Dagur Jóhannsson, verkefnastjóri Bataskólans, útskýrir að batahugmyndafræðin sem skólinn starfar eftir gangi úr á að einstaklingurinn stjórni sínum bata og sínu bataferli.

„Við bjóðum upp á fræðslu fyrir fólk sem fólk getur svo nýtt sér á þann hátt sem það vill. Þá getur fólk öðlast bata á eigin forsendum,“ segir hann.

Námið í Bataskólanum nær yfir tvær annir og nýir nemendur eru teknir inn á hverri önn. Næsta önn hefst 22. september og segir Dagur að enn séu nokkur laus pláss á þeirri önn.

„Við erum venjulega með biðlista en síðasta vetur kenndum við í fjarkennslu og tókum þess vegna fleiri inn en venjulega og náðum að tæma biðlistann,“ segir hann.

Dagur segir að þau hjá skólanum séu ánægð með að geta aftur boðið upp á nám á staðnum enda snúist skólinn að miklu leyti um að koma fólki í virkni og hluti af því sé að mæta á staðinn og hitta aðra.

Eina krafan jákvætt viðhorf

Kennslan í Bataskólanum er byggð upp á fyrirlestrum en er svo brotin upp með ýmiss konar öðrum kennsluaðferðum.

„Við skiptum um kennsluaðferðir á 20 mínútna fresti og róterum yfir í hópastarf til dæmis,“ segir Dagur.

„Nemendur taka bara þátt eins mikið og þeir treysta sér til. Við þvingum engan til að vera í hópastarfi og það er ekki mikið um heimaverkefni. Skólinn er aðallega byggður upp sem fyrirlestrar og fræðsla.“

Í Bataskólanum er boðið upp á úrval af skemmtilegum og fjölbreyttum námskeiðum sem samin eru af sérfræðingum og fara í gegnum gæðanefnd.

„Þetta eru oftast sálfræðingar, geðlæknar og hjúkrunarfræðingar sem semja námskeiðið en í ferlinu eru líka jafningjafræðarar sem semja námskeið til jafns við sérfræðingana. Jafningjafræðari er einhver sem hefur sjálfur reynslu af geðrænum áskorunum. Námskeiðin eru svo kennd í sameiningu af sérfræðingum og jafningjafræðurum,“ segir Dagur.

„Þetta er byggt upp eins og venjulegur skóli að því leyti að þú færð stundatöflu fyrir önnina og á hverri önn eru alls konar námskeið í boði. Það eru til dæmis námskeið um þunglyndi, kvíða, virkni í samfélaginu, svefn og minni. Það eru engin próf í skólanum og einu kröfurnar sem við gerum til nemenda er jákvætt viðhorf og virðing fyrir starfsfólki og samnemendum.“

Áður en skólinn var stofnaður voru nokkrir aðilar sem fóru í ferð til Bretlands og skoðuðu Nottingham Recovery College.

„Bataskólinn er stofnaður að fyrirmynd hans en það eru nokkrir svona Bataskólar út um alla Evrópu,“ segir Dagur.

Bataskólinn flutti nýlega í húsnæði Menntavísindasvið HÍ í Stakkahlíð. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA

Verkfæri til að tækla vandann

Markmið námsins í Bataskólanum er að í lok þess hafi nemendur öðlast betri verkfæri til að takast á við eigin vanda.

„Það er svolítil sjálfsvinna í skólanum. Fólk er að afla sér tóla og tækja til að hjálpa sér, við bendum því á ýmis bjargráð. Við erum til dæmis með námskeið um þunglyndi eða kvíða og eftir þau námskeið geta nemendur kannski hugsað: Já, mér líður svona, og þá get ég gert þetta til að hjálpa mér,“ segir Dagur, hann tekur þó fram að fólk þurfi ekkert að tjá sig um sín veikindi í skólanum og nemendur er ekki beðnir um það.

Um 20 starfsmenn eru í skólanum, bæði kennarar og jafningjafræðarar, en Dagur segir að margir fyrri nemendur starfi núna sem jafningjafræðarar innan skólans.

Bataskólinn er nýlega fluttur í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð. Kennt er á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá klukkan 14.00-16.00.

Engar aðgangskröfur eru í Bataskólann. Hann er opinn öllum 18 ára og eldri, þeim að kostnaðarlausu en skólinn er fjármagnaður af Reykjavíkurborg og er samstarfsverkefni borgarinnar og Geðhjálpar. ■

Frekari upplýsingar um skólann má fá hjá Degi í síma 693 2179 eða með því að senda póst á bataskoli@bataskoli.is