„Núna erum við að innleiða „betri borg fyrir börn“,“ segir Lína Dögg Ásgeirsdóttir, fjölskyldufræðingur og faglegur teymisstjóri í farteymi hjá Skóla- og frístundasviði.

„En „betri borg fyrir börn“ miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi sem og að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins.“

Hér sé verið að tala um lágþröskuldaþjónustu þar sem þjónustan á að vera aðgengileg og sem næst þeim sem þurfa á henni að halda og þar er líka farið í að styðja við foreldra og forráðamenn barna.

„Stundum erum við að kljást við börn sem eru í miklum erfiðleikum í skólaumhverfinu og svo kemur kannski í ljós að ástæða vanlíðanar barnsins eru erfiðleikar heima fyrir. Það gæti tengst skilnaði foreldra og ólíkum uppeldisáherslum á báðum heimilum barnsins. Það er svo margt sem spilar inn í og mikilvægt að taka mið af þegar unnið er að betri líðan barnsins.“

Mikil samvinna

Lína Dögg vinnur í grunnskólateymi á þjónustumiðstöð þar sem hún er faglegur teymisstjóri í sérúrræði sem vinnur með hegðunarvanda barna á grunnskólaaldri.

„Við leggjum áherslu á gólfvinnu innan skólanna þar sem við komum inn og skoðum skólaumhverfi barnsins og reynum að aðlaga þörfum barnsins. Við störfum alltaf í mikilli samvinnu við skóla sem og foreldra/forráðamenn barnsins.“

Í starfi sínu leggur Lína Dögg ríka áherslu á að barnið sé ekki eyland og sé ávallt í miklum samskiptum við foreldra.

„Enda er mikilvægt að upplifun þeirra og rödd komi fram sem og tenging við líðan barnsins í fjölskyldu­umhverfi þess; ekkert barn í skóla er eyland heldur á barnið alltaf fjölskyldu. Líðan og upplifun foreldra hefur áhrif á líðan barnsins innan veggja skólans. Til þess að tryggja bætta líðan barna innan grunnskólanna skiptir máli að horfa á heildina. Ég er sannfærð um að „betri borg fyrir börn“ muni verða til þess að kerfin fari að tala betur saman og að einmitt verði hægt að vinna með vanda barna á heildstæðari hátt og almennt styðja betur við fjölskyldur og grípa inn í fyrr.“ n