Kópavogsbær er í samvinnu við H.C. Andersen safnið í Danmörku, Múmínsafnið í Finnlandi og Ilon’s Wonderland í Eistlandi í Vatnsdropaverkefninu.

Öll verkefni ungra sýningarstjóra snúast um klassískar norrænar barnabókmenntir og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Síðasta vetur vann hópurinn með heimsmarkmið númer 15, Líf á landi, en þá settu hinir ungu sýningarstjórar upp listahátíð við Menningarhúsin í Kópavogi.

Þar sýndu þau meðal annars ljósmyndir af óboðnum gestum náttúrunnar, vöktu athygli á matarrækt, tóku upp hlaðvarp um dýr í útrýmingarhættu og útbjuggu ljóðabók um náttúruna. Öll verkefnin sem litu dagsins ljós voru hugarfóstur ungu sýningarstjóranna sem fylgdu þeim eftir með kynningum og vinnusmiðjum.

Koffortin fljúgandi

Í framhaldi af listahátíðinni voru haldnar vinnusmiðjur á Bókasafni Kópavogs síðastliðið sumar þar sem hvatt var til lestrar og sköpunar. Að lokum urðu til fjórar ferðatöskur sem fengu nafnið Koffortin fljúgandi sem er tilvitnun í eina af sögum H.C. Andersen. Þær Anja Ísabella Lövenholdt og Magna Rún Rúnarsdóttir hönnuðu koffortin úr niðurstöðum ungu sýningarstjóranna.

Þau hafa verið kynnt í öllum grunnskólum bæjarins og eru nú á fljúgandi ferð á milli kennslustofa með verkefnum unnum upp úr áherslum ungu sýningarstjóranna síðasta vetur. Árangur af starfi þeirra er því mikill og finnst aðstandendum Vatnsdropans mjög ánægjulegt að geta boðið nemendum og kennurum að vinna með niðurstöður þeirra þar sem lögð er áhersla á lestur, leik og sköpun. Þannig lifa verkefnin áfram.

Bókmenntir, jafnrétti, sjálfbærar borgir og samfélög

Í vetur verður unnið með tvö heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmið 5 um jafnrétti og heimsmarkmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög, í tengslum við bókmenntirnar. Verkefni ungra sýningarstjóra í ár snýst um að þau stýri listrænni sýningu sem sett verður upp í Kópavogi og einu af samstarfslandi Vatnsdropans. Þeim býðst að hitta sérfræðinga á sínu áhugasviði, fara í gegnum vinnusmiðjur, vettvangsferðir og taka þátt í umræðum um þá listrænu stefnu sem þau kjósa að taka.

Öll áhugasöm börn hvött til að sækja um

Kópavogsbær hvetur öll börn bæjarins sem áhuga hafa á að vinna að skapandi verkefnum til að sækja um en síðastliðin tvö ár hafa ungir sýningarstjórar komið að uppsetningu listsýninga, viðburða og umræðna um málefni sem þeir hafa áhuga á og ástríðu fyrir.

Þátttaka í Vatnsdropanum hvetur börn til að opna og virkja hug sinn í gegnum skapandi ferli sem lýkur með listsýningu sem þau móta og ætlað er að sem flest börn geti notið.

Margt forvitnilegt bar fyrir augum á sýningunni Sjórinn er fullur af góðum verum, sjórinn er fullur af rusli.
Unnið var með þemað líf í vatni á fyrsta ári Vatnsdropans.
Unnið að Vatnsdropaverkefninu í Eistlandi.
Ungir sýningarstjórar til í slaginn á listahátíð Vatnsdropans í sumar.