„Við höfum leitað leiða til að útfæra skapandi og umfram allt skemmtilegar aðferðir til að mennta ungt fólk, valdefla það og tala um mikilvæg, jafnvel þung málefni án þess að búa til kvíðavaldandi umhverfi í kringum það,“ segir Katrín Hulda Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Matís.

„Það vakti athygli okkar sem stöndum að verkefnunum Grænir frumkvöðlar framtíðar (GFF) og NordMar Biorefine (NMB) að þegar á að fræða börn eða ungt fólk um þessa þrjá þætti eru lykiláherslur í kennsluaðferðum svipaðar. Mikilvægt er að segja börnum alltaf satt, hlusta vandlega á hugmyndir þeirra og tilfinningar í garð viðfangsefnisins, setja hlutina í samhengi sem þau þekkja og tengja við, helst úr nærumhverfinu og gefa þeim tækifæri til þess að hafa áhrif,“ segir Katrín Hulda.

Glímt við raunveruleg vandamál

Í verkefninu GFF fengu nemendur í þremur grunnskólum í sjávarþorpum á landsbyggðinni fræðslu um þessa þrjá þætti og tóku svo þátt í MAKEathon-nýsköpunarkeppni.

„Keppnin fólst í því að koma auga á mögulegar lausnir á umhverfisáskorunum innan sjávarútvegsins og færa hugmyndir í framkvæmd. Í NMB-verkefninu var efnt til myndbandakeppni þar sem krakkar gátu komið hugmyndum sínum um betri nýtingu á bláa lífmassanum, svo sem þangi, hliðarafurðum fiskvinnslu og skeljum á framfæri við fólk sem starfar í sjávarútvegi eða greinum tengdum bláa lífhagkerfinu. Í báðum verkefnum var áhersla lögð á að skapa vettvang fyrir börn til þess að takast á við raunveruleg vandamál og hafa áhrif,“ upplýsir Justine Vanhalst verkefnastjóri.

Verkefnunum var vel tekið og verða úrslit MAKEathon-nýsköpunarkeppninnar og myndbandasamkeppni NMB tilkynnt í nýsköpunarvikunni.

Hvert er heitasta skítamixið?

Erindið „Hvernig er best að tala við börn og ungt fólk um loftslagsbreytingar, sjálfbærni og nýsköpun?“ er hluti af viðburði Matís sem fram fer í Grósku föstudaginn 20. maí kl. 13.30.

„Sjálfbærni og nýsköpun í matvælaframleiðslu eru lykilorðin í fimm dýnamískum erindum sem taka á fjölbreyttu efni á borð við nýsköpun í grænmetisrækt, hvers vegna það er mikilvægt að matur bragðist og lykti vel, hvernig próteingjafar framtíðarinnar líta út og hvert heitasta skítamixið er í dag,“ upplýsir Justine.

Sjá meira á matis.is