YAY hefur komið inn á markaðinn eins og stormsveipur með sínar framsýnu, stafrænu lausnir sem felast í dreifingu og utanumhaldi gjafabréfa sem meðal annars mannauðsstjórar eru að nýta sér til að gleðja starfsfólk og viðskiptavini á örfáum sekúndum og hins vegar fyrirtæki sem vilja selja sín eigin stafrænu gjafabréf.

YAY er íslenskur, stafrænn hugbúnaður sem selur gjafir í formi stafrænna gjafabréfa frá fjölda fyrirtækja í gegnum snjallforrit, vefsíðu og fyrirtækjavef. „Við erum með fyrirtækjaaðgang sem kallast YAY Manager sem er vefsvæði sem mannauðsstjórar og aðrir stjórnendur eru að nýta sér,“ segir Sigríður Inga Svarfdal, sölu- og markaðsstjóri YAY. „Segja má að fyrirtækið sé markaðstorg fyrir rafræn gjafabréf frá fjölda fyrirtækja í gegnum smáforritið.

Fyrirtækið og lausnir þess hafa vakið mikla athygli og hefur YAY meðal annars verið tilnefnt af UT Messunni sem Sproti ársins ásamt Sidekick Health og Hopp, hlotið styrki frá Rannís og valið fyrst íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegt Lighthouse verkefni Mastercard, sem er gríðarleg viðurkenning á sviði fjártækni og vekur mikla athygli víða um heim. Mörg af verðmætustu sprotafyrirtækjum heims á sviði fjártækni hafa verið valin í þetta merka verkefni ár hvert og nú er svo komið að erlendir aðilar vilja opna YAY í öðrum löndum og markaðssvæðum og er sú vinna í fullum gangi.“

Yfir 200 samstarfsaðilar úti um allt land

YAY er með yfir 200 samstarfsaðila úti um allt land svo sem veitingastaði, gististaði, afþreyingarfyrirtæki og fataverslanir. „Auk þess erum við með opin YAY gjafabréf sem gilda hjá öllum samstarfsaðilum okkar. Þarna erum við að leysa fullt af áralöngum vandamálum varðandi gjafir, umbun og hvatningu til starfsmanna; hvers kyns tækifærisgjafir í rauninni sem höfða til allra,“ segir Sigríður.

„Í fyrirtækjaaðgangi YAY er hægt að senda á alla starfsmenn í einu með einum smelli á símanúmer eða netfang og einnig hægt að láta myndbandskveðju fylgja sem opnast í appinu þegar gjöfin er opnuð og þá um leið persónulegri. Þarna erum við að spara tíma stjórnenda; í staðinn fyrir að þeysast um, velja eitthvað ákveðið og kaupa eitthvað sem hentar ef til vill ekki öllum, þá er hægt að finna þarna eitthvað sem hentar öllum og sparar mikinn tíma í að senda og koma á leiðarenda fyrir utan hvað þetta er umhverfisvænn kostur.

Þarna er hvorki verið að nota plast eða pappír og það er punktur sem er mjög áhugaverður varðandi umhverfissjónarmið. Við tókum saman fyrir áramót hvað við hefðum sparað mikið plast ef öll gjafabréf sem við höfum gefið út til áramóta hefðu verið gefin út í formi plastkorta: Það hefðu verið tvö og hálft tonn af plasti sem við spöruðum umhverfinu.“

Sparar tíma og fyrirhöfn

Fyrirtækjaaðgangur YAY er öllum gjaldfrjáls og stjórnendur geta afgreitt sig sjálfir og sparað þannig gríðarlegan tíma. „Við bjóðum upp á kynningar í gegnum fjarfund eða komum í heimsókn. Svo er hægt að bæta við kveðju við allar gjafirnar, mynd, myndbandskveðju eða texta, sem viðtakandi sér þegar hann opnar gjöfina í appinu. Þannig verður gjöfin extra persónuleg og skemmtileg.

Stjórnendur sjá um að kaupa gjafir fyrir starfsfólkið, hvort sem það eru jólagjafir eða afmælisgjafir eða að útbúa aðgang fyrir aðra stjórnendur sem eru til dæmis með þjónustu- eða söluver eða að stýra til dæmis átaksverkefnum. Þetta er gert til að spara þeim tíma og fyrirhöfn og til að opna fyrir möguleikann á að vera hvatvís og lifandi og auka ánægju starfsmanna með því að geta glatt með litlum fyrirvara eða til dæmis eitthvert verkefni sem var leyst á frábæran hátt. Þá er hægt að umbuna strax í rauntíma og nýta augnablikið.“

Móttökur framar vonum

Sigríður segir móttökurnar hafa verið framar vonum. „Við gerðum nýlega þjónustukönnun og spurðum notendur meðal annars hvort þeir myndu nota þjónustuna aftur fyrir starfsmenn sína og einnig var spurt hvernig starfsfólk viðkomandi fyrirtækja hefði brugðist við því að fá YAY gjöf og er ljóst á niðurstöðunum að YAY er komið til að vera.“

Sigríður bendir einnig á að nýtingin á stafrænum gjafabréfum sé margfalt betri heldur en af öðrum gjafabréfum. „YAY gjafabréfin eru ekki bréf sem gleymast í skúffum eða týnast. Þau eru alltaf í símanum og tengt við símanúmer og við leggjum áherslu á að minna notendur okkar á bréfin. Við höfum fengið afar sterk og jákvæð viðbrögð vegna þess og það hefur einnig komið mjög skýrt fram í þjónustukönnunum okkar. Það er það sem neytendur vilja.“

Allt frá smáfyrirtækjum yfir í Landspítalann

Sigríður segir að YAY hafi breytt miklu fyrir stjórnendur fyrirtækja eftir að þeir fóru að nýta þjónustu þeirra til að gleðja starfsfólkið.

„Einhver skrifaði í þjónustukönnuninni að þetta væru vinsælustu gjafir sem fyrirtækið hefði gefið. Þá var skrifað að þetta væri gott tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt. Einnig var skrifað að í þessu felist mikill tímasparnaður, bæði fyrir gefendur og ekki síður þiggjendur, og að þetta sé einföld og skemmtileg leið til þess að gleðja starfsfólkið. Bæði gefendur og þiggjendur verða glaðir af því að gefandinn sparar tíma og getur verið viss um að gjöfin hitti í mark og þiggjandinn nýtir gjöfina klárlega. Þarna verður til jákvæð hringrás af gleði.“

Sigríður bendir á að fyrirtæki, stór sem smá, séu að nýta sér YAY þjónustuna. „Það hefur verið mikill höfuðverkur fyrir risafyrirtæki eins og til dæmis Landspítalann að gefa og dreifa jólagjöfum síðustu ár og höfða til allra starfsmanna. En núna síðustu jól breyttist það með tilkomu YAY sem var nýtt til að gefa og dreifa jólagjöfum starfsmanna með frábærum árangri og mikilli ánægju. Landspítalinn er gott dæmi; það er rétt hægt að ímynda sér hversu erfitt það er að höfða til og gefa um 6.000 starfsmönnum gjöf sem hentar.“