Fyrsta Vísindakaffi vetrarins var haldið í Perlunni mánudaginn 20. september. Þar hélt Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur og vísindamaður við Háskóla Íslands, erindi sem bar heitið Loftlagsógnin! Hvaða tæknilausnir eru í farvatninu? og var viðburðurinn vel sóttur.

Til þess að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins verður að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orku- og iðjuvera og einnig beint úr andrúmslofti. Sigurður Reynir fjallaði um Carbfix-aðferðina og hvernig íslensku sandarnir geta komið þar við sögu. „Ég fjallaði um sögu Carbfix-verkefnisins sem hófst formlega í október 2007 en undirbúningur þess hófst af fullum þunga í janúar 2006. Carbfix-aðferðin breytir gasi í grjót djúpt í jarðlögum. Ég hef kallað þetta að steinrenna koltvíoxíði (CO2). Þetta er öruggasta aðferðin til þess að binda koltvíoxíð, sem veldur gróðurhúsaáhrifum.“

Það var góð mæting á fyrsta Vísindakaffi vetrarins í Perlunni, mánudaginn 20. september.

Unga fólkið drifkrafturinn

Stofnendur Carbfix-verkefnisins voru Háskóli Íslands, Orkuveita Reykjavíkur, Columbia-háskólinn í New York og Franska rannsóknarráðið (CNRS) í Toulouse í Frakklandi. „Frá 2007 hafa þrettán doktorsnemar varið doktorsritgerðir sínar sem fjölluðu um einhverja hluta Carbfix-aðferðarinnar. Allt frá tilraunum og líkanagerð á rannsóknastofu, til mælingar í borholum þar sem CO2 er dælt niður í jörðina. Nú er þetta unga fólk drifkrafturinn í Carbfix-fyrirtækinu sem vinnur að framgangi aðferðarinnar á Íslandi og erlendis.“

Þegar hann er spurður hvar helsta þekking og styrkleikar Íslendinga séu þegar kemur að aðgerðum gegn loftslagsógninni segist hann ekki vera hlutlaus. „Carbfix-aðferðin og þekking innan jarðhitageirans á Íslandi hefur og mun nýtast vel hér heima og víða erlendis. Eins er mikilvæg þekking innan Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Til þess að ná árangri verðum við að beita öllum hugsanlegum aðferðum.“

Talað beint til almennings

Vísindakaffi Rannís hefur notið vinsælda undanfarin ár en þar kynna fræðimenn viðfangsefni sín á óformlegan hátt við notalega kaffihúsastemningu.

„Það er mikilvægt að við vísindamenn „skríðum“ út af rannsóknastofunum okkar og tölum milliliðalaust til almennings. Ég er mjög ánægður með þátttökuna og frábærar umræður undir styrkri stjórn Sævars Helga Bragasonar, betur þekkts sem Stjörnu Sævar. Áheyrendur voru vel með á nótunum og komu með beinskeyttar spurningar.“

Vísindakaffi Rannís hefur notið vinsælda undanfarin ár.

Spennandi næstu skref

Mörg spennandi verkefni eru fram undan í vetur, ekki síst tengd Carbfix. „Ég og nýdoktorar mínir erum að vinna með Carbfix-fyrirtækinu og innlendum og erlendum vísindamönnum við að nota sjó í stað ferskvatns við steinrenningu CO2. Steinrenningin krefst mikils vatns, sem oft er af skornum skammti. Tilraunir á rannsóknarstofu sýna að þetta gengur og nú ætlum við að taka næsta skref, og steinrenna CO2 við ströndina á Reykjanesi með því að dæla CO2 og sjó niður í basaltlögin þar. Við erum einnig að koma af stað steinrenningu í Asíu þar sem eru stór tækifæri.“