„Fyrirtækið byrjaði þannig að ég fann að ég náði ekki nægilega góðum djúpsvefni á dýnum úr gerviefnum, ég vaknaði oft á nóttunni og svitnaði mikið,“ segir Vilmundur Sigurðsson, forstjóri Woolroom. „Óreglulegt hitastig var líka að trufla mig mikið. Það var eins og þessi gerviefni úr svampi, sem er unninn úr plasti, færu ekki vel í mig.

Ég fór því að skoða málið og komst að því að mér leið betur við að sofa á náttúrulegri efnum. Eftir mikla heimavinnu fann ég svo vörurnar frá Woolroom á Englandi. Þær eru alveg náttúrulegar og í þær eru eingöngu notuð hrein og heilnæm efni sem hafa verið notuð í svefnvörur í þúsundir ára,“ segir Vilmundur. „Ullardýnurnar eru handgerðar á Englandi og verksmiðjan er með sínar eigin framleiðsluvélar til að framleiða gormakerfið, sem samanstendur af þúsundum gorma og er einstakt og líklega það fullkomnasta í heimi.

Aðalhráefnið í þeim er ull, en þær innihalda líka lífræna bómull,“ segir Vilmundur. „Ullin kemur með hitajöfnun þannig að maður er alltaf á svipuðu hitastigi, sérstaklega ef maður bætir við ullarkodda og ullarsæng sem innihalda lífræna bómull. Eftir að ég gerði þessa breytingu finn ég ekki fyrir svita lengur, vakna sjaldan og fæ dýpri og betri svefn. Ég sef bara eins og barn.“

Eitthvað fyrir alla

„Við bjóðum hitajafnandi ullarsvefnvörur fyrir bæði börn og fullorðna. Ullin er þeim eiginleikum gædd að þræðir hennar mjókka í hita og verða sverari í kulda. Þetta þýðir að ullin virkar eins og fullkomnasta hitastýrikerfi fyrir okkur. Ekki of heit og ekki of köld,“ segir Vilmundur. „Ullin tekur líka fljótt við raka og skilar honum fljótt aftur frá sér þegar færi gefst. Þessi eiginleiki ullarinnar skilar sér frábærlega í öllum okkar svefnvörum fyrir bæði börn og fullorðna.

Dýnurnar frá Woolroom eru handgerðar og í þær eru bara notuð hrein og heilnæm efni. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Ullarkoddarnir eru í stillanlegum þykktum, sem þýðir að fólk stillir þá þegar heim er komið, og getur í rólegheitum breytt þykkt og lögun ullarkoddans á mörgum dögum eða vikum,“ segir Vilmundur. „Svo eru til ullarsængur, ullarhlífðarlök, ullarmjúktoppar og sængurföt, allt með lífrænni bómull, fyrir alla fjölskylduna.“

Bjóða upp á lán á dýnum

„Við erum þau einu á svefnvörumarkaðnum sem bjóða fólki upp á að fá dýnur lánaðar heim. Við keyrum þær heim til fólks frítt og lánum þær í 3-4 nætur án allra skilyrða,“ segir Vilmundur.

„Þetta hjálpar fólki oft að taka lokaákvörðun og sannfærir flesta bæði um að taka vöruna og að það sé mikið betra að sofa á lífrænum efnum en gerviefnum, ásamt því að hjálpa þeim að velja stífleika og fleira,“ útskýrir Vilmundur.

Handunnar og náttúrulegar vörur

„Woolroom var upphaflega stofnað af breskum bændum sem voru ósáttir við lágt verð á ull og framleiðandinn er að endurvekja notkun á ull í svefnvörur með nýjum aðferðum, en við þekkjum auðvitað öll yfirburði hennar þegar kemur að útivistarfatnaði,“ segir Vilmundur. „Við höfum verið að selja þessar vörur hér á landi í þrjú ár og á þeim tíma hefur framleiðslufyrirtækið á Englandi verið í það miklum vexti með okkar hjálp og flutt vörur sínar út í svo miklum mæli að það vann virtustu fyrirtækjaverðlaun Bretlands „The Queen’s Awards for Enterprise: International Trade 2021“ eða útflutningsverðlaun bresku drottningarinnar 2021, sem afhent eru árlega af henni sjálfri í Buckinghamhöll við hátíðlega athöfn.

Dýnurnar frá Woolroom eru umhverfisvænni en flestar hefðbundnar dýnur. Það er hægt að endurvinna þær alveg, á meðan svampdýnur eru oftast urðaðar,“ segir Vilmundur. „Hráefnið sem er notað í dýnurnar er líka framleitt á Englandi, svo kolefnisfótsporið er eins lítið og hægt er og í raun er allt framleiðsluferlið eins náttúrulegt og heilnæmt og það getur verið.“

Gagnsæi og heiðarleiki

„Það er líka hægt að rekja uppruna Woolroom-ullarinnar. Vörurnar hafa QR-kóða sem er hægt að nota til að rekja ferlið allt frá býlinu á Englandi þar sem hráefnið er framleitt,“ segir Vilmundur. „Fólk getur séð að búfénaður er meðhöndlaður á sómasamlegan hátt og séð hvernig allt ferlið gengur fyrir sig. Við viljum gera fólki kleift að taka upplýsta ákvörðun.

Þar sem þetta eru handgerðar vörur er framleiðslukostnaður hár og því reynum við að bjóða vöruna með sem minnstri álagningu,“ segir Vilmundur. „Við byggjum á heiðarlegum viðskiptum og gagnsæi í ferlinu okkar, þannig að viðskiptavinir sjái að við erum að bjóða lægsta verð fyrir hámarks gæði.“ ■