Íslensk ferðaþjónusta stendur á miklum tímamótum og er hlutverk ferðaklasans aldrei mikilvægara en einmitt nú, segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri hjá Íslenska ferðaklasanum.

„Nú þegar við horfum fram á gjörbreytta tíma í kjölfar COVID-19 er ljóst að fyrirtæki og stjórnendur í ferðaþjónustu þurfa að breyta verkferlum, umturna viðskiptamódelum, finna nýjar aðferðir til að sjá til þess að öryggi og heilsa ferðamanna sé tryggð.“

Ásta segir að þau hjá Íslenska ferðaklasanum trúi að áfangastaðurinn Ísland eigi ennþá mikið inni og geti komið sterkur út úr heimsfaraldrinum í sterkari samkeppnisstöðu en áður.

„Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að koma til mikill samstarsvilji ólíkra aðila í virðiskeðju ferðaþjónustunnar og fókusinn á framtíðina þarf að vera skýr. Við trúum því að áhersla á aukin gæði, heilsu, hreina náttúru og sjálfbærni sé leiðin fram á við ásamt því að efla stjórnendur í nýsköpun og tækni,“ segir hún.

Nýsköpunaraðsetur fyrir nemendur

Í Húsi ferðaklasans á Fiskislóð á Grandanum hefur verið mikil dýnamík og vettvangur fyrir frumkvöðla, einyrkja og stærri fyrirtæki til að vinna saman undir einu þaki, að sögn Ástu. Þá hefur húsnæðið verið nýtt undir hina ýmsu viðburði í ferðaþjónustunni sem og námskeiðahald, viðskiptahraðla og vinnustofur. Í sumar munu nemendur sem sinna hinum ýmsu verkefnum tengdum nýsköpun í ferðaþjónustu hafa aðsetur í Húsi ferðaklasans og mun eitt þeirra verkefna snúa að því að þróa sjálfbærni-hæfnihjól fyrir ferðaþjónustuna.

„Eftir tvö annasöm og árangursrík ár á Grandanum mun Íslenski ferðaklasinn flytja sig um set og koma sér fyrir í öflugu nýsköpunar- og tækniumhverfi Grósku þar sem Vísindagarðar verða á fyrstu hæð hússins,“ segir Ásta.

„Við erum full tilhlökkunar að taka þátt í því öfluga samfélagi og halda áfram með það gróskumikla starf sem unnið hefur verið á síðustu árum. Ekki skemmir heldur fyrir að vera áfram nálægt því góða samfélagi sem byggst hefur upp á Grandanum á síðustu árum.“