BYKO hefur að undanförnu unnið með alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Great Place to Work, með það að markmiði að bæta vinnustað sinn fyrir allt starfsfólk, óháð aldri, kyni, uppruna, eðli starfsins og fleira. Einn þáttur samstarfsverkefnisins er viðamikil könnun sem lögð er fyrir starfsfólk fyrirtækisins en sams konar nafnlausar kannanir voru lagðar fyrir um 1,4 milljónir starfsfólks í meira en þrjú þúsund fyrirtækjum í 37 löndum Evrópu.

Á hátíðarsamkomu Great Place to Work sem haldin var í Feneyjum í september, var BYKO afhent viðurkenning fyrir að vera einn af eftirsóknarverðustu vinnustöðum í Evrópu í hópi meðalstórra fyrirtækja.

Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO:

„BYKO hefur fyrir löngu gert sér grein fyrir því að fyrirtækið er ekki einungis til fyrir eigendur sína og viðskiptavini heldur ekki síður starfsfólkið. Án þess værum við einfaldlega ekkert. Á bak við árangur er fólk! Traust þessa stóra hóps sem endurspeglast í viðurkenningu Great Place to Work skiptir okkur þess vegna miklu máli. Við erum afar stolt af viðurkenningunni en enn þá stoltari af þessum stóra hópi starfsfólks sem ber til okkar þetta mikla traust og fór nú síðast með okkur í gegnum ótal áskoranir Covid-faraldursins sem gríðarlega sterk og órjúfanleg heild.“

Byggt á umsögnum starfsfólks

Starfsfólk BYKO er tæplega 600 manns og að baki viðurkenningunni lágu meðal annars svör starfsfólks um upplifun þess á BYKO sem vinnustað, svo sem trausti til fyrirtækisins, gildum þess, nýsköpun og stjórnunarháttum. Ein af ástæðum viðurkenningarinnar var að um 90 prósent starfsfólks BYKO sögðust myndu mæla með BYKO sem vinnustað, ásamt því að skora hátt á öðrum lykilmælikvörðum.

Samstarf við Great Place to Work

Við spurðum Sveinborgu Hafliðadóttur, mannauðsstjóra BYKO, hvað hefði orðið til þess að fyrirtækið fór í þetta ferli.

„Á árinu 2021 settum við okkur þá framtíðarsýn að skapa bestu heildarupplifun starfsfólks af BYKO sem vinnustað með sérstaka áherslu á upplifun starfsfólks og að innri þjónusta sé persónumiðuð, samfélagslega ábyrg og óháð staðsetningu.

Í framhaldi af því fórum við að leita að aðferðum, tækjum og tólum sem myndu styðja við þá vegferð sem við höfðum sett okkur. Við völdum Great Place to Work þar sem þar er lögð áhersla á að meta traust, helgun og vellíðan sem allt hefur mikil áhrif á upplifun starfsfólks af vinnustaðnum,“ segir Sveinborg.

„Við fórum inn í þetta verkefni með það í huga að þetta væri vegferð en ekki spretthlaup. Þó svo að markmiðið hafi ávallt verið að fá viðurkenningu sem Great Place to Work þá var það sérlega ánægjulegt að hljóta viðurkenninguna í fyrsta skipti sem við tökum þátt í könnuninni og er það fyrst og fremst okkar frábæra fólki innan BYKO að þakka.“

Hvaða þýðingu hefur vottunin fyrir ykkur?

„Viðurkenningin gefur okkur byr undir báða vængi, að við séum á réttri leið í framtíðarsýn okkar og styður vel við að skapa bestu heildarupplifun starfsfólks af BYKO sem vinnustað.

Vottunin er staðfesting fyrir okkur á að starfsfólkið okkar upplifir BYKO sem góðan vinnustað og gefur okkur samanburð við fjöldann allan af félögum í Evrópu og í heiminum.

Með vottuninni fær starfsfólk einnig staðfest frá utanaðkomandi aðila að niðurstöður könnunar sem það tók þátt í nái ákveðnum viðmiðum sem veiti vottun um að vera frábær vinnustaður.”

Fjölbreyttur hópur fólks

BYKO var stofnað árið 1962 og fagnar því 60 ára afmæli í ár en nýverið voru 50 einstaklingar heiðraðir fyrir starfsaldur frá 10-50 ár. Hjá félaginu starfa tæplega 600 manns á aldrinum 14-75 ára. Félagið leggur áherslu á að meta áhuga, þekkingu, hæfni og starfsorku einstaklinga í starfi óháð aldri.

„Markmið okkar er að vera framúrskarandi í jafnréttis- og fjölbreytileikamálum innan félagsins og höfum við unnið í þeirri vegferð síðastliðið ár. Við trúum því að fjölbreyttur hópur starfsfólks dragi fram ólík sjónarhorn sem leiði af sér bestu niðurstöðuna.

Þessi viðurkenning aðstoðar okkur í að kynna BYKO sem góðan vinnustað óháð kyni, kynhneigð, þjóðerni og svo framvegis, og þar með stuðla að auknu jafnrétti og fjölbreytileika innan BYKO. Jafnframt vonumst við til þess að með góðu fordæmi getum við einnig haft áhrif á framþróun jafnréttis- og fjölbreytileikamála innan byggingariðnaðarins,“ segir Sveinborg Hafliðadóttir, mannauðsstjóri BYKO.

BYKO fékk afhenta viðurkenningu sem einn eftirsóknarverðasti vinnustaður í Evrópu á hátíðarsamkomu Great Place to Work í Feneyjum í september.

UM GREAT PLACE TO WORK

  • Öflugasta viðurkenning sinnar tegundar sem byggir á endurgjöf starfsfólks.
  • Aðferðir sem hafa sannað gildi sitt.Tækni sem byggir á rannsóknum.
  • 30 ára reynsla í rannsóknum og ráðgjöf um vinnustaðamenningu.
Nýlega voru 50 einstaklingar heiðraðir fyrir starfsaldur á bilinu 10-50 ár.