Jón Gunnar Geirdal var spurður nokkurra spurninga um Iceland Airwaves og hér koma svörin.

Hvað finnst þér það skemmtilegasta við Iceland Airwaves?

Ég elska hvað borgin lifnar við á þessari geggjuðu hátíð og eitt það allra besta er að ráfa um miðborgina og detta bara inn á tónleika með einhverjum, einhvers staðar og upplifa eitthvað einstakt – láta koma sér á óvart. Svo er Off-Venue stemningin algjörlega geggjuð.

Hvernig finnst þér skemmtilegast að upplifa hátíðina almennt?

Airwaves krefst ákveðins skipulags, beinagrind að þessu helsta sem þú vilt sjá ásamt því að koma sér tímanlega á tónleikastaði, en lykillinn er að sætta sig við það fyrir hátíðina að þú munt ekki sjá allt, enda engin ástæða til. Finna sér ákveðinn tónleikastað þegar líður á kvöldið, skjóta rótum og fíla sig bara með jökulkaldan Classic. Svo má líka taka gowiththeflow-fíling, ákveða ekkert og enda bara einhvers staðar í stemningu, þetta er Airwaves og gaman alls staðar. En besta upplifunin er að taka túristann á þetta, leigja sér hótel í bænum og upplifa hátíðina eins og maður sé túristi-í-eigin-landi, tók það nokkrum sinnum og það voru skemmtilegustu hátíðarnar.

Ertu byrjaður að setja upp þína dagskrá í ár?

Ég er aðeins byrjaður að skipuleggja en svo gerist þetta meira þegar nær dregur. Planið fyrir gamlar Airwaves-rottur eins og mig er oftast afar einfalt enda svo sjóaður í festivalinu.

Hvað hlakkar þú mest til að sjá í ár?

Ég er alltaf mest spenntur fyrir þessum innlendu hljómsveitum og alltaf gaman að sjá eitthvað alveg nýtt.

Annars er þetta það sem ég er mest peppaður fyrir:

Auður sem er minn uppáhalds tónlistarmaður í dag, GDRN sem er himnesk, Hipsumhaps sem er eitt það allra skemmtilegasta sem hefur komið fram í íslenskri textasmíð, grúppían. Ég þarf svo að sjá JóaPéxKróla, Emmsjé Gauta, Aron Can og goðsögnina Cell7 sem er tryllt live.

Tómas Welding finnst mér spennandi, John Grant og OMAM er skyldumæting, Vök eru æðisleg, Hugar nauðsynlegir fyrir núvitundarástand undirritaðs og svo held ég að Velvet Negroni sé partí sem gæti komið á óvart.