Courtyard by Marriott er rekið undir Marriott-keðjunni sem tryggir að gæðin séu ávallt í fyrirrúmi. „Við opnuðum hótelið að fullu með veitingastað og annarri þjónustu í janúar síðastliðnum og hér er allt glænýtt. Við leggjum mikið upp úr því að bjóða gestum upp á hæstu gæðastaðla í öllu, og þar með töldum rúmum og sængum.

Við bjóðum upp á 150 Deluxe herbergi, þar af eru 72 Deluxe King herbergi með tvíbreiðu rúmi og 78 Deluxe Twin herbergi. Átján af þessum herbergjum eru rýmri og bjóða upp á hjólastólaaðgang. Þá má samtengja þessi sömu átján herbergi við önnur herbergi svo þau henti fyrir fjölskyldur á ferðinni,“ segir Sigrún Ýr Hjörleifsdóttir, almannatengsla- og markaðsstjóri.

Sigrún Ýr Hjörleifsdóttir er almannatengsla- og markaðsstjóri hótelsins.

Einstök bygging

Bygging þessa glæsilega hótels er einstök í íslenskri byggingarsögu, en um er að ræða fyrstu svokölluðu „Plug and Play“ bygginguna. „Herbergin koma tilbúin með rúmum og öllu í eins konar einingum frá Kína, sem er smellt saman og mynda allt hótelið. Fyrsta hæðin er steypt en svo koma einingarnar ofan á grunninn. Aðferðin byggir á því að bera virðingu fyrir umhverfinu. Þá má flytja hótelið með litlu raski og við myndum í raun ekki skilja mikil ummerki eftir okkur í náttúrunni.“

Hótelið er fyrsta "Plug and Play" byggingin hér á landi.
Mynd/Aðsend.

Ekki bara flugvallarhótel

„Sérstaða okkar er fyrst og fremst hentug staðsetning við flugvöllinn og þjónusta við ferðamenn í námunda við völlinn. Fyrir Íslendinga sem eru að ferðast erlendis og þurfa að fljúga snemma, þá er tilvalið að byrja fríið á kvöldverði og gistinótt hjá okkur og losna þannig við stressið að keyra upp á flugvöll yfir nóttina. Þá bjóðum við fólki upp á að geyma bílinn á stæðinu hjá okkur meðan á ferðalaginu stendur.

Við erum samt miklu meira en bara flugvallarhótel,“ segir Sigrún Ýr. „Hér er fyrsta flokks veitingastaður og hágæða fundaaðstaða. Hótelið er staðsett á Reykjanesskaganum í göngufæri við sögulegan miðbæ Keflavíkur. Allt í kring eru jarðfræðileg undur og gullfallegar náttúruperlur í nokkurra mínútna akstursfjarlægð. Við getum leiðbeint gestum um áhugaverða staði til að keyra á, en til dæmis er tilvalið að taka hring um hvítar strendur Garðsskagavita, Gunnuhver og enda túrinn svo í Bláa lóninu.“

Herbergin eru öll fyrsta flokks með hágæða rúmum og góðri vinnuaðstöðu.

Veitingastaðurinn er „The Bridge“ á milli staða

Kokkurinn, Kacper Bienkowski, kemur upphaflega frá Póllandi og hefur búið á Íslandi til fjölda ára. „Hann lærði á Ítalíu og má segja að hans stíll sé einstaklega fjölbreyttur og alþjóðlegur. Matseðillinn samanstendur af kjöt-, fisk- og grænmetisréttum, sem höfða til afar breiðs kúnnahóps. Nokkrir réttir eru fastir á seðlinum að kröfu Marriott-keðjunnar, en þar fyrir utan breytist seðillinn frekar ört. Kacper leggur áherslu á að nota ferskt og árstíðabundið hráefni og leikur sér með það sem er í boði hverju sinni.

Steikin er sérsniðin að ósk gestarins sem velur stærð, sósu og meðlæti.
Mynd/Aðsend.

Við kappkostum að bjóða upp á veitingar þar sem allir geta fundið eitthvað fyrir sig. Undanfarið höfum við verið með afar vinsælan helgarbröns þar sem hver gestur getur valið úr hráefnum og réttum sjálfur og sett saman sinn eigin málsverð.“ Þess má geta að börn undir 12 ára aldri borða frítt á veitingastaðnum í fylgd með fullorðnum.

„Nafnið á veitingastaðnum, The Bridge, vísar til þess að við gegnum hlutverki tengingar á milli heimshluta, hótelstjórinn Hans Prins kemur frá Hollandi, einingarnar frá Kína, og Marriott-keðjan frá Bandaríkjunum. Svo tengist nafnið auðvitað flugvellinum sem og brúnni á milli heimsálfa sem staðsett er í stuttri akstursfjarlægð frá hótelinu.“

Courtyard by Mariott gefur sig út fyrir að vera viðskiptahótel og býður upp á fjölbreytta fundaraðstöðu fyrir mismunandi tilefni.

Hágæða funda- og veisluaðstaða

„Við gefum okkur meðal annars út fyrir að vera viðskiptahótel og stílum upp á fólk í vinnuferðum. Þá er fullkomin líkamsræktarstöð á hótelinu sem opin er allan sólarhringinn.

Hvert herbergi er útbúið góðri vinnuaðstöðu með innstungum, skrifborði og fríu Wi-fi. Veitingastaðurinn býður einnig upp á vinnusvæði og bása sem henta fyrir stutta vinnufundi með sjónvarpi, sem fundargestir geta tengst.“

Á hótelinu eru einnig tvö fundarherbergi, eitt minna og eitt stærra. „Þessi tvö rými er svo hægt að sameina í stærra rými sem getur tekið við allt að 100 gestum. Við leigjum mikið út fyrir fundahald fyrirtækja og bjóðum upp á veitinga- og drykkjarpakka. Einnig er tilvalið að halda veislur hér eins og brúðkaup eða annað og sérsníðum við veitingar fyrir hvern hóp fyrir sig.“