Harpa hefur kennt bakleikfimi í þrjátíu ár eða frá því hún útskrifaðist sem sjúkraþjálfari árið 1991.

„Ég byrjaði að kenna bakleikfimi í Kramhúsinu, síðan kenndi ég í Gáska, Hreyfigreiningu og Heilsuborg, og í dag er ég með bakleikfimi í Heilsuklasanum við Bíldshöfða. Þar er ég með hádegis- og eftirmiðdagstíma tvisvar í viku í frábærri aðstöðu og námskeiðunum fylgir aðgangur að tækjasal,“ greinir Harpa frá.

Harpa lauk sérfræðinámi í stoðkerfisfræðum og meistaragráðu frá háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði um tíma.

„Doktorsgráðu lauk ég árið 2010 frá Háskóla Íslands þar sem ég rannsakaði starfsemi háls og efra baks hjá fólki með hálsverki. Ég kenndi í fimmtán ár í Háskóla Íslands og er í dag með námskeið fyrir sjúkraþjálfara, bæði hér á landi og erlendis,“ segir Harpa.

Rýnt í daglegar athafnir

Regluleg hreyfing og heilbrigður lífsstíll skiptir miklu máli fyrir bæði háls og bak en það þarf einnig að bæta álagsþol stoðkerfisins með uppbyggilegum æfingum.

„Það er hins vegar ekki nóg að gera bara æfingar fyrir hálsinn og bakið heldur þarf að byggja upp stoðkerfið sem heild,“ segir Harpa. „Það þarf að styrkja og liðka til dæmis mjaðmir, fótleggjavöðva og brjósthrygg svo ekki verði ofálag á liði í hálsi og mjóbaki. Í bakleikfiminni legg ég áherslu á góða líkamsstöðu og líkamsbeitingu í æfingum. Styrktaræfingar, jafnvægisæfingar, liðkandi æfingar og teygjur eru gerðar í hverjum tíma, auk æfinga sem bæta samhæfingu og stöðugleika.“

Harpa segir jafnframt mikilvægt að rýna í daglegar athafnir og venjur sem geta átt þátt í að auka verki.

„Fræðsla er því mikilvæg til að bæta líðan og ég sendi þátttakendum á námskeiðum nýtt fræðsluefni í hverri viku.“

Harpa leggur áherslu á góða líkamsstöðu og líkamsbeitingu í æfingum og rýnir í daglegar venjur sem geta átt þátt í að auka verki. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

30 ára reynsla af bakleikfimi

Í mars í fyrra byrjaði Harpa að taka upp myndbönd af bakleikfimi heima í stofu.

„Ég tók upp létta bakleikfimi þar sem æfingar eru einfaldar og ekki eru notuð lóð, en líka bakleikfimi með léttum lóðum sem reynir meira á og bakleikfimi með þyngri lóðum þar sem unnið er meira með eigin líkamsþunga. Ég tók sem sagt upp á myndbönd allt sem ég hef lært þessi þrjátíu ár sem ég hef kennt bakleikfimi. Því til viðbótar tók ég upp mjög létta bakleikfimitíma fyrir þá sem eiga erfitt með að gera æfingar í standandi stöðu og velja að sitja á stól eða styðja sig við eitthvað í æfingum. Samanlagt eru þetta yfir 100 þrjátíu mínútna myndbönd og hægt að velja á milli fimm mismunandi álagsstiga,“ útskýrir Harpa.

Hvert námskeið er þrír mánuðir

„Við skráningu á námskeið fæst aðgangur að þjálfunargátt í tölvunni eða símanum þar sem ný fræðsla og bakleikfimi kemur í gáttina í hverri viku. Í hverri viku bætist við fræðslumyndband og tveir 30 mínútna bakleikfimitímar, auk sérhæfðra æfinga fyrir hálsinn eða bakið. Það er því hægt að byrja hvenær sem er og horfa á myndböndin þegar það hentar,“ segir Harpa.

Allar nánari upplýsingar um bakleikfimi Hörpu er að finna á bakskolinn.com