„Í dag starfa sextán reynslumiklir ráðgjafar hjá Intellecta og eru kynjahlutföllin nánast jöfn. Ráðgjafar okkar veita fjölbreytta ráðgjöf, svo sem á sviði ráðninga, rekstrarráðgjafar, upplýsingatækniráðgjafar og kjararáðgjafar,“ upplýsir Thelma Kristín Kvaran, meðeigandi hjá Intellecta og sérfræðingur í ráðningum.

Thelma hefur starfað hjá Intellecta í tæp fimm ár og upplifað fjölbreytta tíma hjá fyrirtækinu.

„Þegar ég hóf störf hjá Intellecta störfuðu tíu ráðgjafar hjá fyrirtækinu og þar af var ráðningadeildin með fjögur stöðugildi. Undanfarin ár hefur vöxturinn verið mikill og verðum við brátt sjö í ráðningateyminu,“ bætir hún við.

Víðtæk og fjölbreytt reynsla

Torfi Markússon er meðeigandi Intellecta og sérfræðingur í ráðningum.

„Orðspor og reynsla eru lykilþættir í velgengni fyrirtækisins í gegnum árin. Intellecta er ein af stærstu ráðningastofum landsins, sem helgast af því hversu öflugir ráðgjafar starfa fyrir fyrirtækið á því sviði sem hafa metnað fyrir að veita framúrskarandi þjónustu. Við höfum ráðið til okkar ráðgjafa með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, ásamt menntun og sérþekkingu á fjölbreyttum sviðum, sem hefur styrkt ráðningateymið okkar svo um munar,“ greinir Torfi frá.

Aðspurð segjast þau Thelma og Torfi sinna ráðningum stjórnenda og sérfræðinga á flestum sviðum atvinnulífsins, fyrir fyrirtæki á einkamarkaði, opinberar stofnanir og sveitarfélög.

„Verkefnin hafa verið fjölbreytt og krefjandi og því hefur safnast hjá okkur mikil reynsla sem nýtist viðskiptavinum okkar í ráðningum og öðrum þáttum sem tengjast mannauði fyrirtækja. Engir tveir einstaklingar eru eins og því leggjum við mikla áherslu á að finna einstakling sem bæði veldur starfinu og fellur að áherslum og menningu fyrirtækisins,“ segir Torfi.

Frá vinstri eru Thelma Kristín Kvaran, Sigríður Svava Sandholt, Helga Birna Jónsdóttir og Hafdís Ósk Pétursdóttir. Þær sinna allar ráðningum stjórnenda og sérfræðinga fyrir einkafyrirtæki, sveitarfélög og opinberar stofnanir hjá Intellecta.

Gott orðspor og reynsla

Thelma bætir við að Intellecta hafi skapað sér gott orðspor þegar kemur að opinberum ráðningum.

„Ráðgjafar okkar hafa unnið að fjölmörgum ráðningum stjórnenda og sérfræðinga og hefur skapast mikil sérþekking á því sviði innan deildarinnar. Við höfum meðal annars mikla reynslu af því að takast á við ráðningar sem hafa komið í kjölfar erfiðra skipulagsbreytinga hjá hinu opinbera. Slík mál eru oft flókin, til dæmis vegna umsókna frá starfsfólki viðkomandi stofnunar og öðrum hæfum einstaklingum. Þá getur styrkt ferlið að hafa hlutlausan aðila með, eins og Intellecta, sem hefur umfangsmikla reynslu og þekkingu á lögum og reglum sem þarf að fylgja.

Það að fá okkur til ráðgjafar gefur ferlinu aukinn trúverðugleika sem stuðlar að bættri upplifun viðskiptavina og umsækjenda. Það er mikilvægt að umsækjendur finni að verið sé að vinna faglega og að lögum og reglum sé fylgt,“ segir Thelma.

Hún segist hafa tekið eftir mikilli breytingu hjá hinu opinbera, þar sem fjöldi stjórnenda af einkamarkaði hafi sóst þar eftir stöðum og fengið.

„Það hefur verið gaman að vinna með þessum stjórnendum að þeirra fyrstu opinberu ráðningum og kenna þeim ferlið frá A-Ö. Það er svo margt sem kemur þeim á óvart og margt sem ber að hafa í huga. Það er einmitt það sem gerir þetta svo skemmtilegt. Það er okkar upplifun að stjórnendur hjá hinu opinbera hafi metnað fyrir því að vanda til verka og þess vegna erum við kölluð að borðinu,“ bætir hún við.

