Domino‘s er með 24 útsölustaði sem gerir það kleift að koma vörunni hratt og örugglega til viðskiptavina.

Kaja Grétarsdóttir matvælafræðingur og gæðastjóri hjá Domino’s segir að fyrirtækið hafi gripið til aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Sérstök áhersla á hreinlæti

Kaja Grétarsdóttir matvælafræðingur starfar í fullu starfi hjá Domino‘s. Hún hefur sett saman nákvæmar viðbragðsáætlanir og ítarlegar leiðbeiningar í samræmi við ráðleggingar Landlæknis sem hafa verið vel kynntar fyrir starfsfólkinu.

„Í ljósi ástandsins í heiminum í dag viljum við að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum í að hefta útbreiðslu veirunnar og höfum við því gripið til nokkurra aðgerða vegna þess,“ segir Kaja.

Meðal aðgerðanna er að starfsfólkið vinnur alla daga eftir ströngum ferlum þegar kemur að hreinlæti og matvælaöryggi en allt starfsfólk Domino‘s þarf að ljúka viðeigandi námskeiðum, þar á meðal námskeiðum í matvælaöryggi og vörugæðum.

„Við höfum verið að herða á og ítreka reglurnar hjá okkur um persónulegt hreinlæti. Það er nú þegar í verkferlum hjá okkur að starfsfólk þvoi hendur eða skipti um hanska milli starfsstöðva en það er skylda fyrir matvælafyrirtæki að fylgja þeim reglum. En við höfum lagt sérstaklega mikla áherslu á það undanfarnar vikur. Það sama á við um bílstjórana okkar sem þvo og spritta hendur fyrir og eftir sendingar og nota hanska í snertilausum sendingum“ segir Kaja.

Mjög gott innra eftirlit

Auk handþvottar og handsprittunar er mikil áhersla lögð á tíða sótthreinsun snertiflata og náið er fylgst með heilsu starfsfólks. „Ef minnsti grunur er um veikindi eru skýrar reglur um að starfsmaður haldi sig heima. Þar er ekkert grátt svæði. Posar, afgreiðsluborð og annað sem viðskiptavinurinn kemst í snertingu við eru sótthreinsaðir á klukkutíma fresti eða oftar er við á og snertifletir baksvæðis eru sótthreinsaðir daglega.“

Vatnskönnur, pappaglös og diskar hafa verið fjarlægð úr afgreiðslunni til að fækka snertiflötum viðskiptavina. „Eins má geta þess að ofnarnir okkar eru 260°C heitir og við höfum fengið staðfest að bakteríur og veirur lifa ekki í slíkum hita. Eftir að pitsurnar okkar og aðrar vörur koma út úr ofninum eru þær aldrei snertar með höndum og þannig hefur það alltaf verið.“ segir Kaja.

Domino‘s er að auki með mjög gott innra eftirlit þar sem sjö aðilar rekstrardeildar taka út búðirnar með reglubundnum hætti, formlega sem óformlega.

Kaja segir að starfsfólk Domino‘s haldi að sjálfsögðu áfram að fylgjast grannt með stöðu mála og gera allt sem hægt er að gera til að koma til móts við viðskiptavini á þessum fordæmalausu tímum.