Genki er í grunninn tæknifyrirtæki með sérþekkingu í gervigreind. Vörur fyrirtækisins eru hannaðar fyrir tónlistarfólk og er markaðssetning þeirra alþjóðleg.

„Við höfum verið einstaklega lánsöm að hljóta styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (NSN) en þann fyrsta hlutum við árið 2017 þegar Dagur Tómas Ásgeirsson og Kristmundur Ágúst Jónsson unnu verkefni sem átti að bæta reiknirit sem metur afstöðu út frá gögnum úr hreyfiskynjurum. Verkefnið tókst vonum framar og í lok sumars stóðum við uppi með eitt nákvæmasta reiknirit í heiminum. Það keyrir á vörum félagsins enn þann dag í dag,“ segir Ólafur Bjarki Bogason, framkvæmdastjóri Genki Instruments.

Hann segir styrki í sjóðnum hafa leitt af sér ný verkefni.

„Svo sannarlega. Árið 2018 fengum við sérstaka viðurkenningu við veitingu Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrir verkefni sem unnið var af Eddu Pétursdóttur og Freyju Sigurgísladóttur. Í verkefninu smíðuðu þær hugbúnað sem gerði okkur kleift að komast fyrr á markað en ella og margfalda notkunarmöguleika Wave, sem var okkar fyrsta vara.“

Nákvæmasta reiknirit í heimi

Árið 2020 var Genki með sex nema í hönnun og tækniþróun.

„Þau unnu fyrsta verkefnið innanhúss þar sem við nýttum gervigreind. Verkefnið gekk vonum framar, en alla tíð síðan hefur gervigreind verið burðarstólpi í vöruþróun félagsins. Í sumarlok gengu svo Anna Pálína Baldursdóttir og Daníel Þór Wilcox, nemar úr hópnum, til liðs við Genki,“ upplýsir Ólafur.

Í sumar fékk Genki sömuleiðis tvo frábæra nema, þá Bjarna Bjarnason og Arnar Ágúst Kristjánsson.

„Í samstarfi við gervigreindarteymi Genki þróuðu þeir reiknirit sem getur greint snertingu út frá gögnum úr hreyfiskynjurum og er afrakstur verkefnisins nákvæmasta reiknirit sem fyrirfinnst á heimsvísu,“ greinir Ólafur frá og bætir við að verkefni nema hjá Genki séu fjölbreytt en eigi það sameiginlegt að snúast um vöruþróun, hvort sem það heitir hönnun eða tækniþróun.

Verðmæt sérþekking

Án styrkja frá NSN kveðst Ólafur ekki hafa haft tök á að ráða inn sumarstarfsmenn á liðnum árum.

„Eins og gefur að skilja hefðum við ekki ýtt úr vör þróun á gervigreind, sem er í dag í heimsklassa og félaginu dýrmæt. Svo ekki sé minnst á tækifæri á að fá inn ferskar hugmyndir á sumrin og kynnast einstaklega skemmtilegum, duglegum og klárum nemum á leið út í lífið,“ segir Ólafur í Genki sem stendur á spennandi tímamótum.

„Þrotlaus vinna við þróun gervigreindar hefur skilað sér í sérþekkingu sem er einstaklega verðmæt og býður upp á óendanlega möguleika. Bæði við vöruþróun Genki Instruments, hluti sem Genki þróar og markaðssetur gagnvart tónlistarfólki, og Genki ML sem er þjónusta sem tæknifyrirtæki geta nýtt sér sérþekkingu Genki við eigin vöruþróun og þannig sparað tíma og bætt gæði gervigreindar.“

Frekari upplýsingar um Genki má finna á genki.is og genkiml.com.