Tengslanet ráðgjafa mikilvægt

Thelma segir sína reynslu vera þá að mannauðsdeildir séu í auknum mæli að beina kröftum sínum inn á við, halda utan um vinnustaðamenninguna og gæta að því að næra sitt fólk.

„Oft er því betra að fá aðra til að vera úti á mörkinni varðandi öflun umsækjenda og láta ráðningastofu vinna þessa tengslavinnu. Þar komum við sterk inn. Æðstu stjórnendur fyrirtækja nýta sér mikið beina leit (e. head-hunting) þegar leitað er að lykilfólki. Að auki er Intellecta í góðum samskiptum við fjölmarga einstaklinga sem þó eru ekki endilega í eiginlegri atvinnuleit. Tengslanet ráðgjafa er mikilvægt þegar kemur að öflun umsækjenda í stjórnendastöður,“ upplýsir Thelma.

Torfi nefnir að áhugavert hafi verið að fylgjast með þeim miklu breytingum sem hafi átt sér stað á síðustu tveimur árum.

„Atvinnumarkaðurinn hefur tekið stakkaskiptum frá því í upphafi faraldursins, en þá var mikið atvinnuleysi og oft mikill fjöldi umsókna um hvert starf. Í dag er meiri umsækjendamarkaður þar sem umframeftirspurn er eftir reynslumiklu fólki, til dæmis í sérfræði- og stjórnendastörf. Stjórnendur hafa þurft að auka hraðann í ferlinu sjálfu til að eiga ekki á hættu að missa af góðum umsækjendum, sem eru jafnvel í öðrum ráðningaferlum samtímis,“ segir Torfi og heldur áfram:

„Undanfarinn áratug höfum við mikið verið að vinna í leitarverkefnum í tæknistörf, en þá eru þau ekki auglýst, heldur leitum við að hæfum einstaklingum í tiltekið starf. Þessi leið er oft farin þegar erfitt hefur reynst að manna störf með auglýsingu, til dæmis ef um mikla sérhæfingu er að ræða eða skort á ákveðinni þekkingu. Þá hefur einnig verið töluverð aukning í leitarverkefnum í öðrum starfsgreinum sem tengist einmitt þessari umframeftirspurn á atvinnumarkaði,“ segir Torfi.

Torfi Markússon og Henrietta Þóra Magnúsdóttir eru sérfræðingar Intellecta í ráðningum í upplýsingatækni. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Stytta sér aldrei leið

Mikil aukning hefur verið í ráðningum á sviði upplýsingatækni, sem rekja má meðal annars til stafrænnar þróunar, auk þess sem ný tæknifyrirtæki hafa sprottið upp undanfarin ár og mörg hver náð góðum árangri, sem veldur aukinni mannaflaþörf.

„Í dag erum við tvö sem sérhæfum okkur að mestu í upplýsingatækniráðningunum, þó hinir ráðgjafarnir taki einnig tilfallandi verkefni á því sviði. Ég starfaði sem mannauðsstjóri hjá upplýsingatæknifyrirtæki í tíu ár og samstarfskona mín er með menntun á sviði tölvunarfræði og klínískrar sálfræði ásamt starfsreynslu í hvoru tveggja. Það er mikilvægt að vera vel kunnugur tækninni og skilja tæknimálið til að geta áttað sig á því hverjir eru virkilega framúrskarandi á þessu sviði. Okkur hefur tekist að skila miklum virðisauka til okkar viðskiptavina með úrvals ráðningum,“ segir Torfi.

Hann bætir við að síðustu ár hafi eftirspurn eftir konum í tæknistörf aukist vegna áherslu stjórnenda á að jafna kynjahlutfall á vinnustaðnum.

„Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hversu meðvituð fyrirtæki eru orðin um að fjölbreytt teymi skili góðum árangri. Konum hefur fjölgað ár hvert í þessu umhverfi og höfum við gengið frá fjölmörgum farsælum ráðningum sem við erum stolt af.“

Thelma segir vaxandi kröfu um að fagmennska í valferli sé tryggð og að allt þeirra starf miðist við að uppfylla ströngustu kröfur í þeim efnum.

