Katrín Kristjánsdóttir er sálfræðingur og ráðgjafi í mannauðsmálum hjá stofunni Líf og sál. Að hennar sögn sést mjög skýrt að það er aukin vitundarvakning og vitund hvað varðar mikilvægi mannauðs.

„Fyrirtæki eru jú ekkert án starfsfólks og þess vegna skiptir vellíðan á vinnustað öllu máli. Það er að okkar mati aukin áhersla á að gera vel í þeim málum. Við höfum undanfarið lagt áherslu á sálrænt öryggi á vinnustöðum. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvað varðar starfsánægju og þar af leiðandi auðvitað framleiðni að líða vel í vinnunni og ekki síður að upplifa öryggi og traust á vinnustað,“ segir hún.

Fræðsla fyrir starfsfólk og stjórnendur

,,Okkar verkefni fela m.a. í sér að fræða starfsfólk og stjórnendur um sálfélagslega þætti á vinnustaðnum, líkt og samskipti, einelti og áreitni, streitu og hvernig starfshópurinn tekst á við breytingar og erfiða tíma. Við höfum einnig sinnt úttektum á vinnustöðum varðandi þessa þætti. Við teljum mjög mikilvægt og leggjum ríka áherslu á að stjórnendur hafi skýra stefnu varðandi vellíðan á vinnustað sem og verklagsreglur varðandi viðbrögð komi upp atvik eða aðstæður sem ógna sálfélagslegu öryggi starfsfólks.

Við höfum fundið fyrir aukinni vitund og ábyrgð stjórnenda hvað varðar sálfélagslega áhættuþætti. Verkefnum okkar þar að lútandi hefur fjölgað en einnig hafa stjórnendur í auknum mæli leitað ráðgjafar varðandi slík mál.

Við sinnum auk þess stjórnendahandleiðslu og geta stjórnendur leitað til okkar til að efla sig í krefjandi og flóknu hlutverki. Við teljum að þar komi að gagni víðtæk reynsla okkar af atvinnulífinu sem og þekking á sálfélagslegum þáttum. Það er gagnlegt fyrir stjórnendur að tala í trúnaði um snúin og viðkvæm starfsmannamál á vinnustað, fá speglun og vonandi gagnleg ráð. Stjórnendahandleiðsla er eitthvað sem að okkar mati ætti að vera skylda fyrir nýja sem og reynslumikla stjórnendur. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera stjórnandi og því mikilvægt að geta speglað í fullum trúnaði þau mál sem upp koma á vinnustaðnum með utanaðkomandi fagaðila sem hefur engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að vinna vinnuna sína vel!“