Hjúkrunarfræðingurinn Maríanna Csillag hefur þjáðst af slitgigt í hné árum saman og notar þess vegna Unloader One® X hnéspelkuna frá Össuri, sem eykur hreyfanleika með því að lina sársauka vegna slitgigtar í hné. Maríanna segir að spelkan hafi virkað miklu betur en hún þorði að vona. Hún tali nú alltaf um lífið fyrir og eftir spelku, því lífsgæðin bötnuðu svo mikið.

„Ég verð sextug á þessu ári og slitgigt er í ættinni minni. Um 1984 fór ég í aðgerð á hægra hné vegna smávægilegrar kölkunar og eftir það var ég góð næstu 30 árin. Síðan fyrir um átta árum fór ég að fá verki í hnéð og það fór að bólgna og vera með vesen þegar ég fór að ganga, en ég hef alltaf hreyft mig mikið,“ segir Maríanna. „Þá fór ég til bæklunarlæknis sem sendi mig í myndatöku og sagði mér svo að ég væri með verulegt slit í hnénu. Hann sagði að hann vildi ekki gera aðgerð á mér því það myndi ekki gera gagn og benti mér á að nota þessa spelku.

Ég var alveg til í það, það hafði lítið verið fjallað um þetta en það er sjaldgæft að bæklunarlæknir vilji ekki skera, svo ég var til,“ segir Maríanna og hlær. „Ég fékk beiðni frá honum og fór svo og fékk spelku frá Össuri, en það er rétt að taka fram að það þarf ekki að fara til bæklunarlæknis heldur er nóg að fá myndgreiningu og beiðni frá heimilislækni.

Fyrst var ég mjög efins um að þetta myndi virka eitthvað en starfsmaður Össurar skellti spelkunni á mig og lét mig svo labba upp tröppur og niður aflíðandi brekku,“ segir Maríanna. „Ég get svarið að þetta var ólýsanlegt. Það var engu líkt að geta loksins labbað upp tröppu og niður brekku verkjalaus. Þetta var ótrúleg upplifun, bara kraftaverki líkast.

Spelkurnar hafa þróast og verða sífellt minni, nettari og flottari, segir Maríanna. Hún segir að þó Hún segir að þær bæti lífsgæðin svo mikið að það sé engin ástæða til að nýta þær ekki. FRÉTTABLAÐIÐ/ SIGTRYGGUR ARI

Ég prófaði spelkuna fyrst í fjóra daga og á þeim dögum minnkaði bólgan verulega og í ljós kom hné sem hafði leynst undir bólgunni,“ segir Maríanna létt. „Síðan hef ég alltaf talað um lífið fyrir og eftir spelku, þetta er allt annað.“

Forðar liðnum frá álagi

„Síðasta sumar fór svo vinstra hnéð og núna í janúar fékk ég spelku á það, en þá var ég hætt að geta hreyft mig. Ég fór svo beint inn á Reykjalund og er þar núna að fá endurhæfingu,“ segir Maríanna. „Bólgan er nú farin úr hnénu sem var áður afmyndað af bólgu og ég gat ekki beygt það, en núna er ég meira að segja farin að gera æfingar án spelku með aðstoð sjúkraþjálfarans.

Það sem spelkan gerir er að lyfta liðnum í sundur og þannig dregur hún úr álaginu á liðinn og virkar í raun sem verkjameðferð með því að létta álagið,“ segir Maríanna. „Það þarf svo að byggja upp vöðvana kringum liðinn, en þegar þú ert að drepast úr verkjum og getur ekki hreyft þig verður auðvitað vöðvarýrnun. Ég er að því núna.

Þetta er magnað fyrir þá sem þetta virkar fyrir, en það fer eftir því hvar slitið er í hnénu. Spelkan bætir mín lífsgæði verulega og þegar ég sé fólk haltra langar mig alltaf pínu að pikka í það og benda því á að tala við Össur,“ segir Maríanna.

Ekki bara örþrifaráð

„Fyrst voru spelkurnar stórar og miklar en þær hafa síðan þróast,“ segir Maríanna. „Í hittiðfyrra var ég svo heppin að vera beðin um að taka þátt í þróunarverkefni fyrir nýja spelku því Össur vildi fá einhvern sem notar svona spelku mikið og það á við mig, ég nota hana daglega og fer á gönguskíði og skokka með hana.

Nýja gerðin er mun minni, nettari og flottari en áður og það er auðveldara að setja hana yfir buxurnar,“ útskýrir Maríanna. „Maður er samt svolítið eins og Tortímandinn með þetta, en málið er að ávinningurinn af því að vera með spelkuna gerir það þess virði. Ef þér líður betur, þú hvílist betur og þú ert verkjalaus þá batna lífsgæðin svakalega og því er engin ástæða til að nýta þetta ekki.

Ég vann áður hjá Heilsuborg og hitti mikið af fólki sem var í endurhæfingu og þar var ég að predika boðskapinn og segja fólki frá gagnsemi spelkunnar, en þegar fólk sá spelkuna var viðkvæðið oft „ég er ekki svona slæm(ur)“,“ segir Maríanna. „Fólk heldur að þetta sé eitthvert örþrifaráð, en málið er að fyrir þá sem geta notað þetta er of mikill ávinningur af því að nota svona spelku til að nýta sér það ekki og starfsfólk Össurar getur metið það hratt hvort spelkan komi að gagni fyrir fólk.“

11 stig af 10 mögulegum

„Ég myndi gefa þjónustunni hjá Össuri 11 stig af 10 mögulegum,“ segir Maríanna. „Þau eru frábær og bara ekkert nema hjálpsemin, allt sem er að er skoðað og lagað hratt. Þetta er alveg fyrirmyndarþjónusta.

Ég myndi líka hiklaust mæla með því að nota svona spelku. Sérfræðingar hjá Össuri geta metið áverkana eða verkina sem hver og einn glímir við og svarað því hvað virkar við því tiltekna vandamáli,“ segir Maríanna. „Ekki hugsa „ég er ekki svo slæm(ur)“, prófaðu þetta fyrst og ákveddu þig svo.“