Erna Kristín Sigmundsdóttir iðjuþjálfi er hluti af geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Akureyri. Teymið veitir fullorðnum einstaklingum sem hafa greinst með geðræn vandamál stuðning, en Erna segir að í faraldrinum nái skjólstæðingarnir hægari bata.

„Geðheilsuteymið hér er ársgamalt, en það er búið að setja upp þrjú slík teymi á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Austurlandi. Teymin eru ólík, en þau mótast af þörfum skjólstæðinga á hverjum stað,“ segir Erna.

„Þjónustan er fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa verið greindir með geðsjúkdóma eða geðraskanir og þurfa á þéttri þverfaglegri aðstoð að halda. Flestir skjólstæðingar eru á aldrinum 18-30 ára.

Við vinnum eftir gagnreyndum aðferðum og samkvæmt klínískum leiðbeiningum og þjónustan byggist á valdeflingu og batahugmyndafræði,“ útskýrir Erna. „Hér er þverfaglegt teymi sem samanstendur af hjúkrunarfræðingum sem eru jafnframt málastjórar, sálfræðingum, iðjuþjálfa og geðlækni. Málastjóri heldur utan um þjónustuna og dregur hinar starfsstéttirnar inn eftir þörfum.

Við reynum að mæta þörfum skjólstæðinga eins fljótt og auðið er og í upphafi gerum við meðferðaráætlun þar sem við setjum fram skýr og mælanleg markmið sem við vinnum svo að með skjólstæðingum,“ segir Erna.

Gott utanumhald um alla

„Iðjuþjálfi metur iðjuvanda skjólstæðinga,“ segir Erna. „Við metum það sem hann langar og þarf að gera en getur ekki gert af einhverjum orsökum, yfirleitt vegna geðrænna vandamála. Það getur verið allt frá því að fara á fætur á morgnana yfir í flókin verkefni en yfirleitt er virknin aðalvandi hópsins. Síðan vinnum við með skjólstæðingnum að þeim markmiðum sem hann setur sér.

Af því að teymið hefur ólíka sérfræðinga innanborðs er þétt og gott utanumhald um alla, þannig að ef lyf eru í ólestri er hjúkrunarfræðingur og geðlæknir til staðar til að laga það, sálfræðingurinn sér um áfallameðferð og iðjuþjálfinn eykur virkni einstaklinga,“ útskýrir Erna. „Við í teyminu gefum hvert öðru líka klapp á bakið og gagnrýni, sem er gulls ígildi.“

Ólík viðbrögð við COVID

„COVID hefur haft gífurleg áhrif á starf okkar. Flestir skjólstæðingar glíma við þunglyndi og kvíða ásamt áfallastreituröskun og þegar svona hvellur kemur fer fólk í tvær áttir,“ segir Erna. „Þetta passar inn í lífsmynstur hjá sumum, þeim líkar að vera út af fyrir sig og þurfa ekki að fara út. Hinir verða aftur á móti enn kvíðnari og líður verr og við höfum aukið þjónustuna við þá sem líður verst. Við höfum tekið eftir því að fólki batnar hægar í svona ástandi. Það verður lítil sem engin framþróun og sumum fer aftur.“