„Við búumst við miklum fjölda keppenda og gesta á Selfoss um verslunarmannahelgina þegar mótið hefst. Unglingalandsmót UMFÍ krefst mikils af mótshöldurunum, bæði aðstöðu og síðan þarf margar hendur til að vinna við það,“ segir Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi.

Þetta er þriðja árið í röð sem Þórir stendur í stafni við undirbúning mótsins. Eins og áður hefur komið fram var því frestað síðastliðin tvö ár af völdum faraldursins.

Þórir segir alla aðstöðu til fyrirmyndar á Selfossi. „Hér er frábær aðstaða fyrir fjölbreyttar keppnisgreinar, stórt tjaldsvæði verður við Suðurhóla þar sem keppendur og fjölskyldur þeirra gista frítt en greiða eingöngu fyrir rafmagn, risastórt samkomutjald, leiktæki og önnur aðstaða. En það sem skiptir máli er að flest keppnissvæði eru í góðu göngufæri frá tjaldsvæðinu og flestar greinar verða á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg.

Ókeypis strætó fyrir mótsgesti

Til að einfalda allar samgöngur og draga úr bílaumferð mun mótsstrætó ganga á milli tjaldsvæðis og íþróttasvæðisins ókeypis.

Þórir leggur áherslu á mikilvægi þess að allir leggi sitt af mörkum, dragi úr notkun einkabíla. „Til að forðast raðir á mestu ferðahelgi ársins bendum við þeim sem geta á að aka vestan frá um Þrengsli og inn að tjaldsvæðum frá Eyrarbakkavegi um Suðurhóla,“ segir hann og bætir við að auk þess sem mælst sé til þess að fólk noti aðrar leiðir til að fara á milli staða, verði mótið kolefnisjafnað með skógrækt.

Þátttakendur á mótinu og aðrir mótsgestir geta lagt sitt af mörkum með plöntun birkiplantna sem mótið leggur til og verður plantað á golfvöll Golfklúbbs Selfoss. Þegar nær dregur móti verður sagt frá á hvaða tíma hægt er að koma og skemmta sér við að gróðursetja plönturnar.

Þórir býst sjálfur við að verða mikið á mótinu ásamt fjölda annarra sjálfboðaliða. Störf þeirra eru fjölbreytt og geta verið allt frá framkvæmd keppnisgreina til þjónustu við mótsgesti, þátttakendur og aðra gesti. „Það verður nóg um að vera og nóg að gera. Við bjóðum ungmenni og fjölskyldur þeirra velkomin til keppni og skemmtunar á Selfossi um verslunarmannahelgina!“ segir Þórir Haraldsson að lokum.