„Við viljum tryggja að umsækjendur sem koma í gegnum ráðningarferli okkar séu það vel valdir að það muni um þá í þeim starfsmannahópi sem þeir koma til með að starfa í. Við tryggjum það með eins góðum hætti og mögulegt er með því að vanda til verka í ráðningarferlinu og styttum okkur aldrei leið.“

Covid breytti sviðinu

Thelma nefnir að Covid-faraldurinn hafi reynst mörgum Íslendingum erfiður þar sem álagið jókst hjá vinnandi fólki. Sum fyrirtæki hafi neyðst til að fara í miklar uppsagnir á meðan önnur hafi upplifað mikla aukningu í eftirspurn eftir ákveðinni vöru eða þjónustu og jafnvel ekki verið undir það búin hvað varðar mannafla.

„Hvort tveggja veldur miklu álagi á starfsfólk og í framhaldinu varð mikil vitundarvakning á meðal umsækjenda. Við tökum eftir að margir leggja nú ríkari áherslu á þætti eins og fjarvinnu, sveigjanleika, gott starfsumhverfi og vinnustaðamenningu. Margir hafa endurhugsað lífsstíl sinn, sem og óskir og kröfur sem þeir gera til vinnustaða. Fólk hefur áttað sig á að talan á launaseðlinum er ekki allt og því þurfa vinnuveitendur að leggja meira púður í að selja sig og upplýsa um ýmis fríðindi og sveigjanleika sem starfsfólki býðst. Hér áður þótti eftirsóknarvert í fari umsækjenda að þeir væru tilbúnir til að setja starfið efst á forgangslistann; það var merki um dugnað. En þessi tími hefur kennt mörgum að meta aðra þætti lífsins. Yngri kynslóðin er þar í fararbroddi og kemur inn með breyttan hugsunarhátt og ný gildi sem snúa að jafnvægi milli vinnu og einkalífs, sem aðrir mættu tileinka sér,“ greinir Thelma frá.

Aðspurð hvort breytingar hafi orðið á því með hvaða hætti störf séu auglýst nú, segir Thelma að upplifun þeirra sé að stafrænir miðlar séu orðnir vinsælli og nái til fleiri einstaklinga.

„Við tökum einnig eftir því að hæfniskröfur í stjórnendaráðningum hafa breyst, þar sem meiri áhersla er lögð á mýkri eiginleika, svo sem samskipta-, samstarfs- og leiðtogahæfni. Kemur það til vegna þess að stjórnunaraðferðir hafa verið að taka breytingum á þann hátt að stjórnendur hafa í meiri mæli lagt áherslu á að hafa starfsfólkið með í því sem er að gerast á vinnustaðnum, svo sem í breytingum og ákvarðanatökum og leggja meiri áherslu á upplýsingaflæði,“ upplýsir Thelma.

Hún nefnir að orðið sé algengara að einstaklingar stoppi styttra við í starfi en áður.

„Hér áður valdi fólk sér oft ævistarf en í dag er ekki óalgengt að stoppa í þrjú til fimm ár. Mikilvægt er þá að þeir sem fari yfir umsóknir líti ekki á það sem neikvæðan þátt, því það er alveg ótrúlegt hversu miklu er hægt að áorka á þremur árum. Horfum frekar á árangurinn og virðið sem umsækjandinn skilaði á þeim tíma sem hann var í starfi.“

Þau Thelma og Torfi taka bæði fram að mikilvægt sé að umsækjendur vandi til verka við gerð ferilskrár og kynningarbréfs.

„Ferilskráin þarf að innihalda upplýsingar um menntun og starfsreynslu viðkomandi en mikilvægt er að hún upplýsi lesandann vel, þannig að hann sitji ekki eftir með spurningar. Þá er kynningarbréfið líka mikilvægt. Við höfum ráðlagt umsækjendum að skoða vel helstu verkefni og hæfniskröfur þess starfs sem þeir sækja um og máta sig þannig inn í starfið,“ upplýsir Thelma.

Hún bendir einnig á að mikið sé í húfi hvað ráðningar snertir.

„Hver einstök ráðning er mikilvæg fjárfesting og er það hagur viðkomandi fyrirtækis og einstaklings að vel takist til. Flestir eru sammála um að mannauðurinn sé ein mikilvægasta auðlind fyrirtækja. Árangursríkar ráðningar byggjast á faglegum vinnubrögðum, skilningi á mannlegri hegðun og notkun viðurkenndra aðferða. Vinnusparnaðurinn fyrir stjórnendur er gífurlegur,“ segir Thelma að lokum.

Intellecta er í Síðumúla 5. Sími 511 1225. Sjá nánar á intellecta.is